Skip to main content
Frétt

1. maí ávarp Þuríðar Hörpu Sigurðardóttur, formanns ÖBÍ

By 1. maí 2022No Comments
Í dag á baráttudegi verkalýðsins, minnum við á baráttu okkar allra fyrir betra og jafnara samfélagi. Baráttan fyrir bættum kjörum er þar vitaskuld í forgrunni.

Mikið hefur áunnist í baráttunni fyrir bættum kjörum vinnandi fólks. Þar hefur verkalýðshreyfingin lyft grettistaki. Það er mikið öryggi fólgið í að eiga sér sterkan málssvara þegar kemur að samningaborðinu.

Einn er sá hópur, sem þrátt fyrir sterkan málssvara, fær aldrei að setjast við samningaborð. Fær ekki tækifæri til að semja um sín kjör. Fatlað fólk er sett í þá stöðu að sætta sig það sem að því er rétt, sama hversu lítið það er. Gert að sitja undir þeirri umræðu að að sé samfélaginu svo dýrt. Samt er málum svo fyrir komið að fötluðu fólki er skipulega haldið frá því að vera virkir þátttakendur. Að sú þekking, reynsla og hæfni sem það býr yfir, nýtist öllum, samfélaginu til framdráttar.

Þó að við eigum fundi með stjórnmálamönnum, þar sem kjör okkar eru rædd, er niðurstaðan alltaf einhliða ákvörðun þeirra.

Síðastliðin tólf ár rúm, hefur örorkulífeyrir stöðugt dregist aftur úr launaþrónun í landinu. Nú, við þessi tímamót, þegar hagvaxtarauki bætist við launatöflur, eru lágmarkslaun orðin um hundrað þúsund krónum hærri en grunn lífeyrir. Þessari þróun verður að snúa við. Það getur ekki verið samboðið okkur sem þjóð, í vel stæðu þjóðfélagi, að búa ekki betur að þeim sem einhverra hluta vegna geta ekki verið að fullu eða alls ekki þátttakendur á vinnumarkaði.

Verðbólga er á fleygiferð, húsaleiga hækkar, líka hjá þeim sem leigja af óhagnaðardrifnum leigufélögum, og matvæli hækka. Allt brýnar nauðsynjar sem við þörfnumst, bara til að lifa. Fatlað fólk á rétt á því að lifa innihaldsríkara lífi en bara að lifa af, skrimta. Við verðum aldrei samfélag réttlætis, sanngirnis og jöfnuðar, meðan fötluðu fólki er skipulega haldið við fátæktarmörk.

Það er því skýlaus krafa Öryrkjabandalagsins að örorkugreiðslur verði endurskoðaðar nú þegar, og hækkun verði nú á miðju ári, til að leiðrétta þá rýrnun sem orðið hefur frá áramótum, og þá 10.500 króna hækkun sem hagvaxtaraukinn færir launafólki, sem þýðir að fatlað fólk dregst enn aftur úr lágmarkslaunum. Það er óþolandi ástand.

Viðbrögð okkar við heimsfaraldrinum sýndu svo ekki verður um villst, að viðeigandi aðlögun er lykill að þátttöku allra á vinnumarkaði. Að sinna störfum tímabundið, með sveigjanlegum tímaramma hélt þjóðfélaginu gangandi. Það er mikilvægt að við gleymum ekki hvernig við brugðumst við, því þar er að finna lykil að til dæmis frekari þátttöku fatlaðs fólks.

Það er skýlaus krafa fatlaðs fólks að lífskjör þess verði bætt. Það er ekki samboðið okkur að viðhalda núverandi ástandi lengur. Það er skýlaus krafa að á okkur sé hlustað, og einhliða ákvarðanir um kjör okkar lagðar til hliðar. Í stað þeirra kæmi markvert samráð eins og samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks kveður á um að sé skylda.

Samfélag okkar verður aldrei samfélag jöfnuðar og réttlætis fyrr en allir fá að vera með, á sínum forsendum. Ekki meðan stórum hópi er skipulega haldið við fátæktarmörk með einhliða ákvörðunum stjórnmálamanna. Það hefur verið, er, og verður alltaf okkar barátta.

Til hamingju með daginn.