Skip to main content
Frétt

1. maíganga ÖBÍ – Burt með fordóma

By 28. apríl 2014No Comments

Í 1. maígöngunni í ár höfum við ákveðið að setja baráttuna um fordómalaust samfélag – betra samfélag fyrir alla á oddinn. Sjá viðburð á Facebook.

Bréf frá Ellen Calmon formanni ÖBÍ til félagsmanna

Góðan daginn og gleðilegt sumar kæri félagi. 

Ég skrifa þér í von um að sjá þig og þína félagsmenn í göngunni fimmtudaginn næstkomandi eða 1. maí. Í ár höfum við ákveðið að setja baráttuna um fordómalaust samfélag – betra samfélag fyrir alla á oddinn. Við ætlum að nýta okkur þá jákvæðu tóna sem eru í Eurovisionlagi Pollapönkaranna þar sem í textanum segir; „Burt með fordóma“. 

Með því að uppræta fordóma í samfélaginu fáum við betri skilning og stuðning við okkar baráttumál. Fordómalaust samfélag hlýtur að vera samfélag mannréttinda og velferðar þar sem fólk nýtur skilnings og stuðnings á alla vegu.

Gönguhópurinn okkar verður litríkur þetta árið og það gerum við með því að gefa öllu göngufólki „buff“ (efnisstrokkur til að hafa á höfði eða um háls). Buffið verður með áletrun og marglitum táknmyndum meðal annars þeim sem sjást hér í bréfsefninu. Myndirnar vísa til fjölbreytileika samfélagsins og minnir á að fólk er allskonar, þar á meðal fatlað fólk. Áletrunin á buffinu segir „Burt með fordóma“ og „Betra samfélag“. 

Þá höfum við einnig látið útbúa forgönguborða sem er um 4 metrar á breidd og með sömu myndum og áletrun og buffið, auk þess verða öll aðildarfélögin þar upptalin. Forgönguborðinn verður borinn fremst í okkar gönguhópi. 

Hlakka til að sjá þig þann 1. maí 

Hvar: Á planinu við Arionbanka við Hlemm. 

Hverjir: Allir sem vilja fordómalaust og betra samfélag. 

Klukkan: 13 ætlum við að hittast en gangan hefst kl. 13:30. 

Hvert: Niður Laugaveginn, út Bankastrætið, Austurstrætið og að Ingólfstorgi þar sem formleg dagskrá hefst kl. 14:10. 

Styttri leið: Þeir sem vilja stytta sér leið geta hist við klukkuna á Lækjartorgi og slegist í hópinn þegar hann nálgast. 

Gerum daginn góðan og fáum fjölskyldu og vini til þátttöku. 

Saman erum við sterkari! 

Baráttukveðjur 

Ellen Calmon formaður ÖBÍ 

Bréf Ellenar Calmon formanns ÖBÍ vegna 1. maígöngunnar 2014