Skip to main content
Frétt

Nýtt leiðbeiningarrit um algilda hönnun

By 10. mars 2017No Comments

Málefnahópur Öryrkjabandalags Íslands um aðgengi gaf í dag út 40 blaðsíðna leiðbeiningarrit um algilda hönnun utandyra. Þar er brugðið ljósi á aðgengisþarfir fatlaðs fólks í almenningsrými innan byggðar og af hverju algild hönnun er mikilvæg við skipulagningu gatna og torga.

Algild hönnun telst, samkvæmt skilgreiningu, vera hönnun framleiðsluvara, umhverfis, áætlana og þjónustu sem allir geta nýtt sér, að því marki sem aðstæður leyfa, án þess að koma þurfi til sérstök útfærsla eða hönnun. Algild hönnun útilokar ekki notkun hjálpartækja fyrir fatlað fólk sé þeirra þörf.

Með algildri hönnun er tryggt aðgengi fyrir alla. Það þýðir að fólki sé ekki mismunað hvað varðar aðgengi og almenna notkun mannvirkja á grundvelli fötlunar, skerðingar eða veikinda og geti með öruggum hætti komist inn og út úr mannvirkjum, jafnvel við óvenjulegar aðstæður eins og t.d. eldsvoða.

Málefnahópur ÖBÍ um aðgengi stendur að útgáfunni. Hann fékk Auði Ástráðsdóttur, byggingafræðinema við Háskólann í Reykjavík, til að gera úttekt á aðgengismálum utandyra og gera úrbótatillögur. Harpa Cilia Ingólfsdóttir, byggingafræðingur og ferlihönnuður, var síðan fengin til að skrifa leiðbeiningarritið.

Ellen Calmon, formaður ÖBÍ, segir í inngangi leiðbeiningarritsins að því sé ætlað að veita þeim sem bera ábyrgð á skipulagningu almenningsrýma innan byggðar innsýn í helstu aðgengisþarfir fatlaðs fólks. Ritið ætti að vera hönnuðum, arkitektum og verkfræðingum til handargagns við að útfæra götur og torg út frá hugmyndafræði algildrar hönnunar. Það sé stuðningur við byggingarreglugerð og leiðbeiningarblöð Mannvirkjastofnunar.

Ritið er gefið út á málþingi málefnahópsins, Blindrafélagsins, Verkís, Átaks, félags fólks með þroskahömlun og Reykjavíkurborgar sem haldið er á Grand hótel 10. mars 2017 kl. 9-13. Málþingið er haldið í tengslum við alþjóðlegan dag aðgengis, sem er 11. mars, og þar er fjallað um aðgengismál innan byggðar og á ferðamannastöðum.