Skip to main content
Frétt

70% færri lífeyrisþegar fá uppbót

By 25. febrúar 2014No Comments

Mikilvægt að tekjuviðmiðið hækki strax í 240.860 krónur segir Ellen Calmon, formaður ÖBÍ í Fréttablaðsinu 24. febrúar, þar vísar hún meðal annars til svars félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrispurn Steinunnar Þóru Árnadóttur, varaþingmanns VG.

Fjöldi tekjulágra lífeyrisþega sem fá aðstoð við að standa straum af kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu hefur lækkað um tæplega 70 prósent síðan árið 2009. Ástæðan er sú að tekjuviðmið hafa staðið í stað. Á sama tíma hækkar heilbrigðiskostnaður.

Tekjulægstu lífeyrisþegarnir, sem hafa innan við 200.000 krónur á mánuði, fá uppbótargreiðslur til þess að standa straum af meðal annars lyfja- og læknisþjónustu, heyrnartækjum og umönnun í heimahúsum. Einstaklingum sem fá uppbótargreiðslur hefur fækkað mjögmikið, eða um tæp 70 prósent frá því árið 2009.

Væri 240.860 krónur ef fylgt væri hækkun bóta á sama tíma

Í svari félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn Steinunnar Þóru Árnadóttur varaþingmanns segir að ástæðan að baki fækkuninni sé sú að tekjuviðmið hafi ekki hækkað í sama hlutfalli og bætur lífeyristrygginga. Ef tekjuviðmiðið hefði fylgt bótum lífeyrisþega væri það 240.860 krónur í dag.

Þórdís Bjarnleifsdóttir fékk samþykkta uppbót vegna kaupa á heyrnartæki á síðasta ári. „Ég þurfti að skuldsetja mig til að kaupa tækið og hélt að ég fengi endurgreitt,“ segir Þórdís. Það varð hins vegar ekki raunin, því þegar bætur voru hækkaðar um 3,6 prósent um áramót var ákvörðun um endurgreiðslu afturkölluð. Bætur Þórdísar hækkuðu um 6.000 krónur og var hún þá komin yfir viðmið Tryggingastofnunar. „Nú sit ég uppi með skuldina. Þetta skiptir mig miklu máli því ég næ nú þegar ekki endum saman,“ segir Þórdís sem skuldar yfir tvö hundruð þúsund krónur vegna heyrnartækisins.

Árið 2009 fengu 3.393 lífeyrisþegar uppbót, en 1.075 árið 2013

Í svari ráðherra segir að ef tekjuviðmiðið yrði hækkað myndi fjöldi lífeyrisþega sem fengi greidda uppbót tvöfaldast. Þess í stað hefur þeim fækkað, eða um fjórðung milli áranna 2012 og 2013, og um 68 prósent frá 2009 til 2014. Árið 2009 fengu 3.393 lífeyrisþegar uppbætur, en nú eru þeir aðeins 1.075 talsins. Miðað við heildarfjölda lífeyrisþega hefur hlutfall þeirra sem fá uppbótargreiðslur lækkað úr átta prósentum árið 2009 í rúm tvö prósent árið 2014.

30% fresta læknisheimsókn

Rannsókn á frestun Íslendinga á læknisþjónustu árið 2013 leiddi í ljós að 30 prósent frestuðu henni vegna kostnaðar þjónustunnar og að öryrkjar fresta henni umfram aðra hópa. Töluverðar gjaldskrárhækkanir urðu um áramót, sem eru yfir hækkun bóta almannatrygginga og verðbólgumarkmiðum.

Sjá viðtalið í  Fréttablaðinu 24.02.2014