Skip to main content
AðgengiUmsögn

Drög að upplýsingastefnu stjórnvalda

By 7. október 2022No Comments

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um drög að upplýsingastefnu stjórnvalda

Því ber að fagna að stjórnvöld marki sér upplýsingastefnu enda ekki vanþörf á, en ekki er síður brýnt að stjórnvöld framfylgi henni. Fatlað fólk er brennt af samskiptum við stjórnvöld þar sem upplýsingar eru ónógar og leiðbeiningaskyldu ekki fylgt en á sama tíma eru ósveigjanlegar kröfur lagðar á einstaklinga, oft í mjög viðkvæmri stöðu, að veita alls kyns upplýsingar, jafnvel á hæpnum grunni.

ÖBÍ leggur áherslu á eftirfarandi:

Stjórnvöldum beri að upplýsa um forsendur ákvarðana. Algengt er að fötluðu fólki sé neitað um þjónustu, réttindi og í mörgum tilvikum lífeyri án rökstuðnings eða á hæpnum forsendum, þegar ekki er með góðum hætti hægt að uppfylla skilyrði tiltekinnar stofnunar.

Stjórnvöldum beri jafnframt að láta af því að láta fatlað fólk eltast við alls kyns gögn til að styðja umsóknir og beiðnir nema að framsettar forsendur rökstyðji nauðsyn þess. Bent er á að úrskurður umboðsmanns Alþingis liggur fyrir í máli nr. 10021/2019 þar sem áréttað er að sú skylda sé lögð „[…] á aðila stjórnsýslumáls að veita upplýsingar í máli sem hæfist að hans frumkvæði afmarkaðist við þær upplýsingar sem væru nauðsynlegar og með sanngirni mætti ætla að hann gæti lagt fram án þess að það íþyngdi honum um of. Við það mat væri litið til eðlis máls og stöðu málsaðila. Ætla yrði að minnstar kröfur verði gerðar til þeirra einstaklinga sem standa höllum fæti og eru að sækja um lögmælta aðstoð vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar eða sambærilegra atvika, sbr. 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Ef farið væri fram úr þessum mörkum yrði almennt að krefjast skýrrar lagaheimildar fyrir meiri íþyngjandi upplýsingagjöf af hálfu málsaðila.

Stjórnvöld uppfylli leiðbeiningaskyldu sína gagnvart einstaklingum sem leita eftir aðstoð og veiti greinargóðar upplýsingar um réttindi á heimasíðu og í samskiptum. Heitið „kerfisfræðingur“ hefur verið notað um það fólk sem hefur ekki gert annað af sér en að kynna sér réttindi sín og þjónustu í kerfinu þrátt fyrir þær hindranir sem hafa verið settar upp til að koma í veg fyrir það. Upplýsingar um þjónustu við fatlað fólk þurfa að vera skýrar, auðlesnar, auðfundnar og tæmandi.
Stjórnvöld virði málshraðareglu, en erindum er oft svarað seint, illa eða ekki.

Stjórnvöld komi til móts við alla einstaklinga í miðlun upplýsinga, svo sem með framsetningu á einfölduðu máli og með því að sjá til þess að stafrænt aðgengi sé virt á heimasíðum og öppum. Ísland er sennilega síðasta landið í Evrópu til að innleiða aðgengistilskipun ESB (e. European Accessibility Act) og á jafnframt eftir að innleiða veftilskipun ESB (WAD). Noregur hefur og er að innleiða hvoru tveggja og hefur lagt áherslu á að gera það vel. Lagt er til að þeirra fordæmi sé fylgt.

Stjórnvöld geri áætlun um að aflæsa pdf-skrám fyrir fólk með sjónskerðingu.

Stjórnvöldum sé gert að veita fólki sem nýtur þjónustu eða þarf á þjónustu að halda upplýsingar á þann hátt sem það kýs og þarf. Sumt fólk getur ekki lesið á pappír, sumir vilja ekki að hringt sé í það, sumir heyra ekki í síma, o.s.frv. Til okkar hefur leitað blind kona sem veiktist mikið og þurfti að fara í meðferð með tilheyrandi rannsóknum. Hún missti af tímum því læknirinn boðaði hana til sín með sms-skilaboðum sem hún varð ekki vör við. Það er mjög alvarleg yfirsjón og má telja líklegt að heilsu hennar hafi hrakað vegna þessa.

Skortur á samráði

ÖBÍ á í miklum samskiptum við stjórnvöld fyrir hönd fatlaðs fólks sem leitar til ráðgjafa ÖBÍ í öngum sínum og talsverðri neyð. Bætt upplýsingagjöf er því mikið hagsmunamál ÖBÍ. Því eru það mikil vonbrigði að ekki var leitað til ÖBÍ við mótun upplýsingastefnu stjórnvalda. Þegar skoðað er til hverra starfshópurinn leitaði má sjá að stefnan er eingöngu mótuð af þeim sem ber að veita upplýsingarnar en ekki þeim sem þurfa og eiga rétt á upplýsingum, en hafa oft ekki fengið. Því vantar algerlega sjónarmið notandans í þessa vinnu.

Upplýsingum hefur því verið haldið frá notendum um að unnið sé að upplýsingastefnu og þeir hafa því ekki tök á að taka þátt í mótun hennar eins og stjórnvöldum ber að tryggja sbr. 3. mgr. 4. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF):

„Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“

Ekkert um okkur án okkar.

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Stefán Vilbergsson, verkefnastjóri ÖBÍ


Umsögnin var send í Samráðsgátt stjórnvalda, 7. október 2022. Viðtakandi: Forsætisráðuneytið. Skrifstofa stjórnskipunar og stjórnsýslu. Mál nr. 164/2022. Nánar um málið