Skip to main content
Frétt

Ábendingar óskast til velferðarvaktarinnar

By 25. mars 2009No Comments
Velferðarvaktin óskar eftir ábendingum frá stofnunum, félögum eða einstaklingum um málefni sem ætla má að þarfnist skoðunar og varða félagslegar eða fjárhagslegar afleiðingar bankahrunsins fyrir heimilin.

Velferðarvaktin var stofnuð um miðjan febrúar samkvæmt verkefnaáætlun ríkisstjórnarinnar en í henni sitja fulltrúar ríkis, sveitarfélaga, hagsmuna- og félagasamtaka. Fyrir hönd ÖBÍ situr Guðríður Ólafsdóttir í velferðarvaktinni. Fundað er vikulega og skila skal áfangaskýrslum til félags- og tryggingamálaráðherra.

Hlutverk velferðarvaktarinnar er margþætt en snýr ekki síst að því að skoða aðgerðir sem stjórnvöld hafa þegar gripið til, afla fræðilegra upplýsinga um afleiðingar kreppunnar, kanna reynslu annarra þjóða af svipuðu ástandi og leggja til leiðir til úrbóta.

Sex vinnuhópar.

Velferðarvaktin skipaði sex vinnuhópa sem hver um sig tekur fyrir mál sem snerta einstaklinga og fjölskyldur í kjölfar kreppunnar.

Hlutverk vinnuhópanna er fyrst og fremst að leggja mat á áhrif kreppunnar á málaflokk sinn, tilgreina hvaða upplýsingar vantar til að skýr mynd fáist af afleiðingum hrunsins og leggja fram tillögur til úrbóta.

Ábendingar óskast!

Velferðarvaktin óskar eftir ábendingum frá stofnunum, félögum eða einstaklingum um málefni sem ætla má að þarfnist skoðunar og varða félagslegar eða fjárhagslegar afleiðingar bankahrunsins fyrir heimilin. Einnig þiggur vaktin tillögur eða upplýsingar um aðgerðir til að mæta vandanum sem gætu verið öðrum góð fyrirmynd. Velferðarvaktin tekur ekki til afgreiðslu málefni einstaklinga.

Heimasíða velferðarvaktarinnar.