Skip to main content
FréttHeilbrigðismálMálþing og ráðstefnur

Upptaka frá málþingi um komugjöld í heilbrigðisþjónustu

By 23. nóvember 2022No Comments
Frá málþingi ÖBÍ réttindasamtaka um komugjöld í heilbrigðisþjónustu.

„Viljinn er ekki allt sem þarf,“ sagði Willum Þór Þórsson á málþingi heilbrigðismálahóps ÖBÍ réttindasamtaka um komugjöld í heilbrigðisþjónustu á Grand hótel í Reykjavík í dag.

Komugjöldin voru til umfjöllunar á málþinginu en þau eru tilkomin vegna langvarandi samningsleysis ríkisins við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara. Í ávarpi ráðherra kom meðal annars fram að eftir að samningar við sérgreinalækna runnu út í lok árs 2018 hafi verið sett á reglugerð um endurgreiðslukostnað og hún síðan verið framlengd endurtekið.

Þetta þýðir í stuttu máli að notendur þjónustunnar þurfa að borga komugjöld, stundum nefnd „leiðréttingargjöld vegna samningsleysis“ á reikningum. Upphæðin getur verið nokkuð misjöfn. Þessi kostnaður bitnar augljóslega á þeim sem þurfa oftast að leita til sérgreinalækna og/eða sjúkraþjálfara. Sá hópur á jafnan síst efni á þessum útgjöldum.

Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður heilbrigðismálahóps ÖBÍ réttindasamtaka, fór yfir tölfræðilegar upplýsingar á málþinginu og tók dæmi frá því í gær um einstakling sem þurfti að borga 5.300 krónur auk virðisaukaskatts vegna „leiðréttingar vegna samningsleysis við sérfr.lækna“.

Samkvæmt skýrslu ÖBÍ frá árinu 2020 nam heildarsumma greiddra komugjalda árið 2020 1,7 milljarði króna. Miðað við verðhækkanir bæði í byrjun þessa árs og um mitt árið má áætla að þessi tala standi í það minnsta kosti í fimm milljörðum fyrir árið 2022. Sum sé, þeir sem hafa þurft að leita til sérgreinalækna og/eða sjúkraþjálfara á árinu hafa þurft að borga samtals fimm milljarða króna vegna samningsleysis við hið opinbera.

Willum Þór heilbrigðisráðherra fór yfir það í ávarpi sínu að vegna þessara aukagjalda hafi sumir hverjir neitað sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu þar sem fólk á einfaldlega ekki efni á því að greiða þessi gjöld. Biðlistar hafa sömuleiðis lengd vegna gjaldanna og uppsafnaðrar þarfar fyrir þjónustu. Ráðherra sagði gríðarlegt hagsmunamál fyrir þjóðina að samningar náist.

Hér að neðan má nálgast upptöku af öllu málþinginu. Á upptökunni má finna ávarp heilbrigðisráðherra, auk ávarpa formanna Sjúkraþjálfarafélags Íslands og Læknafélags Reykjavíkur sem og forstjóra Sjúkratryggingafélags Íslands. Einnig fór Vilhjálmur Hjálmarsson yfir tölulegar upplýsingar. Fundinum lauk svo á pallborðsumræðum.

Hér má horfa á upptöku frá málþingi heilbrigðismálahóps ÖBÍ um komugjöld í heilbrigðisþjónustu. Upptakan er bæði texta- og táknmálstúlkuð.