Skip to main content
Frétt

Aðalfundur 2014

By 15. september 2015No Comments

Aðalfundur 4. október

1. Ávarp Ellen Calmon, formaður ÖBÍ  

Ellen Calmon, formaður ÖBÍ flutti ávarp, bauð fundarmenn velkomna og setti fundinn kl. 09:45. Sagði hún þennan fund sérstaklega mikilvægan m.a. vegna mikillar vinnu sem hefur farið fram undanfarin tvö ár við að endurskoða lög bandalagsins í heild sinni og verða tillögur lagðar fram hér í dag. Aðildarfélög í dag væru 37 og 29.000 sem væru félagar í þeim. Dagskrá (Fskj. 1.1).

2. Fundarsetning, kjör fundarstjóra og fundarritara

Ellen Calmon formaður ÖBÍ setti fundinn kl.: 09:55 og skipaði fundarstjóra og fundarritara.
Fundarstjórar voru kjörin Hildur Lilliendahl og Kolbeinn Óttarsson Proppé og fundarritarar voru kjörin Gunnar Alexander Ólafsson og Birgit Raschhofer fyrir hádegi en þá tók Hulda Sigfúsdóttir frá JCI við af henni.

Fundarstjóri gat þess að fundurinn væri tekinn upp og yrði settur á heimasíðu ÖBÍ.  Minnti hann á mikilvægi þessa að allir töluðu í hljóðnema þegar þeir bæðu um orðið til þess að þeir sem notuðu tónmöskva heyrðu það sem væri sagt og einnig fyrir þá sem sæju um kvikmyndatöku á staðnum.

Kjörbréf, vísað í fundargagnamöppu á skjalið „Fulltrúar aðildarfélaga ÖBÍ á aðalfundi “  (Fskj. 2.1).  þar voru nöfn allra fundarfulltrúa sem tilkynntir höfðu verið og skiluðu inn kjörbréfi.  Fundarstjóri minnti einnig á að ef mætt væri í forföllum aðalmanns þyrfti að skila kjörbréfi til Sigríðar Hönnu.  

Gísli Helgason frá Blindravinafélaginu lagði fram dagskrárbreytingartillögu um að fresta inntöku nýrra félaga til næsta aðalfundar.  Sveinn Guðmundsson frá SÍBS mótmælti þessu. Var gengið til atkvæða og var tillagan felld með 34 atkvæðum á móti 42.

Tónmöskvakerfi, ef einhver nýtti sér tónmöskva, ættu viðkomandi að hafa samband við Báru.

Tveir rittúlkar, Þórný Björk Jakobsdóttir og Ásta Fanney Sigurðardóttir.

Kjörbréfafulltrúar voru: Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, Hrefna K. Óskarsdóttir, Bára Snæfeld, Sigurjón Unnar Sveinsson. Sigríður Hanna  hélt utan um upplýsingar frá aðildarfélögunum um kjörbréf.

3. Inntaka nýrra félaga

a) Astma- og ofnæmisfélagið  (Fskj. 3.1).
b) Hjartaheill  (Fskj. 3.2).
c) Samtök lungnasjúklinga (Fskj 3.3).
d) Vífill  (Fskj 3.4).

Ellen, formaður ÖBÍ kom í pontu og sagði að upp hefðu komið umræður um hvort lög allra félaganna væru í samræmi við það sem lög bandalagsins kveða á um og gaf hún lögmanni ÖBÍ orðið.

Sigurjón U. Sveinsson, lögfræðingur ÖBÍ, sagði að 3. grein laganna segði til um aðildarumsóknir. Þar stæði m.a. „hvert félag innan bandalagsins er algjörlega sjálfstætt“. Þar í liggur umræðan en það er túlkunaratriði hvernig þessi grein túlkast.   En hann leit á það á þann hátt að athuga hvort félag væri sjálfstæð eining og hvort starfið hjá viðkomandi félögum væri algjörlega sjálfstætt og lyti ekki boðvaldi SÍBS.  Efnislega mætti segja að þau væru sjálfstæð í skilningi laganna.

–    Hjá Samtökum lungnasjúklinga segir hvergi að þau séu deild eða lúti lögum SÍBS, þar væri enginn vafi og uppfylla þau skilyrði 3. greinar laganna.
–    Hjá  Samtökunum Astma- og ofnæmisfélaginu og Hjartaheill væri vafamál um túlkun:
–    Í lögum Astma- og ofnæmisfélagsins segði að félagið væri deild í SÍBS og hlyti lögum þess.
–    Í lögum Hjartaheilla segði að Hjartaheill væri deild í samtökum SÍBS.
–    Lög Vífils segðu að félagið væri aðili að SÍBS og sagði Sigurjón að það væri ekki hindrun að vera aðili að SÍBS og hlyti lögum þess.

Sagði Sigurjón að lög þessara félaga væru ekki nógu skýr hvað varðar aðild að félögum eða sjálfstæði.
 
Voru margir sem vildu taka til máls um þennan dagskrárlið.  
Kom m.a. fram vilji til að hleypa félögunum inní ÖBÍ en með þeim fyrirvara að þau hefðu þá einhvern ákveðinn tímaramma til að aðlaga lögin sín að lögum ÖBÍ.

Sveinn Guðmundsson fulltrúi SÍBS, í stjórn Hjartaheilla, útskýrði hvernig það félag væri byggt upp og sagði m.a. að réttara væri að aðildarfélög SÍBS hefðu sjálf aðild í þeim einingum sem félögin væru innan SÍBS.  Sagði hann að lög félaganna væru ipsum solum nullum og hefðu engin áhrif á lög SÍBS, það er að segja í lögum félaga að þau væru félög eða aðilar að öðrum félögum hefðu engin lagaleg áhrif.

Frímann Sigurnýjasson í stjórn Vífils, sagði að ákvæðið um deildirnar hjá SÍBS væri mjög gamalt og væri löngu búið að breyta lögunum hjá sínu félagi.  Hin aðildarfélögin hefðu ekki öll  breytt sínum lögum í framhaldi.  Það væri skýrt í lögum SÍBS að aðildarfélög þeirra væru öll sjálfstæð.

Gísli Helgason  benti á að ÖBÍ væri upphaflega samsett úr heildarsamtökum en ef félögin innan SÍBS gengju í ÖBÍ myndu þau þá ganga úr SÍBS.

Guðmundur S. Johnsen formaður félags Lesblindra, sagði að lagalega væri engin hindrun í því að þessi félög gengju inn, en að innan ÖBÍ væru bæði félög og heildarfélög.  Sagði hann að verið væri að búa til aukið atkvæðamagn þeirra félaga sem gengju inn og væru einnig í ÖBÍ.  Sagði hann að félagar í þeirra félagsskap væru líka í öðrum félögum.

Ægir hjá MND félaginu sagðist  vera sammála Sigurjóni lögfræðingi ÖBÍ um að þau félög sem hafa í sínum lögum í fyrstu grein “ …hlýti lögum SÍBS“ gætu ekki verið tæk í ÖBÍ eins og staðan væri í dag því lög ÖBÍ segi;   séu sjálfstæð,  en skýrt væri að þau uppfylltu ekki lög bandalagsins. Vildi hann skýra yfirlýsingu frá SÍBS um fjölda félaganna sem væru félagar hjá þeim.  

Auður í stjórn SÍBS sagði að það væri skýrt í þeirra lögum að þau félög sem væru að sækja um aðild að ÖBÍ núna myndu ekki líka vera félagar innan SÍBS og þannig væri atkvæði þeirra ekki með tvöföldu vægi. Spurði hún hvort félögin hér innan ÖBÍ störfuðu algjörlega sjálfstætt, hvort þau væru ekki félagar í öðrum félögum líka eins og norðurlandafélögum.

Guðbjörn frá Parkinsons samtökunum sagði að það þyrfti að horfa heildstætt á þetta, hvert væri vægi félaganna innan atkvæðamagns ÖBÍ.  Taldi hann að vægi þeirra félaga sem væru að sækja um væru með vægi innan SÍBS ef þau fengju líka atkvæðarétt hér þá væri atkvæði þeirra nánast tvöfalt.  Sagði hann að vægi félaganna ætti að vera sem jafnast innan ÖBÍ.  Sagði hann að það þyrfti að skoða þennan þátt, ekki gætu þau bæði greitt atkvæði hér og væru líka með vægi innan SÍBS á þessum fundi.

Klara hjá CP félaginu sagði að einfalt væri að Berklavörn sækti líka um aðild að ÖBÍ, því þá væru ekki fleiri félög hjá SÍBS og SÍBS viki þá út úr ÖBÍ. Vildi hún að fundurinn gæfi aðalstjórn umboð til að aðstoða öll félögin við lagagerð sína og fengju þannig aðild að því loknu.
 
Jón frá Stómasamtökunum sagði að hann hefði oft verið í nefnd um styrki til aðildarfélaganna.  Sagði hann frá umsóknum sem hefðu borist til ÖBÍ um styrkina.  Las hann úr tveimur fundargerðum nefndarinnar þar sem kom fram að Sveini Guðmundssyni hjá SÍBS fyndist að SÍBS ætti að ganga út úr ÖBÍ en félögin ættu að ganga þar inn sjálf.

Sigríður Jóhannsdóttir formaður Samtaka sykursjúkra, sagði að hún hefði samþykkt tillögu sem var lögð fram í byrjun þessa dagskrárliðar um að fresta þessum lið en sú tillaga hefði verið felld. Erfitt væri að samþykkja núna félög inn þegar það ætti ennþá eftir að samþykkja ný lög en það væri liður á dagskránni hér seinna í dag.  

Sveinn sagði að á þessum fundi ætti að taka upplýsta ákvörðun. Sagði hann að ekki væri rétt það sem hefði komið fram hér um SÍBS, sagði hann að þar væru hópar með ólík sjónarmið sem vildu að þeirra skoðanir kæmu fram. Ef þessi fjögur félög væru samþykkt inn, væri einungis eftir Berklavörn innan SÍBS. Sagði hann að lagskipting fjármuna í nefndum væru ekki réttlátar.

Frímann hjá SÍBS sagði að fimm sjúklingahópar væru innan raða SÍBS, ef þessi fjögur félög færu út úr SÍBS væru bara Berklavarnir eftir en SÍBS var á sínum tíma stofnað fyrir þá. Spurði hann þá hvers vegna framkvæmdastjórn hefði samþykkt umsóknirnar með því að ekkert væri að þeim en nú á fundinum væri allt talið þeim til foráttu.

Gísli Helgason sagði að SÍBS gæti ekki verið fulltrúi félaga sem væru sjálfstæð innan ÖBÍ og best væri að SÍBS gengi úr ÖBÍ og þá gætu félögin gengið inn.

Það kom einnig fram að félög sem byrjuðu smá og tilheyrðu þá stærra félagi eða regnhlífasamtökum þyrftu tíma til að vaxa og dafna og eftir því sem félögin stækkuðu kæmi sjálfstæði í kjölfarið. Kom fram sú meining að ekkert skrýtið væri þó félögin sem hér sæktu um vildu ganga sjálf í ÖBÍ, þau hefðu stækkað og vildu því vera sjálfstæðari.

Emil sagði að þetta snérist um sjálfstæð félög sem vildu ganga í ÖBÍ. Sagði hann að fyrri bandalög skiptu ekki máli. Einnig sagði hann að fyrir leikmann væri það snúið að í lögum þeirra félaga sem hér hefðu sótt um væri skýrt sagt frá sjálfstæði félaganna. Taldi hann eðlilegt að þessi félög verði samþykkt inn en með þeim fyrirvara að lögum þeirra félaga yrði búið að breyta að minnsta kosti mánuði fyrir næsta aðalfund ÖBÍ.

Fundarstjóri las upp tillögu frá Klöru hjá CP sem var eftirfarandi:

Aðalfundur ÖBÍ haldinn 4. október 2014 gefur aðalstjórn vald til að ganga frá umsóknum þeirra félaga sem sækja um aðild að bandalaginu. Félögin hafa þá tíma og tækifæri til að gera breytingar á sínum lögum Eins mundi SÍBS tilkynna bandalaginu breytingar á sinni skipan.   

Klara Geirsóttir, formaður CP félagsins  (Fskj. 3.5)

Las fundarstjóri upp tilkynningu frá stjórn SÍBS sem var svohljóðandi:

Yfirlýsing frá stjórn SÍBS!

Til að taka af allan vafa þá lýsum við því hér yfir að með inngöngu félaganna Hjartaheilla, Samtök lungnasjúklinga, Astma – og ofnæmisfélagsins og Vífils, muni félagsmenn SÍBS innan ÖBÍ telja einungis félagsmenn Berklavarnardeildar SÍBS.

f.h. stjórnar SÍBS
Dagný Erna Lárusdóttir  (Fskj. 3.6).

Mikil umræða varð um þessa tillögu, sitt sýndist hverjum en að lokum dró Klara tillögu sína til baka. Beiðni kom um leynilega atkvæðagreiðslu.
 
Var svo farið í nafnakall til að gera atkvæðaseðla tilbúna fyrir leynilega atkvæðagreiðslu um umsóknirnar.

102 atkvæði voru í sal og féllu þau á eftirfarandi hátt.

a) Astma- og ofnæmisfélagið; fellt með 64 atkvæðum á móti 29 já, og 10 atkvæði voru auð
b) Hjartaheill;  fellt með 70 atkvæðum á móti 28 já, og 4 auð atkvæði
c) Samtök lungnasjúklinga; fellt með 59 atkvæðum á móti 38 já, 5 auð atkvæði
d) Vífill;  fellt með 69 atkvæðum á móti 30 já, og 3 auð atkvæði

Eftir að niðurstöður atkvæðagreiðslu voru kynntar var gert 40 mínútna hádegishlé.

4. Skýrslur kynntar/lagðar fram

a)    Skýrsla formanns og framkvæmdastjórnar.  (Fskj 4.1).
Ellen Calmon, formaður ÖBÍ flutti skýrslu ÖBÍ.  Hún hvatti félagsmenn til að koma í heimsókn í nýja húsnæðið í Sigtúni og fór yfir skýrslu sína í máli og myndum.

Fundarstjóri opnaði fyrir umræður um skýrslu formanns og framkvæmdastjórnar. Sagði hann tímamörk hvers og eins hafa verið stytt úr fimm mínútum í tvær í pontu. Lagði hann áherslu á að allir töluðu í hljóðnema vegna þeirra sem nota tónmöskva og einnig fyrir kvikmyndatökufólk í salnum – starfsmenn með tvo hljóðnema færu um salinn – Hrefna/ Sigga/ Bára fara með hljóðnema um salinn ef þess er óskað /sumir vilja koma í pontu.
Sigurvin frá ADHD samtökunum spurði út í stöðu sáttmálans og spurði Ellen hvaða skýringu hún teldi á því að samningurinn hafi ekki verið settur í íslensk lög.  Ellen svaraði að hún teldi að það skorti pólitískan vilja.  
Hanna Birna hafði sagt að það þyrfti að klára regluverkið áður en það væri farið í innleiðingu.  Ellen benti Hönnu Birnu á að mörg lönd hefðu tekið sáttmálann inn áður en regluverkið var klárað.
Ellen sagðist hafa fengið fundarboð í gær á fund þar sem umræðuefnið væri mannréttindi fatlaðs fólks.

Ægir bað um að aðalfundur klappaði fyrir Ólafi Gísla Björnssyni og heiðra minningu hans en nýja húsnæðið var fjármagnað með arfi sem Ólafur ánafnaði ÖBÍ en hann lést árið 2002. Ellen tók undir það og sagði að í nýja húsnæðinu væri sérstakur skápur tileinkaður Ólafi.

b)    Skýrsla BRYNJU – Hússjóðs Öryrkjabandalagsins lögð fram.  Fskj 4.2.
c)    Skýrsla Örtækni lögð fram.  Fskj 4.1.
d)    Skýrsla Hringsjár, náms- og starfsendurhæfingar lögð fram. Fskj 4.1.
e)    Skýrsla Fjölmenntar lögð fram. Fskj 4.1.
f)    Skýrsla TMF-Tölvumiðstöðvar lögð fram.  Fskj 4.1.
g)    Skýrsla Íslenskrar getspár lögð fram.   Fskj 4.1.

Opnað var fyrir umræður um allar skýrslur en engar fyrirspurnir bárust.
Sjá nánar skýrslu formanns og framkvæmdarstjórnar í ársskýrslu ÖBÍ 2013 – 2014. Sem er hluti fylgigagna með fundargerð þessari.

5. Reikningar ársins 2013

Reikningar Öryrkjabandalags Íslands voru kynntir og bornir upp til samþykktar.
Guðmundur Snorrason, endurskoðandi PriceWaterhouseCoopers hf, kynnti og fór yfir tölur í ársreikningi ÖBÍ. Lilja Þorgeirsdóttir framkvæmdastjóri ÖBÍ skýrði nánar nokkur atriði úr reikningunum og svaraði fyrirspurnum með Guðmundi. Lilja sagði að hagnaði hefði verið ráðstafað til aðildarfélaganna og að þau hafi fengið alls 134 milljónir króna sem er meira en nokkru sinni fyrr. Lilja sagði einnig að varasjóður væri í raun 150 milljónir en það ætti eftir að leggja inn handbært fé frá framkvæmdum.

Ársreikningurinn var áritaður án athugasemda af Guðmundi Snorrasyni endurskoðanda auk tveggja félagskjörinna skoðunarmanna, Fríðu Bragadóttur og Daníel G. Björnssyni. Rekstrarafkoma ársins var jákvæð um kr. 46.675.224 að teknu tilliti til fjármagnsliða. Bókfært verð eigna í árslok 2013 var kr. 740.682.371 og eigið fé kr. 577.320.566. Sjá nánar ársreikning sem fylgdi með fundargögnum.  (Fskj 5.1).

Fyrirspurn barst um fjármögnun nýja hússins.  

Gísli frá Blindravinafélagið spurði út í launakostnað skipulagsnefndar og hvort fleiri en starfsmaðurinn hafi fengið greidd laun.

Guðmundur endurskoðandi og Lilja svöruðu og bentu á að handbært fé hafi lækkað en að ekki hafi þurft að ganga á bundna reikninga sem bera mun betri ávöxtun.
Nefndarmenn fá engin laun fyrir nefndarsetu og enginn nema umræddur stafsmaður fengu greidd laun.

Bar fundarstjóri svo reikningana upp til samþykkar og voru þeir samþykktir með öllum greiddum atkvæðum.

Reikningar BRYNJU – Hússjóðs Öryrkjabandalagsins, Hringsjár og Örtækni voru lagðir fram. Ársreikngur BRYNJU (Fskj 4.2).
Ársreikningur Hringsjár var unnin af Jóni S. Þorgeirssyni hjá JSÞ Viðskiptastofu.  (Fskj. 5.2). Rekstrarafkoma ársins var jákvæð um kr. 10.381.370,- að teknu tilliti til fjármagnsliða.  Bókfært verð eigna var kr. 15.662.410,- og eigið fé var jákvætt um kr. 1.492.480,-
Ársreikningur Örtækni var áritaður af Guðmundi Snorrasyni hjá PricewaterhouseCoopers ehf.  (Fskj 5.3).  Rekstarhagnaður ársins nam kr. 5.334.984,-, bókfært verð eigna var kr. 58.491.809,- og eigið fé var jákvætt um kr. 42.631.439,-

Fundarstjóri opnaði fyrir umræður.  Engar fyrirspurnir bárust.
Bar fundarstjóri svo reikningana upp til samþykkar og voru þeir samþykktir með öllum greiddum atkvæðum.

6. Kosning í framkvæmdastjórn, kjörnefnd, laganefnd og kjör tveggja skoðunarmanna

Kjörnefnd sagði frá störfum sínum og tilkynnti um þá sem höfðu boðið fram krafta sína til embætta ÖBÍ (þeir sem eru kjörbærir í störf ÖBÍ) samkvæmt því sem kjósa ætti um í neðangreindum liðum.  (Fskj 6.1 og 6.2).
a) Kosning varaformanns til tveggja ára.
b) Kosning ritara til tveggja ára.
c) Kosning eins meðstjórnanda til tveggja ára.
d) Kosning þriggja varamanna til eins árs.
e) Kosning tveggja skoðunarmanna.
f) Kosning fimm manna kjörnefndar.
g) Kosning fimm manna laganefndar.

(fyrir hverja kosningu dreifðu 4 starfsmenn kjörseðlum og söfnuðu saman Sigga/Hrefna/Bára/Sigurjón og töldu atkvæði ásamt öðrum fundarstjóra).

 Varaformaður (til 2ja ára)
Halldór Sævar Guðbergsson, Blindrafélaginu og núverandi varaformaður ÖBÍ var einn í framboði og var hann kjörinn með lófataki.
Ritari (til 2ja ára)
Erna Arngrímsdóttir, SPOEX og núverandi ritari og Gísli Helgason, Blindravinafélaginu gáfu kost á sér og kynntu sig í stutt máli. Að lokinni kynningu fékk Jón Þorkelsson formaður kjörnefndar orðið. Þar sem atkvæðamagn hafði breyst var farið í  nafnakall og voru atkvæði í sal 99 alls. Kjörseðlum var dreift og fékk Erna bókstafinn A og Gísli B.    
Erna Arngrímsdóttir var kjörin með 85 atkvæðum, Gísli Helgason hlaut 12 atkvæði og auðir seðlar voru tveir. Erna Arngrímsdóttir er því rétt kjörin ritari til tveggja ára.
Meðstjórnandi (til 2ja ára)
Emil Thóroddsen, Gigtarfélagi Íslands og núverandi meðstjórnandi var einn í framboði og var hann kjörinn með lófataki.
Þrír varamenn í framkvæmdastjórn. (til 1. árs)
Allir núverandi varamenn í framkvæmdastjórn gáfu kost á sér að nýju, þau eru:
–    Hjördís Anna Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra.
Karl Þorsteinsson, Ás styrktarfélagi.
–    Ægir Lúðvíksson, MND félaginu á Íslandi.Voru þau öll endurkjörin með lófataki.

Skoðunarmenn reikninga ÖBÍ 2014-15    
Daníel G. Björnsson, Heyrnarhjálp og Fríða Bragadóttir, Laufi, félagi flogaveikra og núverandi skoðunarmenn voru í framboði og voru bæði kjörin með lófataki.
Laganefnd ÖBÍ 2014-15
Núverandi fulltrúar í Laganefnd ÖBÍ 2013-14 gáfu öll kost á sér til áframhaldandi setu í laganefnd ÖBÍ 2014-15, þau voru:
–    Halldóra Ingvadóttir, Gigtarfélagi Íslands.
–    Ingi Hans Ágústsson, Hiv-Ísland.
–    Ingveldur Jónsdóttir, MS félagi Íslands.
–    Ólína Sveinsdóttir, Parkinsonsamtökunum.
–    Svavar Kjarrval, Einhverfusamtökunum.    
Formaður laganefndar sagði þá sem hafa starfað í laganefndinni hafa unnið mjög vel saman og að þar væri saman kominn hópur af mjög ólíkum einstaklingum á öllum aldri.
Tvö framboð til viðbótar bárust en voru dregin til baka og voru allir nefndarmenn laganefndar endurkjörnir með lófataki.
Kjörnefnd ÖBÍ 2014-15
Núverandi fulltrúar í Kjörnefnd ÖBÍ 2013-14 gáfu öll kost á sér til áframhaldandi setu í kjörnefnd ÖBÍ 2014-15 þau voru:
–    Albert Ingason, SPOEX.
–    Dagný Erna Lárusdóttir, SÍBS.
–    Jón Þorkelsson, Stómasamtökum Íslands.
–    Sigurbjörg Ármannsdóttir, MS félagi Íslands.
–    Sigurður R. Sigurjónsson, SÍBS.
Voru þau öll kjörin með lófataki.

7. Skipulagsnefnd ÖBÍ – lokaskýrsla

Fríða Bragadóttir fór ítarlega yfir skýrslu skipulagsnefndar.  (Fskj 7.1).
   -Ellen, formaður kvað sér hljóðs og þakkaði fyrir alla vinnuna.

8.     Lagabreytingar

Bergur Þór Benjamínsson frá Sjálfsbjörg bar upp tillögu um að þessum lið yrði frestað til framhaldsaðalfundar. Daníel frá Heyrnarhjálp vildi að fyrst yrði gengið til atkvæða um hvort það ætti að halda framhaldsaðalfund. Sú tillaga var borin upp til samþykktar og samþykkt samhljóða.  
Tillaga Bergs var borin upp til samþykkar og var hún samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.

9. Ályktanir

Hér voru afgreiddar fjórar ályktanir sem eru í fylgiskjölum.

1. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) (Fskj. 9.1).
2. Matarskattur – öll þurfum við að borða:  Öryrkjar reka heimili eins og aðrir  (. 9.2).
3. Heilbrigðiskerfið (Fskj 9.3).
4. Um meðferð á bótarétti hjá Tryggingastofnun ríkisins (Fskj 9.4).

Voru þær allar lesnar upp og samþykktar með örfáum orðalagsbreytingum.

Fundarstjóri frestaði fundi kl 17:22 til framhaldsaðalfundar.

 

Framhaldsaðalfundur Öryrkjabandalags Íslands

 miðvikudaginn 22. október 2014, kl. 16:00 á Grand hóteli Reykjavík, Sigtúni 38 í Reykjavík

Dagskrá þar sem frá var horfið 4. október 2014

1. Fundur settur, skipan embættismanna fundarins. Kolbeinn Óttarsson setti fundinn kl. 16.22. 

Fundarstjórar voru skipuð Hildur Lillendahl og Kolbeinn Óttarsson Proppé. Ritarar voru skipaðir Hulda Sigfúsdóttir og Gunnar Alexandersson. Til fundarins var boðað á venjubundinn hátt með því að fundarboð var sent til allra fulltrúa þann 7. október og dagskráin var send 10. október. Engar athugasemdir bárust um boðun fundarins og telst hann lögmætur þar sem löglega var til hans boðað.

2. Skipulagsnefnd ÖBÍ – örsamantekt á lokaskýrslu.   

Fríða Bragadóttir formaður nefndar um endurskoðun á skipulagi og uppbyggingu ÖBÍ fór yfir nokkur atriðu úr áður kynntri lokaskýrslu. Sjá fskj. 7.1. 22.10.2014.

8. Lagabreytingar.

Fyrir fundinum lágu tillögur laganefndar að nýjum lögum ÖBÍ. (Fskj 8.1).
Ingveldur Jónsdóttir formaður laganefndar fylgdi tillögum nefndarinnar úr hlaði. Fyrir fundinn höfðu tillögurnar verið rækilega kynntar fyrir fundarfulltrúum og gefinn kostur á að senda inn athugasemdir. Fyrir fundinn bárust skrifstofu ÖBÍ breytingartillögur sem fundarfulltrúar fengu sendar í tölvupósti. Fleiri breytingartillögur bárust á  fundinum sjálfum.  
Breytingartillögurnar sem voru sendar í tölvupósti komu frá:

  • Kolbrúnu Stefánsdóttur f.h. Heyrnarhjálpar og Foreldra- og styrktarfélags heyrnardaufra (Fskj. 8.2).
  • Ægi Lúðvíkssyni MND félaginu (Fskj 8.3).
  • Sigríði Jóhannsdóttur frá Samtökum sykursjúkra (Fskj. 8.4).
  • Gísli Helgason frá Blindravinafélaginu  (Fskj. 8.5).
  • Breytingartillögum frá SÍBS var dreift á borð fundarmanna  (Fskj. 8.6).  
  • Sjálfsbjörg, tillögur þeirra voru lagðar fram hjá fundarstjórum eftir að fundur hófst (Fskj. 8.7).

Opnað var fyrir umræður um allar tillögurnar í fyrstu og síðan var hver grein fyrir sig lesin upp af fundarstjóra og breytingartillögur ef einhverjar voru afgreiddar.   

Ellen Calmon formaður þakkaði laganefnd fyrir alla vinnuna. Hún hvatti til málefnalegrar umræðu.

Fulltrúar þeirra sem lögðu fram breytingartillögur fylgdu tillögum sínum úr hlaði.  

Mikil umræða var um tillögu laganefndar ÖBÍ að nýjum lögum og lagabreytingar þær sem fyrirliggjandi voru og sýndist sitt hverjum um þær.  

Umræðurnar í heild sinni má nálgast á vef ÖBÍ

Matarhlé var frá kl. 17:57 til 19:00.

Að loknu matarhléi var hver lagagrein fyrir sig tekin til umræðu og breytingartillögur ræddar og afgreiddar. Tillögur sem voru felldar og umræður um þær eru yfirleitt ekki skráðar í fundargerð.

Áður en umræður um lagabreytingar hófust aftur var farið í nafnakall. Eftir að umræður höfðu farið fram um hverja grein fyrir sig og breytingartillögur afgreiddar var gengið til atkvæða. Fundurinn samþykkti tillögu fundarstjóra um að núgildandi lög verði ekki lesin upp við afgreiðslu tillagna. Gömlu lögin eru í fskj.  8.8. Allar breytingartillögur fylgja með fundargerð og eru þær því yfirleitt ekki skráðar í fundargerð.

Tillögur laganefndar 

Lög Öryrkjabandalags Íslands

1. kafli – Nafn, hlutverk og markmið

1. gr. Nafn, félagar og varnarþing
Öryrkjabandalag Íslands (skammst. ÖBÍ) er heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi.
Bandalagið er myndað af aðildarfélögum fatlaðs fólks, öryrkja, einstaklinga með langvinna sjúkdóma og aðstandenda þeirra. Starfssvæði bandalagsins er Ísland. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

Opnað var fyrir umræður um 1. kafla, 1. gr. Engar breytingartillögur bárust við þessa grein. Gengið var til atkvæða og var tillagan samþykkt samhljóða.

2. gr. Hlutverk og markmið

Bandalagið er hagsmuna- og mannréttindasamtök fatlaðs fólks. Markmið bandalagsins er að íslenskt þjóðfélag verði samfélag jöfnuðar og réttlætis þar sem allir einstaklingar, óháð líkamlegu og andlegu atgervi, njóti mannsæmandi lífskjara og jafnra möguleika til sjálfstæðs lífs og virkrar samfélagslegrar þátttöku.
Hlutverk bandalagsins er að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks gagnvart opinberum aðilum í hverskyns hagsmunamálum svo sem varðandi löggjöf, framkvæmd hennar og í dómsmálum er snerta rétt þess.
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er leiðarljós í vinnu bandalagsins. Lög þessi skulu skýrð til samræmis við hann.

Næst var tekin fyrir 2. gr. Breytingartillaga um hana barst frá Gísla Helgasyni og fylgdi hann henni úr hlaði. Breytingatillaga barst  einnig frá Sjálfsbjörg. Fyrst var opnað fyrir umræður um breytingartillögu Sjálfsbjargar. Allnokkur umræða varð og síðan gegnið til atkvæða um tillögu Sjálfsbjargar.

Tillaga Sjálfsbjargar var felld 45 atkvæðum gegn 16 og kemur því ekki fram í fundargerð.

Þá var tillaga Gísla tekin til umræðu og atkvæðagreiðslu. Út falli textinn „Lög þessi skulu skýrð til samræmis við hann“.  
Gengið var til atkvæða, 36 greiddu atkvæði með tillögunni og 33 voru á móti og er því breytingartillagan samþykkt.

Fram kom að til að breyta lögum þarf samþykki 2/3 en einfaldur meirihluti dugir til að samþykkja breytingartillögur við breytingartillögur.
Gengið var til atkvæða um breytta 2. gr. og var hún samþykkt með 71 atkvæði gegn einu.

2. kafli – Aðild

3. gr. Tegundir aðildar

Aðild að bandalaginu getur verið þrenns konar:
1.    Almenn aðild – fyrir hagsmunafélög fatlaðs fólks.
2.    Hópaðild – fyrir hagsmunafélög sem ekki ná lágmarksfélagafjölda til að geta fengið almenna aðild og uppfylla að öðru leyti skilyrði aðildar.
3.    Stuðningsaðild – fyrir félög sem hafa málefni fatlaðs fólks sem hluta af skilgreindum tilgangi sínum.

Fjórar breytingatillögur bárust um  2. kafla, 3. gr.
Breytingartillögur frá Sjálfsbjörg, Heyrnarhjálp og Foreldra og styrktarfélagi heyrnardaufra, SÍBS og Gísla Helgasyni kynntar. Fyrst var opnað fyrir umræður um breytingartillögu Sjálfsbjargar.

Miklar umræður urðu um stuðningsaðild. Kristinn frá Blindrafélaginu sagði fyrirmyndina sótta til erlendra systrasamtaka og að það væri frekar um að ræða tengslaaðild en ekki stuðningsaðild „affilliated associations“.  Hann lagði til að þessu yrði ekki breytt núna en tekið til umræðu síðar og farið vel yfir.
Frímann taldi þessa tillögu ekki vera í samræmi við 1. gr.
Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður sagði greinina í fullu samræmi við 1. gr. og að það sé enginn árekstur á milli 1. og 3. gr.
Garðar Sverrisson frá MS félaginu sagði að það þurfi að hugsa vandlega um hvort að leyfa eigi stuðningsaðild eða ekki.  
Kristinn frá Blindrafélaginu minnti á að lögin væru galopin fyrir því hverjir geti sótt um aðild.  Það að bjóða uppá stuðningsaðild væri frekar þrenging en útvíkkun.  
Ægir Lúðvíksson tók undir orð Kristins og sagði að stuðningsaðildin væri að ganga upp á norðurlöndunum og vísaði í skýrslu skipulagsnefndarinnar sem útskýrir þetta vel.  
Frímann frá SÍBS sagði að félög sem yrðu færð yfir í stuðningsaðild myndi missa réttindi.  
Sigríður Jóna frá Gigtarfélaginu mælti með því að umræður um stuðningsaðild yrðu geymdar fram að næsta aðalfundi. Hún bað um að fá að vita hvaða félög það væru sem myndu færast yfir í stuðningsaðild ef þessi grein yrði samþykkt.
Daníel frá Heyrnarhjálp las úr skýrslu skipulagsnefndar.  
Emil sagði að þetta hefði verið mikið rætt í nefndinni.  
Kristinn frá Blindrafélaginu bað flutningsmenn breytingatillagna að þessari grein að setjast niður og athuga hvort hægt væri að sameina tillögurnar í eina ef þær væri efnislega á sömu nótum.

Breytingartillaga frá ADHD samtökunum um að „Fella niður  3. gr. um Tegund aðildar „, var felld með 37 atkvæðum gegn 31 og því ekki í fundargerð.

Kristín frá Félagi nýrnasjúkra bað um útskýringu á „fatlað fólk“. Ingveldur svaraði.
Fyrirspurn barst um hvort að einhver félög sem eru nú í bandalaginu glati atkvæðarétti sínum ef tillaga laganefndar verður samþykkt.
Ingveldur sagði að það ætti eftir að fara kerfisbundið yfir málið og að svarið sé ekki vitað. Þess vegna sé bráðabirgðaákvæði.

Gísli Helgason lagði til að fyrirsögninni yrði breytt í „Aðild að ÖBÍ“, 1. töluliðurinn standi óbreyttur og liðir 2 og 3 falli út.  

Gengið var til atkvæða um tillögu Gísla og var hún samþykkt með 45 atkvæðum
gegn 19.

Tillögur frá Heyrnarhjálp og Sjálfsbjörg féllu þar með niður.  
Tillaga SÍBS um þessa grein var dregin til baka.

Greinin með áorðnum breytingum borin upp til atkvæða og samþykkt samhljóða.

4. gr. Skilyrði aðildar

Öll aðildarfélög skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði:
1.    Félagið skal starfa eftir samþykktum lögum sem samræmast hlutverki og markmiðum bandalagsins.
2.    Félagið skal vera lagalega og fjárhagslega sjálfstætt frá öðrum aðildarfélögum.
3.    Félagið skal hafa starfað í þrjú heil reikningsár.
4.    Lágmarksfjöldi félaga skal vera 50 einstaklingar. Tvö félög eða fleiri geta sameiginlega verið aðilar að bandalaginu eins og um eitt félag sé að ræða í þeim tilvikum sem félög hafa færri en 50 félagsmenn, sbr. 2. tölulið 3. gr.
5.    Félagið skal hafa allt landið að starfssvæði sínu.

Næst var 4. gr. um skilyrði til aðildar tekin til umræðu. Breytingartillögur bárust frá Sjálfsbjörg, SÍBS Heyrnarhjálp og Foreldra og styrktarfélagi heyrnardaufra.

Fyrst var opnað fyrir umræðu um tillögu Heyrnarhjálpar og Foreldra og styrktarfélags heyrnardaufra. „Að í 2. Kafla, 4. gr., verði felldur burt liður 4 og að liður 5. verði nýr liður 4“.

Eftir umræður var gengið til atkvæða og var hún samþykkt með 46 atkvæðum gegn 7.

Næst var tekin fyrir tillaga SÍBS um að breyta einu orði 2. lið í 4. gr. þannig að í stað „fjárhagslega sjálfstætt frá“  komi „fjárhagslega sjálfstætt gagnvart“. Gengið var til atkvæða og var tillagan samþykkt með þorra atkvæða gegn 2.

Fundarstjóri las upp breytta tillögu og var hún borin upp til samþykktar og samþykkt samhljóða.

5. gr. Umsókn um aðild

Umsókn um aðild skal berast stjórn ÖBÍ hið minnsta þremur mánuðum fyrir aðalfund ásamt:
1.    Afriti af lögum félagsins.
2.    Afriti af endurskoðuðum ársreikningum þriggja síðustu ára.
3.    Nöfnum stjórnarmanna og þeirra sem skipa trúnaðarstöður.

Í framhaldi af því skal trúnaðarmaður skipaður sameiginlega af umsóknarfélagi og stjórn ÖBÍ. Umsóknarfélag skal veita trúnaðarmanni heimild til að skoða skrá yfir alla félagsmenn.
Inntaka nýrra aðildarfélaga tekur gildi við aðalfundarslit.
Umsóknir um breytingu á aðild skulu vera í samræmi við kröfur þessarar greinar.

Opnað fyrir umræður um 5. gr. Fríða frá Lauf benti á að eftir breytingar á 3. gr. um réttindi aðildarfélaga með almenna – eða hópaðild væri málsgreinin „Umsóknir um breytingu á aðild skulu vera í samræmi við kröfur þessarar greinar.“ óþörf.

Tillagan með þeirri breytingum  samþykkt samhljóða.

6. gr. Réttindi og aðildarfélaga

Réttindi aðildarfélaga með almenna- eða hópaðild eru:
1.     Full þátttaka í öllu starfi bandalagsins.
2.     Kjörgengi og atkvæðisréttur fulltrúa þeirra.
3.     Aðgangur að þjónustu bandalagsins.
4.     Réttur til að sækja um styrki bandalagsins samkvæmt gildandi reglum.
Aðildarfélög skulu greiða aðildargjöld í samræmi við ákvörðun aðalfundar, sbr. 25. gr.
Fulltrúar stuðningsaðildarfélaga hafa málfrelsi og tillögurétt á aðalfundi, stefnuþingi og í málefnastarfi. (þessi málsgrein var felld út þar sem hún er óþörf vegna breytinga á 3.gr.)

Breytingartillaga barst frá Sjálfsbjörg en hún var dregin til baka. Leiðrétta þurfti orðalag „Réttindi aðildarfélaga með almenna- eða hópaðild eru:“ verði „Réttindi aðildarfélaga eru:

Einnig var felld út síðasta málsgreinin til samræmis við áður samþykktar breytingar á 3.gr. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

7. gr. Úrsögn

Aðildarfélag getur sagt sig úr ÖBÍ. Skrifleg úrsögn skal berast stjórn bandalagsins, undirrituð af meirihluta stjórnar félagsins og tekur þegar gildi.

Engar breytingartillögur bárust um 7. gr. um úrsögn. Engar umræður urðu. Gengið var til atkvæða og var tillagan samþykkt samhljóða.

8. gr. Brottvikning og breyting á aðild félags

Aðalfundur getur vikið aðildarfélagi úr bandalaginu vinni það gegn hagsmunum bandalagsins eða gegni ekki þeim skyldum sem því ber samkvæmt lögum þessum. Samþykki a.m.k. 2/3 hluta atkvæðisbærra aðalfundarfulltrúa þarf til brottvikningar.
Aðalfundur getur breytt tegund aðildar, sbr. 3. og 4. gr. Samþykki a.m.k. 2/3 hluta atkvæðisbærra aðalfundarfulltrúa þarf til þess.

Síðari setningin í 8. gr. um breytta tegunda aðildar féll út í samræmi við áður samþykktar breytingar á 3.gr. Breytingartillaga Gísla Helgasonar var dregin til baka.  Þá var 8. gr. borin upp til samþykktar og samþykkt samhljóða.

Stutt hlé var gert á fundi og óskaði fundarstjóri eftir samþykkt fundarins að halda fundi áfram jafnvel þó komið væri fram yfir auglýst fundarlok. Það var samþykkt samhljóða.

3. kafli – Aðalfundur

9. gr.  Almennt ákvæði

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum bandalagsins. Fundinn skal halda fyrir 15. júní ár hvert. Fundurinn er löglegur ef löglega er til hans boðað og ef helmingur aðalfundarfulltrúa er viðstaddur. Stjórn boðar til fundarins og skal hann boðaður með tveggja mánaða fyrirvara með bréfi til allra aðildarfélaga. Fundarstað og tíma skal tilgreina í fundarboði.
 
Opnað fyrir umræðu um 9. gr. Þrjár breytingartillögur bárust frá Gísla Helgasyni, SÍBS og Sjálfsbjörg. Fyrst var tekin fyrir tillaga frá Gísla Helgasyni um orðalagsbreytingu. Hann vildi að það stæði að aðalfundur „fari með æðsta vald“ en ekki að hann „hafi æðsta vald“. Einnig vildi hann að aðalfundur væri haldinn í „október“en ekki í „júní“. Umræður um fjárlög Alþingis sem er að byrja í október og þá er bandalagið í betri aðstöðu til að vekja athygli á sínum málum ef ný stjórn ÖBÍ hefur störf í júní ekki í október. Sitt sýndist hverjum og var nokkur umræða um þessa lagabreytingu.

Í báðum hinum breytingartillögunum er talað um breytinguna frá júní til október svo þær voru sameinaðar í eina.  
 
Miklar umræður urðu um hvort það ætti að halda aðalfund fyrir 15. júní eða í október.  Nákvæmar umræður er hægt að sjá á vef ÖBÍ.

Gengið var til atkvæða um breytingartillöguna „….Fundinn skal halda í október ár hvert“.  Tillagan var samþykkt 29 atkvæðum gegn 22.

Næst var gengið til atkvæða um orðalagsbreytingartillögu Gísla, „Aðalfundur fer með æðsta vald“ og var hún samþykkt samhljóða.
Orðalagsbreytingartillaga Gísla „Fundurinn er lögmætur sé löglega til hans boðað…“ var borin upp til atkvæða og samþykkt samhljóða.

9. gr. breytt var borin upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða.

10. gr. Aðalfundarfulltrúar

Á aðalfundi eiga rétt til setu fulltrúar tilnefndir af hverju aðildarfélagi. Fjöldi fulltrúa hvers aðildarfélags ræðst af eftirfarandi:
1.    Félag með hundrað fullgilda félaga eða færri fær tvo fulltrúa.
2.    Félag með 101 til 1000 fullgilda félaga fær þrjá fulltrúa.
3.    Félag með 1001 til 2000 fullgilda félaga fær fjóra fulltrúa.
4.    Félag með 2001 til 3000 fullgilda félaga fær fimm fulltrúa.
5.    Félag með 3001 og fleiri fullgilda félaga fær sex fulltrúa.
Fjöldi fullgildra félaga reiknast eftir gildandi lögum viðkomandi félags.
Sex vikum fyrir aðalfund skulu aðildarfélög skila til stjórnar lista yfir aðalfundarfulltrúa og jafnmarga varamenn. Félögin skulu leitast við að fulltrúar þess endurspegli mismunandi kyn, aldur og búsetu eftir því sem kostur er.
Aðildarfélög skulu í síðasta lagi þremur vikum fyrir aðalfund skila ársskýrslu, staðfestum ársreikningi og lögum, hafi þeim verið breytt, til stjórnar. Félagaskrá skal yfirfarin í samræmi við ákvæði 5. gr. Félög sem hafa ekki veitt trúnaðarmanni aðgang að félagaskrá, skila ekki staðfestum ársreikningi eða eru í vanskilum með aðildargjöld fá einn fulltrúa á aðalfundi.

Opnað var fyrir umræður um 10. gr. um aðalfundarfulltrúa. Tvær breytingartillögur bárust.

Breytingartillaga Gísla Helgasyni um breytingu á töluliðum og breyting á orðalagi verði „Félögin skulu leitast við að fulltrúar þess endurspegli mismunandi fötlunarhópa, kyn, aldur og búsetu eftir því sem kostur er.“ í stað tillögu laganefndar „…endurspegli mismunandi kyn, aldur og búsetu eftir því sem kostur er.“

Gísli dró fyrri hluta tillögu sinnar um fjölda fulltrúa, tölulið 3. og 4. til baka.

Breytingartillaga frá SÍBS var lesin upp og Frímann fylgdi henni úr hlaði. „Stjórn getur boðið einstaklingum sem ekki eru aðildarfulltrúar fundarsetu með tillögurétti og málfrelsi. Þeir sem vilja vera viðstaddir aðalfund en eru ekki fulltrúar aðildarfélaga sinna þurfa að skrá sig hjá bandalaginu með mánaðar fyrirvara hið minnsta.

Fríða frá LAUF benti á að það væri ekki skýrt í þessari breytingu að viðkomandi einstaklingur þyrfti að vera félagi í aðildarfélagi og að það þurfi að koma skýrt fram í textanum.
Frímann sagði að átt væri við félaga í aðildarfélögunum.
Sigurvin Lárus Jónsson frá ADHD samtökunum benti á að ef margir áheyrnarfulltrúar með málfrelsi og tillögurétt og bætast við á aðalfundi.

Sigurvin Lárus Jónsson bar upp svohljóðandi frestunartillögu: „Legg til að þessari vinnu (við lagabreytingar) verði haldið áfram á framhalds-framhaldsaðalfundi hið fyrsta“.

Gengið var til atkvæða um tillöguna og var hún samþykkt með 59 atkvæðum gegn 4

Umræðum um lagabreytingar var frestað til framhalds-framhaldsaðalfundar.

10. Önnur mál.

a)  Friðgeir Jóhannesson frá Fjólu vakti athygli fundarmanna á því að sjóður til að greiða fyrir táknmálstúlkun væri uppurinn og óskaði eftir því að ÖBÍ sýndi stuðning og sendi ályktun.  
Ellen svaraði að hún hefði sent bréf til Fjármálaráðherra 17. október sl. og las hún bréfið fyrir fundarmenn.  Ellen minnti á að ein mínúta væri eftir af fundartíma og að þá væri tími táknmálstúlka búinn og hefði það áhrif á marga fulltrúa.
b)  Fundarstjóra barst í pósti yfirlýsing sem hann var beðinn um að lesa upp en Auður frá SÍBS sagðist hafa beðið eftir því að komast að undir liðnum önnur mál og fór fram á að yfirlýsingin yrði ekki lesin upp ef hún fengi ekki að komast að.  
 – Túlkarnir voru spurðir hvort þeir væru tilbúnir að starfa í 20 mín til viðbótar og þeir samþykktu það.
–  Fundarstjóri óskaði eftir samþykkti fundarins að halda fundinum áfram til kl. 22:20. Tillagan var borin upp til samþykktar en var felld.

Fundarstjóri sagði að stjórn myndi boða til framhalds-framhaldsaðalfundar og frestaði fundi kl. 22:02.

 

Framhalds-framhaldsaðalfundur Öryrkjabandalags Íslands

miðvikudaginn 13. nóvember 2014, kl. 16:00 á Grand hóteli Reykjavík, Sigtúni 38 í Reykjavík

Dagskrá þar sem frá var horfið 22.október 2014

1. Fundur settur, skipan embættismanna fundarins.  

Fundarstjórar voru eins og á fyrri fundum þau Hildur Lilliendahl og Kolbeinn Óttarsson Proppé.  Ritarar voru skipaðir Hulda Sigfúsdóttir, Gunnar Alexander Ólafsson og Anna Guðrún Sigurðardóttir.  

Kolbeinn fundarstjóri setti fundinn kl. 16:00 og tilkynnti að kl. 16:15 yrði nafnakall og að eftir það væri of seint fyrir fulltrúa að mæta á fundinn. Tíu mínútna hlé var gert á fundinum og var svo framhaldið kl. 16:14 með dagskrá þar sem frá var horfið á framhaldsaðalfundi 22. október síðastliðnum. Engin athugasemd barst um boðun fundarins og telst hann lögmætur þar sem löglega var til hans boðað. Athugasemd barst um að fulltrúar sem mættu of seint fengju ekki að taka þátt í fundinum. Fundarstjóri sagði að það hafi verið þannig á fyrri fundum og að það væri ekki hægt að hafa nafnakall oft á hverjum fundi. Fundarstjóri bað um að starfsmenn fundarins sæju um að þeir sem kæmu of seint gætu meldað sig og að upplýsingum um það yrði komið til fundarstjóra.

Umræður urðu um hvort það væri heimilt samkvæmt lögum ÖBÍ að banna þeim sem koma of seint að missa réttinn á að sitja fundinn, en engin niðurstaða fékkst um málið.

8.  Lagabreytingar. (framhald)

Eins og áður las fundarstjóri hverja tillögu laganefndar fyrir sig og voru opnaðar umræður og breytingartillögur afgreiddar ef þær höfðu borist. Eftir umræður voru tillögurnar bornar upp til atkvæða og ef breytingartillögur voru samþykktar voru nýjar og breyttar tillögur bornar upp til atkvæða.

Fyrst var tekin fyrir:

10. gr. Aðalfundarfulltrúar.

Eftir umræður var gengið til atkvæða. Breytingartillögur Gísla Helgasonar og SÍBS við þessa grein  (sjá fundargerð framhaldsfundar 22. október) voru felldar.

Tillaga laganefndar samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta gegn 1.

Tekin var fyrir tillaga laganefndar að 11. grein.

11. gr. Dagskrá aðalfundar

Aðalfundi skal stjórnað samkvæmt almennum fundarsköpum. Aðalfundur skal hefjast á fundarsetningu og kjöri fundarstjóra, fundarritara og þriggja talningamanna.
Á aðalfundi skal taka eftirfarandi mál til meðferðar og afgreiðslu:
A. Almenn fundarstörf
1. Skýrslu stjórnar.
2. Reikninga bandalagsins.
3. Skýrslur fastra málefnahópa.
4. Skýrslur fyrirtækja.
5. Stefnu og starfsáætlun stefnuþings.
6. Ákvörðun aðildargjalda.
B. Kosningar í stjórn skv. 18. gr. A til tveggja ára
7. Kosning formanns.
8. Kosning varaformanns.
9. Kosning gjaldkera.
10. Kosning formanna fastra málefnahópa.
11. Kosning stjórnarmanna.
12. Kosning varamanna.
C. Aðrar kosningar til tveggja ára
13. Kosning fimm manna kjörnefndar.
14. Kosning fimm manna laganefndar.
15. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og tveggja til vara.
D. Lagabreytingar, aðildarumsóknir, ályktanir og önnur mál
16. Lagabreytingar.
17. Aðildarumsóknir.
18. Ályktanir aðalfundar.
19. Önnur mál.

Engar breytingartillögur bárust við 11. gr.  Fundarstjóri las tillögu laganefndar og eftir umræður var hún borin upp til atkvæða.  Tillagan var samþykkt samhljóða.

12. gr. Kjörgengi og atkvæðagreiðslur

Fulltrúar aðildarfélaga með almenna og hópaðild hafa atkvæðisrétt og eru kjörgengir á aðalfundi. Félög með stuðningsaðild hafa hvorki atkvæðisrétt né kjörgengi.
Í öllum málum ræður einfaldur meirihluti, ef ekki er kveðið á um annað í þessum lögum. Atkvæðagreiðslur skulu vera leynilegar, ef þess er óskað. Hafi tveir eða fleiri frambjóðendur hlotið jafnmörg atkvæði og röð þeirra skiptir máli ræður hlutkesti, nema tillaga komi fram um annað.

Tillaga Heyrnarhjálpar var dregin til baka og því ekki í fundargerð.
Gísli Helgason lagði fram breytingartillögu um orðalag á tillögunni þannig að í stað „ef þess er óskað“ komi „sé þess óskað“.  

Gengið til atkvæða. Gísli gerði athugasemdir við fundarstjórn og benti á að þetta væri orðalagsbreyting sem ekki þyrfti að greiða atkvæði um. Fundarstjóri minnti á að þeim bæri að afgreiða allar breytingartillögur sem berast.  

Atkvæðagreiðslan var endurtekin og var tillagan samþykkt með 22 atkvæðum gegn 19.

Breytingar voru einnig gerðar á fyrri málsgrein 12. gr. til samræmis við þá breytingu sem gerð var á 3. gr. Hljóðar þá þannig: „Fulltrúar aðildarfélaga hafa atkvæðisrétt og eru kjörgengir á aðalfundi“.

Tillagan með áorðnum breytingum var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

13. gr. Framboð í trúnaðarstöður og hlutverk kjörnefndar

Kjörnefnd skal hið minnsta tveimur mánuðum fyrir aðalfund óska eftir framboðum í trúnaðarstöður. Framboð skulu berast kjörnefnd eigi síðar en einum mánuði fyrir aðalfund. Kjörnefnd skal tryggja næg framboð í þau embætti sem kosið er um. Kjörnefnd skal einnig tryggja fjölbreytni framboða með tilliti til jafnræðis milli fötlunarhópa. Jafnframt skal hún líta til annarra atriða sem talin eru skipta máli, svo sem kynja, búsetu og aldurshópa.
Kjörnefnd sendir lista með frambjóðendum til aðalfundarfulltrúa eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund. Kjörnefnd skal tryggja að kjörgögn séu aðgengileg.
Allir frambjóðendur eiga sama rétt á að kynna sig, þ.á.m. á aðalfundi.  Berist framboð of seint eru þau háð samþykki aðalfundar.
Gísli Helgason lagði fram svohljóðandi breytingartillögu á 13. gr. (sjá fylgiskjal) „Kjörnefnd skal senda aðalfundarfulltrúm lista með nöfnum frambjóðenda eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund“.  Umræður urðu og voru fundarmenn minntir á að það hefði verið gefið tækifæri til þess að senda inn athugasemdir áður en laganefnd kláraði sínar tillögur. Eftir umræður um breytingartillögu Gísla var hún borin upp til atkvæða. Tillagan var samþykkt með þorra atkvæða gegn þremur.
Eftir umræður um 13. gr. var hún borin upp til samþykktar með áorðnum breytingum og var hún samþykkt samhljóða.  

14. gr. Lagabreytingar

Lagabreytingatillögur skulu vera skriflegar og komnar í hendur stjórnar fjórum vikum fyrir aðalfund. Framkomnar tillögur skulu sendar aðalfundarfulltrúum í síðasta lagi tveimur vikum fyrir aðalfund.Lagabreyting þarfnast samþykkis a.m.k. 2/3 atkvæðisbærra aðalfundarfulltrúa.

Þá var 14. gr. afgreidd og borin upp til samþykktar. Engar breytingartillögur bárust og var tillagan lesin upp. Engar umræður urðu og var tillagan borin upp til samþykktar og samþykkt samhljóða.

15. gr. Ályktanir aðalfundar

Tillögur að ályktunum sem leggja á fyrir aðalfund, skulu berast stjórn fjórum vikum fyrir aðalfund. Þær skulu sendar aðalfundarfulltrúum eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund.
Nýjum tillögum er hægt að koma á dagskrá aðalfundar með samþykki a.m.k. 2/3 atkvæðisbærra aðalfundarfulltrúa.

Þá var 15. grein tekin til afgreiðslu. Engar umræður urðu  og var tillagan samþykkt samhljóða.

16. gr. Framhaldsaðalfundur

Framhaldsaðalfund er hægt að halda um mál sem ekki tekst að ljúka á aðalfundi. Hann skal haldinn svo fljótt sem verða má þó eigi síðar en tíu vikum eftir upphaflegan aðalfund.
Framhaldsaðalfundur getur aðeins fjallað um þau mál, sem voru tilefni þess að fundurinn var boðaður, nema að a.m.k. 2/3 atkvæðisbærra fulltrúa samþykki annað.
Seturétt á framhaldsaðalfundi eiga þeir sem áttu seturétt á upphaflegum aðalfundi.

Breytingartillaga barst frá SÍBS um 16. grein að í stað „eigi síðar en 10 vikum eftir upphaflegan aðalfund“ komi „ eigi síðar en átta vikum ….“.  Laganefnd breytti tillögu sinni þannig að í stað „10 vikum“ komi „4 vikum“.  

Breytingartillaga frá Ægi Lúðvíkssyni var felld og því ekki í fundargerð.

Breytingarillaga frá SÍBS um að fella út síðari hluta annarrar málsgreinar þeð er, „…nema að a.m.k. 2/3 atkvæðisbærra fulltrúa samþykki annað“.  

Tillagan var borin undir atkvæða og var hún samþykkt með 29 atkvæðum gegn 20.

Þá var breytt tillaga laganefndar um 16. gr. lesin upp í stað „…10 vikum…“ standi „…4 vikum…“  og borin undir atkvæði eftir umræður.  Tillagan var samþykkt  samhljóða.

17. gr. Aukaaðalfundur

Aukaaðalfund getur stjórn kvatt saman þegar afar mikilvæg og óvænt mál ber að höndum. Skylt er stjórn að kalla saman aukaaðalfund ef þriðjungur aðildarfélaga (hópaðild telst eitt félag) krefjast þess skriflega og greini þau mál sem leggja á fyrir fundinn. Aukaaðalfundur getur aðeins fjallað um þau mál sem voru tilefni þess að fundurinn var boðaður.
Fundurinn skal kvaddur saman með eins skömmum fyrirvara og aðstæður frekast leyfa þó aldrei með styttri en einnar viku fyrirvara. Reglur um aðalfund skulu gilda eftir því sem við á.

Breytingartillaga við 17. grein frá Gísla Helgasyni svohljóðandi: „Stjórn bandalagsins getur boðað til aukaaðalfundar, þegar afar …“, komi í stað „Aukaaðalfund getur stjórn kvatt saman þegar afar …“.
Engar umræður urðu um tillöguna og var hún borin upp til atkvæða og samþykkt með þorra atkvæða gegn tveimur.  
Breytt 17. grein borin upp til samþykktar og samþykkt samhljóða.

4. kafli – Innra starf bandalagsins

18. gr. Stjórn

A. Kosning og hlutverk stjórnar
Stjórn samanstendur af nítján stjórnarmönnum: formanni, varaformanni, gjaldkera, fimm formönnum fastra málefnahópa og ellefu öðrum stjórnarmönnum. Stjórn er kosin á aðalfundi úr hópi aðalfundarfulltrúa sem boðið hafa sig fram til trúnaðarstarfa skv. 13. gr. Jafnframt skal aðalfundur kjósa þrjá varamenn sem hafa seturétt á stjórnarfundum.
Á oddatöluári skal kjósa formann, formenn fastra málefnahópa og fjóra stjórnarmenn. Á ári sem kemur upp á sléttri tölu skal kjósa varaformann, gjaldkera, sjö stjórnarmenn og þrjá varamenn. Fjöldi atkvæða ræður röð varamanna.
Stjórn fer með æðsta vald bandalagsins á milli aðalfunda. Meginhlutverk stjórnar er að framfylgja lögum og stefnu bandalagsins. Stjórn gerir starfssamning við formann.
Aðalmenn í stjórn geta setið að hámarki í þrjú kjörtímabil samfellt. Seta í formannsembætti  er óháð fyrri stjórnarsetu.
B. Stjórnarfundir
Stjórnarfundir skulu haldnir a.m.k. átta sinnum á ári. Formaður boðar til stjórnarfunda með minnst viku fyrirvara nema sérstakar aðstæður kalli á annað. Stjórnarfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað og meirihluti stjórnarmanna er mættur.

Fundarstjóri las tillögu laganefndar um 18. gr. Breytingartillögur bárust frá Gísla Helgasyni,  SÍBS og  Sigríði Jóhannsdóttur, Samtökum sykursjúkra. Tillögur SÍBS og Sigríðar voru felldar og því eru þær ekki í fundargerðinni. Gísli dró sína tillögu tilbaka, nema tvo liði:
„Meirihluti stjórnar skal ávallt skipaður fötluðu fólki“.  og orðalagsbreytingu „Stjórnarfundur er lögmætur ef löglega…“ þar komi „sé“ í stað „ef“ og hljóði þá þannig „Stjórnarfundur er lögmætur sé löglega …“

Miklar umræður urðu um tillöguna og voru skiptar skoðanir. Fram kom að aðstandendur „teljist fatlaðir“. Garðar spurði hvernig mætti lesa það út úr lögunum. Ingveldur sagði að þetta væri skilgreint í samningi Sameinuðu Þjóðanna.
Guðrún frá Ási styrktarfélagi vildi leiðrétta misskilning. Hún sagðist vera aðstandandi sem fulltrúi einstaklings sem getur ekki talað fyrir sig sjálfur. Hún minnti á að það hafi verið aðstandendur sem upphaflega stóðu að stofnun ÖBÍ. Hún telur umræðuna bera vott um fordóma. Fundarmenn tóku undir orð Guðrúnar með lófataki. Áfram urðu miklar umræður og voru mjög skiptar skoðanir.  
Fríða frá Laufi minnti á að mikill meirihluti þeirra sem eru í aðildarfélögum innan bandalagsins eru með fötlun sem ekki sést. Hver á að skera úr um það hver sé fatlaður og hver ekki þegar kemur að því að velja fólk í stjórn.
Ægir, minnti á að til þessa að komast í stjórn þurfi fyrst að fara í gegnum síu.  
Kristinn Halldór, sagði að skipulagsnefndin hefði skoðað þetta og sagði að það hljóti að markast af 1. gr. hverjir geti verið kjörnir í stjórn. Hann telur ótækt að setja inn takmarkanir á því hverjir séu kjörgengir í stjórn.
Halldór Sævar, sagði að það væri kominn tími til að hætta þessum umræðum og ganga til atkvæða um breytingartillöguna.
Ellen tók undir það.
Garðar telur umræðuna þarfa.
Hjörtur Jónsson frá Foreldra og styrktarfélagi heyrnadaufra sagðist tala fyrir hönd tveggja dætra sinna sem báðar eru daufblindar og hjólastólanotendur. Hann segist rekast á sömu hindranir og fatlaðir úti í þjóðfélaginu og segist ætla að greiða atkvæði gegn tillögunni.

Að loknum miklum umræðum dró Gísli tillögu sína „Meirihluti stjórnar skal ávallt skipaður fötluðu fólki“.  til baka og vísaði til laganefndar að skipa umræðuhóp um tillöguna. Engar umræður urðu um þá tillögu.  

Gengið var til atkvæða um að vísa tillögunum til laganefndar og var sú tillaga samþykkt með 24 atkvæðum gegn 21.
 
Þá var gengið til atkvæða um orðalagsbreytingu Gísla “. Stjórnarfundur er lögmætur ef löglega …“, í staðin kemur „Stjórnarfundur er lögmætur sé löglega …“ og var hún samþykkt samhljóða.

Breytt 18. gr. var síðan borin upp til atkvæða og samþykkt samhljóða.

Hlé var gert á fundi kl. 18:41 og haldið áfram eftir matarhlé kl. 19:31.

19. gr. Formannafundir

Formannafundir skulu haldnir minnst tvisvar á ári. Tilgangur formannafunda er að tryggja samráð og upplýsingamiðlun milli stjórnar og aðildarfélaga.
Formannafundir skulu boðaðir með a.m.k. tíu daga fyrirvara og tilkynning um fulltrúa berist bandalaginu eigi síðar en viku fyrir fund. Boðaðir skulu allir formenn aðildarfélaga óháð tegund aðildar. Formenn mega senda annan fulltrúa í sinn stað.

Fundarstjóri las tillögu laganefndar um 19. gr. Breytingartillaga barst frá Sjálfsbjörg. Í stað síðustu setningarinnar komi „Formenn geta sent varaformann í sinn stað“.  
Miklar umræður urðu um hvort það ætti bara að leyfa formanni að senda varamann í sinn stað, aðra stjórnarmenn eða hvaða félagsmann sem er.  

Sjálfsbjörg dró breytingartillögu sína til baka og var því tillaga laganefndar tekin til afgreiðslu. Engar umræður urðu og var tillagan samþykkt samhljóða.

20. gr. Framkvæmdastjóri

Stjórn ræður framkvæmdastjóra og gerir við hann ráðningarsamning. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri gagnvart stjórn og aðalfundi. Framkvæmdastjóri ræður aðra starfsmenn og gerir við þá ráðningarsamninga sem háðir eru samþykki stjórnar.

Fundarstjóri las tillögu laganefndar um 20. gr. Sjálfsbjörg hafði áður dregið breytingartillögu um þessa grein til baka. Engar umræður urðu og var tillagan samþykkt samhljóða.

21. gr. Framkvæmdaráð

Innan bandalagsins skal starfa framkvæmdaráð. Hlutverk framkvæmdaráðs er að vera framkvæmdastjóra til stuðnings og ráðgjafar. Ráðið tekur engar meiriháttar ákvarðanir án samþykkis stjórnar.
Í ráðinu sitja formaður, varaformaður og gjaldkeri. Jafnframt skal einn varamaður kosinn af stjórn. Varamaður getur sótt alla fundi framkvæmdaráðs og á rétt á öllum fundargögnum.

Þrjár breytingatillögur bárust frá Gísla Helgasyni, Sjálfsbjörg og SÍBS. Þau drógu öll tillögur sínar til baka. Gísli Helgason frá Blindravinafélaginu og Vilhjálmur Hjálmarsson frá ADHD lögðu fram eftirfarandi breytingartillögu á fundinum (Fskj. 8.8).

Breytingatillaga:

21. gr. Framkvæmdaráð
Innan bandalagsins skal starfa framkvæmdaráð. Framkvæmdaráð afgreiðir mál milli stjórnarfunda og leggur meiri háttar mál í hendur stjórnar. Þá getur stjórn einnig vísað málum til framkvæmdaráðs til
frekari útfærslu og afgreiðslu.

Í ráðinu sitja formaður, varaformaður og gjaldkeri. Jafnframt skal stjórn tilnefna úr sínum röðum tvo aðalmenn og tvo varamenn. Varamenn geta sótt alla fundi framkvæmdaráðs og eiga rétt á öllum fundargögnum.

Heimilt er að boða framkvæmdastjóra á fundi framkvæmdaráðs. Framkvæmdastjóri hefur mál- og tillögurétt, en ekki atkvæðarétt.

Gísli Helgason, Blindravinafélagið
Vilhjálmur Hjálmarsson, ADHD

Eftir miklar umræður var tillagan borin upp til atkvæða og var hún samþykkt með 32 atkvæðum gegn 28.  

Fríða frá Laufi óskaði eftir að fá að taka til máls og benti á að í tillögu Gísla og Vilhjálms væri fjölgað í framkvæmdaráðinu.  Fundarstjóri benti á að atkvæðagreiðslu væri lokið og engin athugasemd verið gerði við þetta atriði fyrir þá afgreiðslu.

Fundarstjóri minnti á að þrátt fyrir að lög félagsins geri ráð fyrir að lagabreytingar þurfi 2/3 hluta atkvæða þurfi einungis helming atkvæða til að samþykkja breytingartillögur og að lögin í heild séu í raun tekin fyrir sem ein tillaga og að í lok afgreiðslu allra tillagna þurfi 2/3 hluti aðalfundafulltrúa að samþykkja þau.

Að lokum var 21. gr. með breytingum borin upp til samþykktar og var hún samþykkt með 38 atkvæðum gegn 26.

22. gr. Stefnuþing

Stjórn skal boða til stefnuþings a.m.k. annað hvert ár með minnst tveggja mánaða fyrirvara. Stefnuþingið skal haldið á fyrsta ársþriðjungi. Hlutverk þess er að móta stefnu og áherslur í sameiginlegum hagsmunamálum. Stefnuþing sitja fulltrúar allra aðildarfélaga og eru skipaðir með sama hætti og aðalfundarfulltrúar, sbr. 10. gr.
Stefnuþing gerir tillögu til aðalfundar um stefnu og áherslur í starfi bandalagsins sem og hvaða föstu málefnahópar skulu starfa innan þess.

Engar breytingartillögur bárust við 22. gr. Fundarstjóri las tillöguna og var hún samþykkt án umræðna.

23. gr. Málefnahópar

Innan bandalagsins skulu starfa fimm fastir málefnahópar. Hlutverk þeirra er að leggja fram tillögur að stefnumótun í hagsmunamálum í samræmi við áherslur stefnuþings. Aðalfundur ákveður málefni þeirra eftir tillögu stefnuþings. Formenn þeirra skulu kosnir á aðalfundi.
Stjórn velur einstaklinga í málefnahópa að fengnum tilnefningum frá aðildarfélögunum. Meðlimir hvers málefnahóps skulu vera sjö að hámarki að formanni meðtöldum. Stjórn skal leitast við að gæta jafnræðis á milli aðildarfélaga við skipun í málefnahópa.
Málefnahópar skulu gefa stjórn stöðuskýrslu á a.m.k. sex mánaða fresti. Formenn þeirra skulu hafa samráð sín á milli.

Fundarstjóri las 23. gr. Breytingartillaga barst frá SÍBS þar sem til viðbótar við næst síðustu greinina á eftir orðinu „málefnahópa“ komi: „Fulltrúum aðildarfélaga skal vera heimilt að mæta á fundi málefnahóps ef að viðkomandi aðildarfélag hefur óskað eftir slíku. Sá fulltrúi hefur málfrelsi og tillögurétt“.

Formaður laganefndar sagði nefndina ekki hrifna að þessari tillögu þar sem það myndi þyngja starf málefnahópsins sem gæti aldrei vitað hve margir kæmu.  

Miklar umræður urðu um þessa breytingartillögu við tillögu laganefndar. Gengið var til atkvæða um breytingartillögu SÍBS og var tillagan felld með yfirgnæfandi atkvæða gegn fáum.

Tillaga laganefndar um 23. gr. var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt með þorra atkvæða gegn 2.

24. gr. Laganefnd

Innan bandalagsins skal starfa laganefnd. Hún vinnur að lagfæringum og breytingum á lögum ÖBÍ.

Fundarstjóri las tillögu laganefndar um 24. gr. um laganefnd. Engar umræður urðu og var tillagan borin upp til atkvæða og samþykkt samhljóða.

5. kafli – Tekjur og uppgjör

25. gr. Tekjur bandalagsins

Tekjum frá Íslenskri getspá og öðrum tekjum skal ráðstafað í samræmi við tilgang bandalagsins. Aðalfundur ákveður aðildargjöld félaganna.

Fundarstjóri las tillögu laganefndar um 25. gr. um tekjur félagsins.  
Breytingartillaga barst frá Sjálfsbjörg svohljóðandi:  „Tekjum frá Íslenskri getspá skal ráðstafað í samræmi við lög um talnagetraunir nr. 26/1986 og öðrum tekjum skal ráðstafað í samræmi við hlutverk og markmið bandalagsins.  Aðalfundur ákveður aðildargjöld félaganna“.

Miklar umræður urðu. Orðalagsbreytingar voru gerðar á breytingartillögunni frá Sjálfsbjörg og hún borin upp í tvennu lagi. Fyrri hluti tillögunnar var svohljóðandi:  „Tekjum frá Íslenskri getspá skal varið samkvæmt lögum þar um og.“. Tillagan var borin upp til samþykktar og samþykkt með þorra atkvæða gegn fjórum.
Síðari hlutinn var svohljóðandi: „… öðrum tekjum skal ráðstafað í samræmi við hlutverk og markmið bandalagsins.  Aðalfundur ákveður aðildargjöld félaganna.

Tillagan var borin upp til samþykktar og samþykkt samhljóða.

Breytt 25. gr. borin upp til samþykktar og samþykkt samhljóða.  

26. gr. Reikningsár og ársreikningar

Reikningsár bandalagsins er almanaksárið. Endurskoðaðir ársreikningar skulu lagðir fyrir stjórn sem leggur þá fyrir aðalfund til fullnaðarafgreiðslu. Endurskoðaðir reikningar skulu liggja fyrir eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund og skulu sendir aðalfundarfulltrúum tveimur vikum fyrir aðalfund.

Fundarstjóri las tillögu laganefndar um 26. gr. Engar breytingartillögur bárust og var tillagan samþykkt samhljóða án umræðna.

6. kafli – Önnur ákvæði

27. gr. Nánari framkvæmd

Stjórn er heimilt að setja reglur um nánari framkvæmd einstakra lagagreina og skulu þær birtar aðildarfélögum. Slíkar reglur skulu ávallt rúmast innan ramma viðkomandi greina og þessara laga.

Fundarstjóri las 27. gr. Engar umræður urðu og var tillagan samþykkt samhljóða.

28. gr. Slit bandalagsins

Bandalagið verður einungis lagt niður berist um það tillaga sem samþykkt er af meirihluta stjórnar. Tillagan skal kynnt við boðun næsta aðalfundar og þarf samþykki a.m.k. 2/3 hluta atkvæðisbærra aðalfundarfulltrúa. Verði bandalagið lagt niður skulu eignir þess notaðar í þágu fatlaðs fólks samkvæmt ákvörðun síðasta aðalfundar.

Fundarstjóri las 28. gr. Gísli bar upp orðalagsbreytingu um að „…skal eignum þess varið í þágu fatlaðs fólks…“   komi í stað  „…skulu eignir þess notaðar í þágu fatlaðs fólks …“ Breytingartilla Gísla var samþykkt samhljóða.

Greinin með áorðnum breytingum var borin upp til samþykktar og samþykkt samhljóða.  

29. gr. Gildistaka

Lög þessi taka þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi eldri lög Öryrkjabandalags Íslands.

Fundarstjóri las tillögu laganefndar um 29. gr. Breytingartillaga barst frá SÍBS. „Lög þessi taka gildi við lok aðalfundar.  Jafnframt falla úr gildi eldri lög Öryrkjabandalags Íslands“. Laganefnd gerir þá tillögu að sinni.

Tillagan var borin upp til samþykktar og samþykkt samhljóða.

Að lokum var tekið fyrir tillaga laganefndar um bráðabirgðaákvæði. Breytingartillaga frá SÍBS er ekki lengur í gildi og var því ekki tekin fyrir.  

Bráðabirgðaákvæði

I. Um kosningu stjórnarmanna

Þrátt fyrir ákvæði þessara laga halda kjörnir fulltrúar umboði sínu fram að lokum aðalfundar 2015. Á aðalfundi 2015 verður kosið í allar stöður stjórnar- og trúnaðarmanna samkvæmt þessum lögum og halda þeir umboði sínu til eins eða tveggja ára eftir því sem segir í 18. gr. A.
Atkvæðafjöldi ræður því hvaða fjórir stjórnarmenn hafa tveggja ára kjörtímabil.
Tímabil það sem nefnt er í 4. mgr. 18. gr. A. gildir frá aðalfundi 2015.

II. Aðlögunartími aðildarfélaga

Þau aðildarfélög sem við samþykkt laganna uppfylla ekki skilyrði almennrar aðildar hafa þriggja ára aðlögunartíma. Teljist félagið ekki uppfylla skilyrðin að þeim tíma loknum tekur aðalfundur ákvörðun um aðild félagsins.

Gísli Helgason lagði til orðalagsbreytingu, „Atkvæðafjöldi ræður því hvaða stjórnarmenn eru kjörnir til tveggja ára“ komi í stað greinarinnar, „Atkvæðafjöldi ræður því hvaða fjórir stjórnarmenn hafa tveggja ára kjörtímabil.“

Eftir umræður var ljós að texti laganefndar ætti að standa þar sem vísað var í kosningu fjögurra stjórnarmanna á öddatöluári.  
Tillaga laganefndar  borin upp til samþykktar og samþykkt samhljóða.
Tillaga laganefndar um ákvæði um aðlögunartíma aðildarfélaga felld niður af laganefnd þar sem það átti ekki lengur við.

Að lokum voru lögin í heild sinni með áorðnum breytingum borin upp til samþykktar og samþykkt samhljóða.

Lögin í heild sinni eftir samþykktir aðalfundarins:

Lög Öryrkjabandalags Íslands

1. kafli – Nafn, hlutverk og markmið

1. gr. Nafn, félagar og varnarþing

Öryrkjabandalag Íslands (skammst. ÖBÍ) er heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi.
Bandalagið er myndað af aðildarfélögum fatlaðs fólks, öryrkja, einstaklinga með langvinna sjúkdóma og aðstandenda þeirra.
Starfssvæði bandalagsins er Ísland. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Hlutverk og markmið

Bandalagið er hagsmuna- og mannréttindasamtök fatlaðs fólks. Markmið bandalagsins er að íslenskt þjóðfélag verði samfélag jöfnuðar og réttlætis þar sem allir einstaklingar, óháð líkamlegu og andlegu atgervi, njóti mannsæmandi lífskjara og jafnra möguleika til sjálfstæðs lífs og virkrar samfélagslegrar þátttöku.
Hlutverk bandalagsins er að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks gagnvart opinberum aðilum í hverskyns hagsmunamálum svo sem varðandi löggjöf, framkvæmd hennar og í dómsmálum er snerta rétt þess.
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er leiðarljós í vinnu bandalagsins.

2. kafli – Aðild

3. gr. Aðild að ÖBÍ

Almenn aðild – fyrir hagsmunafélög fatlaðs fólks.

4. gr. Skilyrði aðildar

Öll aðildarfélög skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði:
1.    Félagið skal starfa eftir samþykktum lögum sem samræmast hlutverki og markmiðum bandalagsins.
2.    Félagið skal vera lagalega og fjárhagslega sjálfstætt gagnvart öðrum aðildarfélögum.
3.    Félagið skal hafa starfað í þrjú heil reikningsár.
4.    Félagið skal hafa allt landið að starfssvæði sínu.

5. gr. Umsókn um aðild

Umsókn um aðild skal berast stjórn ÖBÍ hið minnsta þremur mánuðum fyrir aðalfund ásamt:
1.    Afriti af lögum félagsins.
2.    Afriti af endurskoðuðum ársreikningum þriggja síðustu ára.
3.    Nöfnum stjórnarmanna og þeirra sem skipa trúnaðarstöður.

Í framhaldi af því skal trúnaðarmaður skipaður sameiginlega af umsóknarfélagi og stjórn ÖBÍ. Umsóknarfélag skal veita trúnaðarmanni heimild til að skoða skrá yfir alla félagsmenn.
Inntaka nýrra aðildarfélaga tekur gildi við aðalfundarslit.

6. gr. Réttindi og skyldur aðildarfélaga

Réttindi aðildarfélaga eru:
1.    Full þátttaka í öllu starfi bandalagsins.
2.    Kjörgengi og atkvæðisréttur fulltrúa þeirra.
3.     Aðgangur að þjónustu bandalagsins.
4.    Réttur til að sækja um styrki bandalagsins samkvæmt gildandi reglum.
Aðildarfélög skulu greiða aðildargjöld í samræmi við ákvörðun aðalfundar, sbr. 25. gr.

7. gr. Úrsögn

Aðildarfélag getur sagt sig úr ÖBÍ.  Skrifleg úrsögn skal berast stjórn bandalagsins, undirrituð af meirihluta stjórnar félagsins og tekur þegar gildi.

8. gr. Brottvikning og breyting á aðild félags

Aðalfundur getur vikið aðildarfélagi úr bandalaginu vinni það gegn hagsmunum bandalagsins eða gegni ekki þeim skyldum sem því ber samkvæmt lögum þessum. Samþykki a.m.k. 2/3 hluta atkvæðisbærra aðalfundarfulltrúa þarf til brottvikningar.

3. kafli – Aðalfundur

9. gr.  Almennt ákvæði

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum bandalagsins. Fundinn skal halda í október ár hvert.  Fundurinn er lögmætur sé löglega er til hans boðað og ef helmingur aðalfundarfulltrúa er viðstaddur. Stjórn boðar til fundarins og skal hann boðaður með tveggja mánaða fyrirvara með bréfi til allra aðildarfélaga. Fundarstað og tíma skal tilgreina í fundarboði.

10. gr. Aðalfundarfulltrúar

Á aðalfundi eiga rétt til setu fulltrúar tilnefndir af hverju aðildarfélagi. Fjöldi fulltrúa hvers aðildarfélags ræðst af eftirfarandi:
1.     Félag með hundrað fullgilda félaga eða færri fær tvo fulltrúa.
2.     Félag með 101 til 1000 fullgilda félaga fær þrjá fulltrúa.
3.    Félag með 1001 til 2000 fullgilda félaga fær fjóra fulltrúa.
4.    Félag með 2001 til 3000 fullgilda félaga fær fimm fulltrúa.
5.    Félag með 3001 og fleiri fullgilda félaga fær sex fulltrúa.

Fjöldi fullgildra félaga reiknast eftir gildandi lögum viðkomandi félags.
Sex vikum fyrir aðalfund skulu aðildarfélög skila til stjórnar lista yfir aðalfundarfulltrúa og jafnmarga varamenn. Félögin skulu leitast við að fulltrúar þess endurspegli mismunandi kyn, aldur og búsetu eftir því sem kostur er.

Aðildarfélög skulu í síðasta lagi þremur vikum fyrir aðalfund skila ársskýrslu, staðfestum ársreikningi og lögum, hafi þeim verið breytt, til stjórnar. Félagaskrá skal yfirfarin í samræmi við ákvæði 5. gr. Félög sem hafa ekki veitt trúnaðarmanni aðgang að félagaskrá, skila ekki staðfestum ársreikningi eða eru í vanskilum með aðildargjöld fá einn fulltrúa á aðalfundi.

11. gr. Dagskrá aðalfundar

Aðalfundi skal stjórnað samkvæmt almennum fundarsköpum. Aðalfundur skal hefjast á fundarsetningu og kjöri fundarstjóra, fundarritara og þriggja talningarmanna.
Á aðalfundi skal taka eftirfarandi mál til meðferðar og afgreiðslu:
A. Almenn fundarstörf
1. Skýrslu stjórnar.
2. Reikninga bandalagsins.
3. Skýrslur fastra málefnahópa.
4. Skýrslur fyrirtækja.
5. Stefnu og starfsáætlun stefnuþings.
6. Ákvörðun aðildargjalda.
B. Kosningar í stjórn skv. 18. gr. A til tveggja ára
7. Kosning formanns.
8. Kosning varaformanns.
9. Kosning gjaldkera.
10. Kosning formanna fastra málefnahópa.
11. Kosning stjórnarmanna.
12. Kosning varamanna.
C. Aðrar kosningar til tveggja ára
13. Kosning fimm manna kjörnefndar.
14. Kosning fimm manna laganefndar.
15. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og tveggja til vara.
D. Lagabreytingar, aðildarumsóknir, ályktanir og önnur mál
16. Lagabreytingar.
17. Aðildarumsóknir.
18. Ályktanir aðalfundar.
19. Önnur mál.

12. gr. Kjörgengi og atkvæðagreiðslur

Fulltrúar aðildarfélaga hafa atkvæðisrétt og eru kjörgengir á aðalfundi.
Í öllum málum ræður einfaldur meirihluti, ef ekki er kveðið á um annað í þessum lögum. Atkvæðagreiðslur skulu vera leynilegar, sé þess óskað. Hafi tveir eða fleiri frambjóðendur hlotið jafnmörg atkvæði og röð þeirra skiptir máli ræður hlutkesti, nema tillaga komi fram um annað.

13. gr. Framboð í trúnaðarstöður og hlutverk kjörnefndar

Kjörnefnd skal hið minnsta tveimur mánuðum fyrir aðalfund óska eftir framboðum í trúnaðarstöður. Framboð skulu berast kjörnefnd eigi síðar en einum mánuði fyrir aðalfund. Kjörnefnd skal tryggja næg framboð í þau embætti sem kosið er um. Kjörnefnd skal einnig tryggja fjölbreytni framboða með tilliti til jafnræðis milli fötlunarhópa. Jafnframt skal hún líta til annarra atriða sem talin eru skipta máli, svo sem kynja, búsetu og aldurshópa.
Kjörnefnd skal senda aðalfundarfulltrúum lista með nöfnum frambjóðenda eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund.
Allir frambjóðendur eiga sama rétt á að kynna sig, þ.á.m. á aðalfundi. Berist framboð of seint eru þau háð samþykki aðalfundar.

14. gr. Lagabreytingar

Lagabreytingatillögur skulu vera skriflegar og komnar í hendur stjórnar fjórum vikum fyrir aðalfund. Framkomnar tillögur skulu sendar aðalfundarfulltrúum í síðasta lagi tveimur vikum fyrir aðalfund.
Lagabreyting þarfnast samþykkis a.m.k. 2/3 atkvæðisbærra aðalfundarfulltrúa.

15. gr. Ályktanir aðalfundar

Tillögur að ályktunum sem leggja á fyrir aðalfund, skulu berast stjórn fjórum vikum fyrir aðalfund. Þær skulu sendar aðalfundarfulltrúum eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund.
Nýjum tillögum er hægt að koma á dagskrá aðalfundar með samþykki a.m.k. 2/3 atkvæðisbærra aðalfundarfulltrúa.

16. gr. Framhaldsaðalfundur

Framhaldsaðalfund er hægt að halda um mál sem ekki tekst að ljúka á aðalfundi. Hann skal haldinn svo fljótt sem verða má þó eigi síðar en fjórum vikum eftir upphaflegan aðalfund.
Framhaldsaðalfundur getur aðeins fjallað um þau mál, sem voru tilefni þess að fundurinn var boðaður.
Seturétt á framhaldsaðalfundi eiga þeir sem áttu seturétt á upphaflegum aðalfundi.

17. gr. Aukaaðalfundur

Stjórn bandalagsins getur boðað til aukaaðalfundar, þegar afar mikilvæg og óvænt mál ber að höndum. Skylt er stjórn að kalla saman aukaaðalfund ef þriðjungur aðildarfélaga krefst þess skriflega og greini þau mál sem leggja á fyrir fundinn. Aukaaðalfundur getur aðeins fjallað um þau mál sem voru tilefni þess að fundurinn var boðaður.
Fundurinn skal kvaddur saman með eins skömmum fyrirvara og aðstæður frekast leyfa þó aldrei með styttri en einnar viku fyrirvara. Reglur um aðalfund skulu gilda eftir því sem við á.

4. kafli – Innra starf bandalagsins

18. gr. Stjórn

A. Kosning og hlutverk stjórnar
Stjórn samanstendur af nítján stjórnarmönnum: formanni, varaformanni, gjaldkera, fimm formönnum fastra málefnahópa og ellefu öðrum stjórnarmönnum. Stjórn er kosin á aðalfundi úr hópi aðalfundarfulltrúa sem boðið hafa sig fram til trúnaðarstarfa skv. 13. gr. Jafnframt skal aðalfundur kjósa þrjá varamenn sem hafa seturétt á stjórnarfundum.
Á oddatöluári skal kjósa formann, formenn fastra málefnahópa og fjóra stjórnarmenn. Á ári sem kemur upp á sléttri tölu skal kjósa varaformann, gjaldkera, sjö stjórnarmenn og þrjá varamenn. Fjöldi atkvæða ræður röð varamanna.
Stjórn fer með æðsta vald bandalagsins á milli aðalfunda. Meginhlutverk stjórnar er að framfylgja lögum og stefnu bandalagsins. Stjórn gerir starfssamning við formann.
Aðalmenn í stjórn geta setið að hámarki í þrjú kjörtímabil samfellt. Seta í formannsembætti  er óháð fyrri stjórnarsetu.
B. Stjórnarfundir
Stjórnarfundir skulu haldnir a.m.k. átta sinnum á ári. Formaður boðar til stjórnarfunda með minnst viku fyrirvara nema sérstakar aðstæður kalli á annað. Stjórnarfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað og meirihluti stjórnarmanna er mættur.

19. gr. Formannafundir

Formannafundir skulu haldnir minnst tvisvar á ári. Tilgangur formannafunda er að tryggja samráð og upplýsingamiðlun milli stjórnar og aðildarfélaga.
Formannafundir skulu boðaðir með a.m.k. tíu daga fyrirvara og tilkynning um fulltrúa berist bandalaginu eigi síðar en viku fyrir fund. Boðaðir skulu allir formenn aðildarfélaga. Formenn mega senda annan fulltrúa í sinn stað.

20. gr. Framkvæmdastjóri

Stjórn ræður framkvæmdastjóra og gerir við hann ráðningarsamning. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri gagnvart stjórn og aðalfundi. Framkvæmdastjóri ræður aðra starfsmenn og gerir við þá ráðningarsamninga sem háðir eru samþykki stjórnar.

21. gr. Framkvæmdaráð

Innan bandalagsins skal starfa framkvæmdaráð. Framkvæmdaráð afgreiðir mál milli stjórnarfunda og leggur meiri háttar mál í hendur stjórnar. Þá getur stjórn einnig vísað málum til framkvæmdaráðs til frekari útfærslu og afgreiðslu.

Í ráðinu sitja formaður, varaformaður og gjaldkeri. Jafnframt skal stjórn tilnefna úr sínum röðum tvo aðalmenn og tvo varamenn. Varamenn geta sótt alla fundi framkvæmdaráðs og eiga rétt á öllum
fundargögnum.

Heimilt er að boða framkvæmdastjóra á fundi framkvæmdaráðs. Framkvæmdastjóri hefur mál- og tillögurétt, en ekki atkvæðarétt.

22. gr. Stefnuþing

Stjórn skal boða til stefnuþings a.m.k. annað hvert ár með minnst tveggja mánaða fyrirvara. Stefnuþingið skal haldið á fyrsta ársþriðjungi. Hlutverk þess er að móta stefnu og áherslur í sameiginlegum hagsmunamálum. Stefnuþing sitja fulltrúar allra aðildarfélaga og eru skipaðir með sama hætti og aðalfundarfulltrúar, sbr. 10. gr.
Stefnuþing gerir tillögu til aðalfundar um stefnu og áherslur í starfi bandalagsins sem og hvaða föstu málefnahópar skulu starfa innan þess.

23. gr. Málefnahópar

Innan bandalagsins skulu starfa fimm fastir málefnahópar. Hlutverk þeirra er að leggja fram tillögur að stefnumótun í hagsmunamálum í samræmi við áherslur stefnuþings. Aðalfundur ákveður málefni þeirra eftir tillögu stefnuþings. Formenn þeirra skulu kosnir á aðalfundi.
Stjórn velur einstaklinga í málefnahópa að fengnum tilnefningum frá aðildarfélögunum. Meðlimir hvers málefnahóps skulu vera sjö að hámarki að formanni meðtöldum. Stjórn skal leitast við að gæta jafnræðis á milli aðildarfélaga við skipun í málefnahópa.
Málefnahópar skulu gefa stjórn stöðuskýrslu á a.m.k. sex mánaða fresti. Formenn þeirra skulu hafa samráð sín á milli.

24. gr. Laganefnd

Innan bandalagsins skal starfa laganefnd. Hún vinnur að lagfæringum og breytingum á lögum ÖBÍ.

5. kafli – Tekjur og uppgjör

25. gr. Tekjur bandalagsins

Tekjum frá Íslenskri getspá skal varið samkvæmt lögum þar um og öðrum tekjum skal ráðstafað í samræmi við hlutverk og markmið bandalagsins. Aðalfundur ákveður aðildargjöld félaganna.

26. gr. Reikningsár og ársreikningar

Reikningsár bandalagsins er almanaksárið. Endurskoðaðir ársreikningar skulu lagðir fyrir stjórn sem leggur þá fyrir aðalfund til fullnaðarafgreiðslu. Endurskoðaðir reikningar skulu liggja fyrir eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund og skulu sendir aðalfundarfulltrúum tveimur vikum fyrir aðalfund. 

6. kafli – Önnur ákvæði

27. gr. Nánari framkvæmd

Stjórn er heimilt að setja reglur um nánari framkvæmd einstakra lagagreina og skulu þær birtar aðildarfélögum. Slíkar reglur skulu ávallt rúmast innan ramma viðkomandi greina og þessara laga.

28. gr. Slit bandalagsins

Bandalagið verður einungis lagt niður berist um það tillaga sem samþykkt er af meirihluta stjórnar. Tillagan skal kynnt við boðun næsta aðalfundar og þarf samþykki a.m.k. 2/3 hluta atkvæðisbærra aðalfundarfulltrúa. Verði bandalagið lagt niður skal eignum þess varið í þágu fatlaðs fólks samkvæmt ákvörðun síðasta aðalfundar.

29. gr. Gildistaka

Lög þessi taka gildi við lok aðalfundar. Jafnframt falla úr gildi eldri lög Öryrkjabandalags Íslands.

Bráðabirgðaákvæði um kosningu stjórnarmanna

Þrátt fyrir ákvæði þessara laga halda kjörnir fulltrúar umboði sínu fram að lokum aðalfundar 2015. Á aðalfundi 2015 verður kosið í allar stöður stjórnar- og trúnaðarmanna samkvæmt þessum lögum og halda þeir umboði sínu til eins eða tveggja ára eftir því sem segir í 18. gr. A.
Atkvæðafjöldi ræður því hvaða fjórir stjórnarmenn eru kjörnir til tveggja ára.
Tímabil það sem nefnt er í 4. mgr. 18. gr. A. gildir frá aðalfundi 2015.

Samþykkt á aðalfundi ÖBÍ 13. nóvember 2014.

10.  Önnur mál

 Ellen þakkaði formanni laganefndar og nefndinni allri ásamt skipulagsnefnd og öllum sem komu að þessari vinnu við lagabreytingarnar fyrir vel unnin störf

a)  Ellen Calmon, formaður ÖBÍ, ávarpaði fundinn og sýndi meðal annars nýjar sjónvarpsauglýsingar ÖBÍ.
 
b)  Fundarstjóri óskaði eftir leyfi fundarins til að framlengja fundinn um 15 mínútur frá auglýstri dagskrá og var það samþykkt.

c)  Auður, formaður SÍBS, las yfirlýsingu frá Samtökum lungnasjúklinga varðandi umsókn þeirra um inngöngu í ÖBÍ. (Fskj. 10.1) Hún las einnig upp ályktun 39. þings SÍBS, þann 18. október 2014, þar sem mótmælt var afgreiðslu aðalfundar ÖBÍ 4. október á umsóknum félaga SÍBS um aðilda að ÖBÍ. (Fskj. 10.2)  Auður ræddi kosningar um aðild sem fram fór á aðalfundi en segir að fulltrúar hafi greitt atkvæði án þess að hafa fengið fullnægjandi upplýsingar.

d)  Hrannar formaður Geðhjálpar mælti með því að laganefndin fengi málfarsráðunaut í lið með sér. Hann minnti á að aðalfundur færi með æðsta vald bandalagsins.

e)  Ægir, MND félaginu, baðst afsökunar á orðum sínum fyrr á fundinum sem hann sagði hafa verið sögð í hita leiksins. Hann telur að nýsamþykkt lög verði til þess að starfið verði virkara.

f)  Sigurjón Einarsson frá SÍBS og félagi í 5 öðrum félögum innan ÖBÍ. Hann segir þá sem eru heyrnarskertir ekki vera hrifnir af því að verið sé að spila tónlist ofan í talað mál og bað um að tillit yrði tekið til þess. Hann bað bandalagið að hafa það í huga að hafa texta með töluðu efni. Sigurjón segist hafa greitt atkvæði gegn lögunum þar sem ekki hafi verið farið eftir atkvæðum um að breytingartillögur þyrftu 2/3 hluta atkvæða.  

g)  Árni Heimir Ingimundarson formaður Málbjargar vísaði í auglýsingar sem Ellen sýndi og sagðist hafa staðið í þeirri trú að ÖBÍ væru ópólitísk samtök en að í auglýsingunum væru tveir þingmenn persónugerðir og sakaðir um hræsni.  Það er verið að persónugera þau til þess að vera á móti hag öryrkja. Hann sagðist hafa tekið viðtal við Vigdísi Hauksdóttur og að hún léti sér hag ÖBÍ og skjólstæðinga þess sig mikils varða. Árni Heimir óskaði eftir því að Ellen og framkvæmdarstjórinn endurskoðuðu þessar auglýsingar.

h)  Halldór Sævar Guðbergsson sagði að það væri ekki nóg að samþykkja ný lög heldur ætti eftir að koma í ljós hvernig gangi að fara eftir þeim. Það er sama hvað það eru búin til fín lög, það er starfið sem skiptir máli. Það skiptir máli að gefa nýjum lögum og skipulagi tækifæri.  

i)  Emil Thoroddsen sagðist vera ánægður með málefnalegar umræður.  

Fundarstjórar þökkuðu fyrir sig.

11. Fundarslit

Ellen formaður sagðist harma niðurstöðu kosninga um inngöngu nýrra aðildarfélaga en að ákvörðunin hefði verið aðalfundarins.

Auglýsingastofan mun kanna hvort ekki sé hægt að texta auglýsingarnar. Þingmennirnir eru fulltrúar ríkisstjórnarinnar og svör þeirra eru upptökur, ekki leikin.  Ellen segir auglýsingarnar ekki vera pólitískar.

Ellen þakkaði aftur skipulagsnefnd, laganefnd og starfsfólki og sleit fundi kl. 21:30.

Fundarritarar:
Hulda Sigfúsdóttir og Gunnar Alexander Ólafsson