Skip to main content
AðgengiUmsögn

Breyting á lögum um fjölmiðla

By 10. janúar 2023nóvember 30th, 2023No Comments
Skjáskot úr áramótaskaupinu 2023. Leikhúsketsinn með Haraldi Þorleifssyni, Jóni Gnarr og fleirum "Texti: "prufan er búin. Þú mátt hætta að leika"

„ÖBÍ hefur um árabil vakið athygli á skorti á textun innlends sjónvarpsefnis, sem hefur valdið því að heyrnarskert fólk, aldraðir, börn og innflytjendur hafa ekki haft sömu tækifæri og aðrir til að fylgjast með og taka þátt í umræðu um samfélagsleg málefni.“

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 (stuðningur við einkarekna fjölmiðla)

ÖBÍ leggur til að fjárveitingar til fjölmiðla séu háðar því að aðgengi fatlaðs fólks að þeim sé óskert.

Greinargerð

Markmið lagafrumvarpsins er skv. 1. gr. að „styðja og efla ritstjórnir á einkareknum frétta- og dagskrármiðlum sem gefa út fréttir og fréttatengt efni og/eða fjalla um samfélagsleg málefni með því að veita einkareknu frétta- og dagskrármiðlunum rekstrarstuðning.“

Í 21. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem fullgiltur var á Íslandi árið 2016 og stendur til að lögfesta samkvæmt ríkisstjórnarsáttmála segir:

Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk geti nýtt sér rétt sinn til tjáningar- og skoðanafrelsis, þ.m.t. frelsis til að leita eftir, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum, til jafns við aðra, með hvers kyns samskiptamiðlum að eigin vali, samanber skilgreiningu í 2. gr. samnings þessa, þar á meðal með því […] að hvetja fjölmiðla, þ.m.t. upplýsingaveitur á netinu, til þess að gera þjónustu sína aðgengilega fötluðu fólki.

Þjónusta fjölmiðla, og ekki síst sjónvarpsstöðva, er ekki ýkja aðgengileg fötluðu fólki og stjórnvöld hafa lítið gert til að tryggja úrbætur hvað það varðar. ÖBÍ hefur um árabil vakið athygli á skorti á textun innlends sjónvarpsefnis, sem hefur valdið því að heyrnarskert fólk, aldraðir, börn og innflytjendur hafa ekki haft sömu tækifæri og aðrir til að fylgjast með og taka þátt í umræðu um samfélagsleg málefni. Það hefur liðist því að í lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, er mun ríkari krafa á textun erlends efnis en íslensks, sbr. 29. og 30. gr.

Samkvæmt 29. gr. laganna skal erlendu efni „jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni“, en samkvæmt 30. gr. laganna skulu „þær fjölmiðlaveitur sem miðla myndefni […] eins og kostur er leitast við að gera þjónustu sína aðgengilega sjón- og heyrnarskertum auk þeirra sem búa við þroskaröskun.“ Það hefur valdið því að erlent efni er jafnan textað en innlent efni sjaldnar, og nær eingöngu í útsendingum RÚV. Aðgengi fatlaðs fólks hefur ekki talist jafnmikilvægt og þörfin til að efla íslenska tungu.

Aðgengi verður ekki bætt nema með lagabreytingu eða að fjárstuðningur til fjölmiðla sé háður því að fjölmiðlum sé gert að tryggja öllum sama aðgang að útsendu efni samkvæmt samningi.

Ekkert um okkur án okkar.

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Fjölmiðlar (stuðningur við einkarekna fjölmiðla) 543. mál, lagafrumvarp. Umsögn ÖBÍ, 10. janúar 2023.

Sjá nánar um málið á vef Alþingis