Skip to main content
Frétt

Áskorun frá kjarahópi ÖBÍ

By 19. ágúst 2016No Comments

Kjarahópur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) skorar hér með opinberlega á velferðarráðuneytið, fjármálaráðuneytið og Landssamband eldri borgara að eiga samstarf við ÖBÍ um að reikna nú út í eitt skipti fyrir öll þá kjaragliðnun og skattagliðnun sem lífeyrisþegar hafa orðið fyrir síðastliðin ár. Telja ætti til tímabilið frá janúar 2008 til dagsins í dag. Þá ætti að setja fram hver örorkulífeyririnn, ellilífeyririnn og skattleysismörkin væri í dag hefðu þau fylgt launaþróun síðustu ára.

Ríkisstjórnin hefur ekki leiðrétt kjaragliðnunina, eins og forsvarsmenn hennar lofuðu fyrir síðustu alþingiskosningar.

Ef ofangreindir aðilar tækju sig saman og fengu til þess bæran sérfræðing til útreikninga þá  kæmi í ljós í eitt skipti fyrir öll hver staða lífeyrisþega væri og hvort um kjaragliðnun væri að ræða.

Fyrst ráðamenn fullyrða að þessi leiðrétting kjaragliðnunar hafi farið fram þá hljóta þeir að samþykkja niðurstöðuna án tafar ef í ljós kemur að lífeyrisþegar hafa haft rétt fyrir sér. Þá þyrfti ríkistjórnin að standa hratt við loforðin og greiða mismuninn fyrir 1. desember 2016.

Kynna ætti niðurstöðuna á opnum fundi með öllum ofangreindum aðilum.  

Atkvæðisréttur um 48 þúsund lífeyrisþega hlýtur að skipta verulegu máli í komandi kosningum.

Undirrituð vonast eftir sterkum viðbrögðum við þessari áskorun.

Fyrir hönd kjarahóps ÖBÍ

María Óskarsdóttir formaður kjarahóps