Skip to main content
Frétt

4% hækkun almannatryggingabóta mótmælt!

By 28. mars 2008No Comments
Öryrkjabandalag Íslands, Alþýðusamband Íslands og Landssamband eldri borgara mótmæla harðlega þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hækka elli- og örorkulífeyri um einungis kr. 4.000-5.000 í kjölfar nýgerðra kjarasamninga.

Ályktun Alþýðusambands Íslands, Öryrkjabandalags Íslands og Landssambands eldri borgara

Alþýðusamband Íslands, Öryrkjabandalag Íslands og Landssamband eldri borgara mótmæla harðlega þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hækka elli- og örorkulífeyri um einungis kr. 4.000-5.000 í kjölfar nýgerðra kjarasamninga.

Megin markmið verkalýðshreyfingarinnar í nýgerðum kjarasamningum var að bæta kjör þeirra verst settu í þjóðfélaginu og í samræmi við það náðu aðildarsamtök ASÍ og SA samkomulagi um hækkun lægstu launa um 18.000 kr. á mánuði. Við frágang kjarasamninga var talað um sögulegt samkomulag og almenn sátt og ánægja ríkti í samfélaginu um þá leið sem farin var, enda lýsti ríkisstjórnin sérstaklega yfir ánægju sinni með þessar áherslur.

Það þarf enginn að fara í grafgötur með að fjöldi fólks í hópi öryrkja og aldraðra eru meðal þeirra sem lægstar hafa tekjurnar í okkar þjóðfélagi. Það skýtur því algerlega skökku við að bætur lífeyrisþega eigi í kjölfar nýgerðra kjarasamninga aðeins að hækka um 4%, sem jafngildir kr. 4.000-5.000 hækkun á lægstu bótum.  Hvernig ríkisstjórnin getur komist að þeirri niðurstöðu að 18.000 króna hækkun lægstu launa á vinnumarkaði samsvari hækkun bóta almannatrygginga um 4.000-5.000 kr. á mánuði er óskiljanlegt. Sú upphæð er eins og við blasir aðeins lítill hluti þess sem samið var um í kjarasamningunum.

Það er því ljóst að ríkisstjórnin er með þessari ákvörðun sinni að ganga þvert gegn grundvallaráherslu og markmiðum kjarasamninganna – markmiðum sem hún áður hafði tekið undir og samþykkt.  Með ákvörðun sinni er ríkistjórnin að svipta lífeyrisþega mikilvægum og nauðsynlegum kjarabótum. 

Alþýðusambandið, Öryrkjabandalagið og Landssamband eldri borgara krefjast þess að ríkisstjórnin standi við fyrri yfirlýsingar sínar og hækki bætur almannatrygginga til jafns við kjarasamninga –það þýðir hækkun um kr. 18.000 á mánuði fyrir þá sem eru á lægstu bótum!

Nánari upplýsingar:

Halldór Sævar Guðbergsson, formaður ÖBÍ, sími 849 7741

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastóri ASÍ, sími 896 4559

Helgi K. Hjálmsson, formaður LEB, sími: 892 4802