Skip to main content
Frétt

ÖBÍ tekur undir tillögur vistheimilanefndar

By 8. febrúar 2017No Comments

Vistheimilanefnd skorar á Alþingi og stjórnvöld að tryggja, efla og verja full mannréttindi fatlaðs fólks til jafns við aðra og skapa þeim skilyrði til að lifa sjálfstæðu lífi. Nefndin skilaði í gær skýrslu þar sem fram kemur að fötluð börn sem voru vistuð á Kópavogshæli á árunum 1952 til 1993 hafi sætt grófu ofbeldi og vanrækslu.

„Mér er verulega brugðið, eins og vonandi öllum sem kynnt hafa sér niðurstöðu þá sem nú liggur fyrir og kemur fram í skýrslu vistheimilanefndar sem kynnt var í gær,“ segir Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands.

Árið 2008 fóru Landssamtökin Þroskahjálp þess á leit við forsætisráðherra að hann hlutaðist til að opinber rannsókn yrði gerð á aðbúnaði fatlaðra barna á stofnunum. Beiðnin var ítrekuð 2009. Um mitt ár 2012 brást forsætisráðherra við erindinu og endurskipaði þá vistheimilanefnd til að taka til sérstakrar rannsóknar vistun og aðbúnað barna með fötlun á opinberum stofnunum.

 

Skýrslu skilað

Vistheimilanefnd skilaði í gær ítarlegri skýrslu um könnun á vistun barna á Kópavogshæli 1952-1993. Þar kemur fram að börn á Kópavogshæli á þessum tíma hafi sætt andlegu og líkamlegu ofbeldi og vanrækslu þegar þau voru vistuð á fullorðinsdeildum.

„Í skýrslunni er lýst grimmilegri meðferð starfsfólks á fötluðum börnum og fólki,“ segir Ellen.

Frétt RÚV: 9 ára barn „bundið út í garði allan daginn“

Frétt Vísis: Vissu að hælið væri vondur staður: Settu blindan dreng í bað, skrúfuðu aðeins frá heitu vatni og brugðu sér frá

Frétt Mbl: Börn voru bitin, lamin og bundin

 

Vanræksla og sanngirnisbætur

Þá er dregin sú ályktun að heilbrigðisráðuneyti og opinberar stofnanir hafi vanrækt eftirlitsskyldur sínar,“ segir Ellen.

Frétt RÚV: Yfirvöld vanræktu eftirlitsskyldu með hælinu

Frétt RÚV: Stjórnendur Kópavogshælis hunsuðu ábendingar

Fram kemur í fréttum um málið að hátt í hundrað manns sem voru vistaðir á Kópavogshæli séu enn á lífi og geti átt rétt á sanngirnisbótum. Á fjárlögum 2017 sé veitt 80 milljónum króna til greiðslu slíkra bóta.

 

Tillögur nefndarinnar.

„Nefndin gerir meira en að rannsaka og rýna til gagns,  því hún kemur fram með tillögur um úrbætur svo að koma megi í veg fyrir að slíkir hryllings atburðir eigi sér aftur stað,“ segir Ellen Calmon, formaður ÖBÍ. „Tek ég heilshugar undir þær tillögur og áskorun Vistheimilanefndar til Alþingis og stjórnvalda að tryggja, efla og verja full mannréttindi fatlaðs fólks til jafns við aðra og skapa skilyrði svo að allt fatlað fólk fái lifað sjálfstæðu lífi.“

 

Aðrar tillögur nefndarinnar:

  • Vistheimilanefnd hvetur til þess að gerð verði úttekt á störfum réttindagæslumanna og persónulegra talsmanna. Nefndin undirstrikar nauðsyn þess að tryggja að umfang þjónustunnar nái því lágmarki að tryggja fötluðu fólki aðstoð við hvers konar réttindagæslu. Sérstaklega verði að huga að aðstoð við fólk með þroskahömlun í tengslum við frekari kannanir á illri meðferð og ofbeldi og við uppgjör sanngirnisbóta eftir atvikum.
  • Vistheimilanefnd hvetur stjórnvöld til að kanna frekar umfang og eðli ofbeldis gegn fötluðum börnum og grípa til markvissra aðgerða til að koma í veg fyrir ofbeldi gegn fötluðum börnum í samfélaginu.
  • Vistheimilanefnd mælir með því að mótað verði sérstakt verkefni um að fötluð börn njóti verndar barnaverndaryfirvalda, lögreglu, ákæruvalds og dómskerfis eftir atvikum, við rannsókn, meðferð og þjónustu vegna gruns um líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt ofbeldi.
  • Vistheimilanefnd hvetur Alþingi og stjórnvöld til að forgangsraða í þágu þess að tryggja rétt fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs. Tryggja verði heildstæða, samfellda og örugga þjónustu sniðna að einstaklingsþörfum. Leggja beri sérstaka áherslu á snemmtæka íhlutun og þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur þeirra.
  • Vistheimilanefnd hvetur Alþingi og stjórnvöld eindregið til að sjá um að húsnæði fyrir fatlað fólk uppfylli skilyrði laga nr. 59/1992 með síðari breytingum, um málefni fatlaðs fólks, og reglugerðar nr. 1054/2010, um þjónustu við fólk á heimili sínu. Nefndin leggur áherslu á að skipulagt verði reglubundið og markvisst eftirlit með aðstæðum og aðbúnaði fólks í mismunandi búsetuúrræðum.
  • Vistheimilanefnd hvetur stjórnvöld til að kanna og tryggja að gripið hafi verið til lögbundinna ráðstafana til að koma í veg fyrir nauðung í þjónustu við fatlað fólk. Telur nefndin brýnt að séð verði til þess að ákvæði um bann við beitingu nauðungar gildi um alla þá fagaðila sem veita börnum þjónustu í daglegu lífi, svo sem á heimilum, stofnunum, leikskólum, skólum eða í annars konar úrræðum.