Skip to main content
Frétt

Ábendingarhnappur á vefsíðu TR samrýmist ekki lögum

By 3. mars 2015No Comments

Persónuvernd segir söfnun nafnlausra ábendinga fyrir tilstilli ábendingarhnapps á vefsíðu ábendingarhnapps á vefsíðu Tryggingastofnunar ríkisins ekki samrýmast lögum.

Þann 25. febrúar síðastliðinn kvað Persónuvernd upp úrskurð í máli  einstaklings sem kvartaði til stofnunarinnar yfir hnappi á heimasíðu Tryggingastofnunar (TR) fyrir ábendingar um misferli. Kvartandi naut aðstoðar Sigurjóns Unnars Sveinssonar lögfræðings Öryrkjabandalags Íslands í málinu.

Kvartandi benti í greinargerð sinni á að fyrirkomulag ábendingarhnappsins, eins og því væri fyrir komið, stæðist ekki lög meðal annars á þeim grundvelli að TR gætti ekki að rétti kæranda samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000.

Í úrskurði sínum tók Persónuvernd fram að samkvæmt lögum um persónuvernd ætti hinn skráði rétt á vitneskju um vinnslu persónuupplýsinga um sig og einnig rétt á því að vita hvaðan upplýsingarnar koma. Í ljósi þess að hægt var að senda inn ábendingar án þess að gefa upp nafn né netfang sendanda kæmi það í veg fyrir að hinn skráði gæti notið réttinda sinna. Þegar af þeirri ástæðu færi vinnsla Tryggingastofnunar í bága við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Einnig bæri Tryggingastofnun að láta af móttöku slíkra ábendinga.

Tryggingastofnun ríkisins hefur nú þegar orðið við úrskurðinum og tekið ábendingarhnappinn út af heimasíðu sinni. Öryrkjabandalag Íslands fagnar því að TR hafi brugðist svo skjótt við.

Nánari upplýsingar veitir Ellen Calmon formaður ÖBÍ í síma 6947864