Skip to main content
Frétt

Vefur ÖBÍ fær aðgengisverðlaun

By 1. febrúar 2016No Comments
Íslensku vefverðlaunin 2015 voru veitt í Gamla bíói, þann 29. janúar síðastliðinn af Samtökum vefiðnaðarins (SVEF). Vefur ÖBÍ var í hópi „Topp 5“ í 2 af 15 flokkum, það er „Aðgengilegasti vefurinn“ og „Non-profit vefur“. Vefur bandalagsins sigraði í flokknum „Aðgengilegasti vefurinn“.

Verðlaunin eru uppskeruhátíð vefiðnaðarins, haldin með það að markmiði að efla hann, verðlauna bestu vefina og hvetja þá sem starfa á þessum vettvangi til dáða. Hátt í 200 vefir voru tilnefndir í keppnina. Í niðurstöðum dómnefndar sagði meðal annars um vef ÖBÍ:

„…aðgengi að rafrænum upplýsingum og þjónustu eru ekki bara mannréttindi og skyld heldur bætir notendaupplifun fólks almennt og skapar ný sóknarfæri.

Grunnatriði á borð við lyklaborðsvirkni, litamótstöðu, og merkingu tengla og innsláttarrita, villiboð, kennileyti og annað eru til fyrirmyndar á þessum vef.

Rúsínan í pylsuendanum er svo sú mikla vinna sem lögð var í táknmálstúlkun á margmiðlunarefni.“

Nýr og aðgengilegur snjallvefur ÖBÍ var opnaður 3. desember 2015. Til liðs við starfsfólk ÖBÍ sem sinnir vefmálum og unnu að gerð þessa vefs voru fengnir:

  • Sigurjón Ólafsson, Funksjón, sem sá um þarfagreiningu og undirbúning tilboða til veffyrirtækja.
  • Stefna hugbúnaðarhús, sem sá um útlit og vefun.

Úttekt á aðgengi vefsins og notendaprófun var í höndum Sjá ehf. Einnig var leitað til Birkis Rúnars Gunnarssonar sem tók út ýmis tækni- og aðgengisatriði sem snúa að blindum notendum vefsins.

Sjá upplýsingar um sigurvegara á svef.is