Skip to main content
Umsögn

9. mál Skattleysi launatekna undir 350.000 kr.

By 6. febrúar 2020No Comments
Alþingi                                                                                 
Nefndasvið
Austurstræti 8-12
150 Reykjavík
 
Reykjavík, 31.10.2019
 

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um tillögu til þingsályktunar um skattleysi launatekna undir 350.000 kr. Þingskjal 9 – 9. mál.

Í umsögnum ÖBÍ til Alþingis hefur skattlagning lágra tekna, sem engan veginn duga til framfærslu, verið gagnrýnd ítrekað.[1] Því styður bandalagið þingsályktunartillögur sem fela í sér að lækka skattbyrði lágtekjufólks og leiðrétta þá miklu tilfærslu skattbyrði frá efstu tekjuhópnum til lægri og milli tekjuhópa sem átt hefur sér stað á síðustu árum.
 
Breytingar á skattaumhverfinu á undanförnum árum hafa ekki verið til hagsbóta fyrir örorkulífeyrisþega og annað lágtekjufólk. Skattbyrði þessa hóps hefur aukist mjög mikið. Eins og fram kemur í skýrslu sem  unnin var fyrir Eflingu stéttarfélag  og vísað er til í greinargerð með þingsályktunartillögunni, og skýrslu ASÍ frá árinu 2017: Skattbyrði launafólks 1998–2016, hefur skattbyrði tekjulægstu hópunum aukist talsvert.
 
Ein af meginástæðum aukinnar skattbyrði, einkum lágtekjufólks, er að persónu- afsláttur hefur ekki fylgt launaþróun. Hins vegar fylgdi uppfærsla fjárhæðarmarka skattþrepa launaþróun fram til ársins 2019.[2]. Örorkulífeyrisþegar eins og annað lágtekjufólk greiða skatt í neðra þrepi. Persónuafsláttur hefur mest áhrif á þá tekjulægstu þar sem um fasta upphæð er að ræða. Því yrði veruleg hækkun hans mikil kjarabót fyrir lágtekjufólk. Persónuafsláttur árið 2019 er 56.447 kr. Ef hann hefði fylgt launavísitölu, sem var tekin upp árið 1989, væri hann 120.005 kr. á mánuði vegna ársins 2019 og skattleysismörk 325.000kr. á mánuði. [3]  
 
Lögð er áhersla á að hækkun persónuafsláttar nýtist lágtekjufólki mun betur en lækkun skattprósentu í lægra skattþrepi. Slík aðgerð viðheldur ójöfnuði og raunar eykur hann ójöfnuð.  Hækkun persónuafsláttar er einföld og skilvirk leið til að bæta kjör hinna lægst launuðu, eykur jöfnuð og flækir ekki skattkerfið. Árið 2019 greiða skattgreiðendur tekjuskatt af tekjum yfir  152.807 kr. á mánuði.[4] Einstaklingur með óskertan örorkulífeyrir almannatrygginga 243.183 kr. tekjur á mánuði greiðir tæpar 35.000 kr. í staðgreiðslu.Tillagan eykur sérstaklega ráðstöfunartekjur þeirra sem eru á lágum launum á vinnumarkaði eða á lífeyri. Fólki með lágar tekjur munar mikið um þessar krónur.
Tekjur sem ekki hrökkva fyrir lágmarksframfærslu skattlagðar. Mjög mikilvægt er að gera sem allra fyrst breytingar á skattlagningu með það að markmiði, að jafna skattbyrði milli tekjuhópa þannig að hún verði líkari því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum og hlífa lágtekjufólki við skattbyrði.
 
Í greinargerðinni kemur fram að með þeirri breytingu sem lögð er til í þingsályktunartilögunni mundu tekjur ríkis- og sveitarfélaga lækka um 32. milljarða kr. við hækkun skattleysismarka í 300.000 kr. Hækkun þeirra í 350.000 kr. myndi auk þetta tekjutap nokkuð. Því er mikilvægt að með slíkri breytingu fylgi aðrar aðgerðir og breytingar þannig að leiðrétting og færsla skattbyrði frá tekjulágum hópum til tekjuhærri veiki ekki velferðarkerfið.
 
Ekkert um okkur án okkar.
 
Virðingarfyllst,
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ.
 

[1] Dæmi um umsagnir síðustu ár: Umsögn ÖBÍ um fjármálaáætlun 2019-2023, umsögn ÖBÍ um fjárlög 2018, umsögn ÖBÍ um fjármálaáætlun 2018-2022, umsögn ÖBÍ um fjárlög 2017.
[2] Fyrir árið 2019 var sett bráðaákvæði um að hækkun skuli fylgja þróun vísitölu neysluverðs
[3] Uppreiknað til desember 2017.
[4] Ef tekið er tillit til 4% iðgjalds í lífeyrissjóð er upphæðin 159.174 kr. á mánuði.