Skip to main content
Frétt

Aðalfundur ÖBÍ 2015

By 13. október 2015No Comments

Fundargerð aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands

haldinn á Hilton Reykjavík Nordica í Reykjavík

3. október 2015, kl. 10.00-17.00, og

6. október 2015, kl. 16.00-22.00.

 

Ávarp formanns

Ellen Calmon, formaður ÖBÍ, setti fundinn kl. 10:08 og bauð fundarmenn velkomna. Formaður lagði til að Kolbeinn Óttarsson Proppé og Hildur Lilliendahl Viggósdóttir yrðu fundarstjórar og var það samþykkt samhljóða. Formaður lagði til að Aðalheiður Rúnarsdóttir, Anna Guðrún Sigurðardóttir og Stefán Vilbergsson rituðu fundinn og var það samþykkt samhljóða.

Fundarsetning, kjör fundarstjóra og fundarritara

Fundarstjórar þökkuðu traustið og buðu gesti velkomna. Fundarstjóri fór yfir dagskrá fundarins (fskj. D1) og bar upp tillögu um að Páll Hilmarsson, Dóra Guðrún Pálsdóttir og Ólafur Sindri Ólafsson yrðu teljarar á fundinum. Var það samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri bar undir fundinn að Þuríður Harpa Sigurðardóttir frá Kvennahreyfingu ÖBÍ og Áslaug Ýr Hjartardóttir frá Ungliðahreyfingu ÖBÍ sætu sem áheyrnafulltrúar og var það samþykkt samhljóða.

Almenn fundarstörf

Skýrsla stjórnar

Formaður flutti skýrslu sína (fskj. 1 – Skýrsla formanns og stjórnar).

Formaður fór yfir helstu verkefni og mál starfsársins. Þar bar hæst að skrifstofa bandalagsins flutti í nýtt húsnæði á starfsárinu sem keypt var fyrir arf frá Ólafi Gísla Björnssyni. Kjarahópur bandalagsins tók saman skýrsluna Virkt samfélag (fskj. 1a – Skýrsla um Virkt samfélag). Umsagnir til Alþingis vegna kjaramála eru afar fyrirferða- miklar og fyrirspurnir voru unnar í samvinnu við þingmenn. Fjöldi bréfa var sendur ráðherrum, stofnunum og embættismönnum með fyrirspurnum, ábendingum og tillögum til úrbóta. Kjarahópur ÖBÍ var virkur við gerð auglýsinga til að kynna samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Formaður sýndi myndbönd sem gerð voru í tengslum við kynningu samningsins. Nefnd ÖBÍ um algilda hönnun var virk. Guðjón Sigurðsson og Arnar Helgi Lárusson unnu ötullega að aðgengiseftirliti. Gerðar voru athugasemdir við skort á túlkun fyrir heyrnarlausa í sjónvarpi og aðgengilegum salernum á útihátíðum.

Rannsóknir sýna að stór hluti örorkulífeyrisþega vill vinna, en einungis um 30% þeirra hefur atvinnutengdar tekjur. Mikilvægt er að til verði störf fyrir fólk með skerta starfsgetu og ÖBÍ hefur reynt að vekja athygli á því með verkefninu Atvinna fyrir alla. Formaður sendi þingmönnum bréf til áminningar um verkefnið og fjöldi manns skrifaði greinar til birtingar í Fréttablaðinu. Þverpólitísk samstaða var um NPA – sjálfstætt líf þegar verkefnið var sett af stað. Um afar mikilvægt verkefni er að ræða fyrir fatlaða, en fjárframlög frá ríki og sveitarfélögum eru ekki fullnægandi. Fjórum fötluðum konum var veittur styrkur til að fara á námskeið um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks – SRFF – í Galway á Norður-Írlandi. Rannveig Traustadóttir hélt námskeið um samninginn hér á landi.

Þrír formannafundir voru haldnir á árinu, ungliðahreyfing ÖBÍ fór af stað og bandalagið tók þátt í EDF, norrænu samstarfi og ráðgefandi ráði til Norrænu ráðherranefndarinnar. Vefur bandalagsins var uppfærður, gerður snjallvænn, og vinna við innri vef er í gangi.

Fundarstjóri tilkynnti að umræður um skýrslu stjórnar færu fram eftir kynningu reikninga félagsins en Gísli Helgason, Blindravinafélaginu, gerði athugasemd við fundarstjórn því hann áleit að skýrsla stjórnar væri eitt og reikningar annað og því ætti að ræða þau atriði sitt í hvoru lagi. Gísli fór fram á að umræða skýrslu stjórnar væri tekin fyrir sérstaklega. Fundarstjóri gerði ekki athugasemdir við það og gaf Gísla orðið. Hann þakkaði ágæta skýrslu, spurði hvort ÖBÍ væri ekki opinber stofnun vegna átaksins Atvinna fyrir alla sem snérist um að fjölga störfum hjá opinberum stofnunum og spurði hví samningi við Örtækni hafi verið sagt upp, í ljósi þessa átaks. Frímann Sigurnýjasarson þakkaði góða skýrslu stjórnar og lagði til að ljúka yfirferð reikninga bandalagsins og skýrslna fyrirtækja áður en umræður færu fram. Fundarstjóri bar tillögu Frímanns upp til atkvæða og var hún samþykkt með þorra atkvæða.

Ársreikningur bandalagsins

Guðmundur Snorrason, endurskoðandi frá PwC ehf., kynnti ársreikning ÖBÍ fyrir árið 2014 (fskj. 2 – Ársreikningur). Það var álit Guðmundar að reikningurinn gæfi glögga mynd af stöðu bandalagsins í árslok 2014. Þá hefði skýrsla stjórnar að geyma nauðsynlegar upplýsingar í samræmi við lög um ársreikninga og gaf skoðunin ekki tilefni til athugasemda.

Framlag frá Íslenskri getspá var megin-tekjustofn bandalagsins, en leigutekjur voru nýr tekjustofn sem kom fram á árinu vegna nýs húsnæðis. Heildar rekstrartekjur ársins voru kr. 464,5 milljónir á móti kr. 466 milljónum árið 2013. Tekjur ársins voru örlítið lægri en árið á undan vegna aukaframlags frá Íslenskri getspá það ár.

Stjórn ákvað að hafa meiri sundurliðun í framsetningu rekstrarreiknings en áður hafði verið. Styrkir og framlög voru lægri en árið áður en laun, tengd gjöld og lífeyrisskuldbindingar hækkuðu, fyrst og fremst vegna fleiri starfsmanna og launahækkana. Kostnaður vegna funda, kynninga, auglýsinga og fleiri þátta hækkaði á milli ára, sem og aðkeypt þjónusta og rannsóknir. Kostnaður við tíma- og vefrit lækkaði á milli ára vegna minni útgáfustarfsemi og rekstrarkostnaður fasteignar var svipaður, þótt um annars konar gjöld væri að ræða vegna nýs húsnæðis. Rekstrarkostnaður skrifstofu hækkaði á milli ára, aðallega því búnaður og fleira var endurnýjað vegna flutninganna. Rekstrarniðurstaða ræðst mjög af innkomu frá Íslenskri getspá og framlögum til aðildarfélaga. Hún var neikvæð 2014 og skýrist munur á milli ára að verulegu leyti með aukaframlagi Íslenskrar getspár árið 2013. Vaxtatekjur og verðbætur voru lægri 2014 vegna þess að sjóðir voru notaðir í nýtt húsnæði bandalagsins. Varanlegir fjármunir hækka á milli ára. Í árslok árið 2014 voru eignir og skuldir ÖBÍ kr. 733,5 milljónir og haldbært fé kr. 177,2 milljónir.

Fundarstjóri opnaði fyrir umræður og fyrirspurnir um skýrslu stjórnar og reikninga bandalagsins. Til svara voru formaður, framkvæmdastjóri og gjaldkeri bandalagsins.

Framkvæmdastjóri var fyrstur á mælendaskrá og sagði frá styrkjum sem aðildarfélög ÖBÍ fengu árið 2014 og 50 milljón kr. hækkun á þeim vegna aukaframlags frá Íslenskri getspá. 120 milljónir voru því til skiptanna. Brynja, hússjóður ÖBÍ, fékk 10 milljón aukagreiðslu til viðbótar við þær 105 sem voru á fjárhagsáætlun. Fyrirtæki ÖBÍ, Hringsjá, Örtækni, Tölvumiðstöðin og Fjölmennt, fengu einnig aukaframlög. Tæpar tvær milljónir voru settar í varasjóð bandalagsins sem var 153 milljónir króna í lok árs 2014. Varasjóðurinn er nauðsynlegur því ekki er hægt að treysta fyllilega á framlög frá Íslenskri getspá. Starfsleyfi Lottósins gildir til 1. janúar 2019 og mikilvægt er að standa vörð um það og stefna að endurnýjun. Arfur Ólafs Gísla Björssonar gerði bandalaginu kleift að kaupa húsnæði sem er nægilega stórt til að hýsa starfsemi þess. 12 milljónir króna á ári koma svo í leigutekjur af fasteigninni sem standa undir föstum kostnaði við rekstur hennar. Eignin er í raun tvær álmur svo möguleiki er á að selja hluta hennar ef sá vilji kemur upp.

Fundarstjóri bað fundarmenn að vera gagnorða og opnaði fyrir fyrirspurnir.

Formaður svaraði fyrirspurnum og í máli hans kom fram að mikilvægt sé að fá ríkisstjórn og almenning til að skilja að kjör öryrkja eru óásættanleg, að tala á þann hátt að almenningur vilji byggja annars konar samfélag þar sem örorkulífeyrisþegar geti lifað mannsæmandi lífi af lífeyrinum. Formaður sagði frá því að dómsmál sem ÖBÍ stendur að fer í aðalmeðferð 3. desember 2015. Í greinargerð Ólafs Ísleifssonar hagfræðings, sem fylgir málinu, segist hann telja að örorkulífeyrisþegi þurfi um 100.000 kr. meira en hann hefur í dag til að lifa mannsæmandi lífi af örorkulífeyrinum. Formaður sagði líta svo út sem mannréttindi séu ekki tekin gild á Íslandi nema í gegnum dómsmál, að lagagreinar dugi ekki til að tryggja þau.

Fram kom í máli formanns að um þriðjungur starfsfólks skrifstofunnar sé fatlaður og það hlutfall fari upp í um helming séu aðstandendur starfsfólks taldir með. Þá sagði formaður að þörf væri á að endurskoða skipulag skrifstofu og hlutverk starfsmanna og sagði þá vinnu hafna með Stefnuþingi sem haldið var í apríl 2015. Að lokum sagði formaður leigutekjur af hluta nýja húsnæðisins stæðu nánast undir rekstrarkostnaði þess.

Til að svara fyrirspurn Gísla Helgasonar sagði formaður að farið hafi verið í útboð þrifa þegar skrifstofa bandalagsins fluttist í nýtt húsnæði og niðurstaðan varð að þjónusta Örtækni var mun dýrari en hjá öðrum, samhliða því að Örtækni veitir bara þjónustu á skrifstofutíma, sem henti ekki eftir flutningana. Formaður harmaði að ekki væri hægt að nýta þjónustu Örtækni, sagði að uppsögn samningsins hafi verið niðurstaða framkvæmdastjórnar, en mælti með að samningar yrðu endurskoðaðir. Grétar Pétur Geirsson, gjaldkeri ÖBÍ, tók fram að hann hafi alls ekki samþykkt að segja upp samningi við Örtækni, enda væri hann stjórnarformaður þess fyrirtækis.

Varðandi fyrirspurn um verkefnið Atvinna fyrir alla sagði formaður að verkefnið hafi farið af stað á ársfundi Vinnumálatofnunar í október 2014 þar sem ráðherra hvatti forstjóra opinberra stofnana að ráða fólk með skerta starfsgetu. Sérstakur hluti á vefsíðu Vinnumála- stofnunar var settur upp til að auðvelda stofnunum að auglýsa laus störf. Verkefnið fór hægt af stað, eftir fjóra mánuði voru störfin einungis orðin þrjú svo ráðist var í auglýsingaherferð og ráðherra heimsótti stofnanir til að kynna verkefnið. Í lok september 2014 voru störfin orðin 46. Formaður sagði að byrjað hafi verið á opinberum fyrirtækjum og stofnunum því þau hafi ríkari skyldu en almenn fyrirtæki til að ráða fatlaða í vinnu. Halldór Guðbergsson, Blindrafélaginu, sem kom að verkefninu Atvinna fyrir alla fyrir hönd ÖBÍ, tók fram að ástæða þess að byrjað hafi verið á opinberum vinnustöðum væri að almennt var litið svo á að opinberar stofnanir og fyrirtæki stæðu sig almennt verr en atvinnulífið. Halldór sagði verkefnið muni halda áfram.

Þá sagði formaður frá málþingi sem haldið var um niðurstöður rannsókna sem bandalagið styrkti og að skýrsla um rannsókn um fatlaða íbúa hafi verið kynnt sveitarstjórnum og frambjóðendum í sveitarstjórnakosningum á síðasta ári.

Framkvæmdastjóri svaraði fyrirspurnum og í máli hans kom fram að rannsókn um fatlaða íbúa sveitarfélaga hafi verið gerð að frumkvæði ÖBÍ, til að hafa staðreyndir um fatlaða og ýmis mál þeim tengd á hreinu í aðdraganda sveitarstjórnakosninga því það styrkir bandalagið í sinni baráttu. Spurt var um ósamræmi í ársreikningum ÖBÍ og Hringsjár og framkvæmda- stjóri sagði að á fjárhagsáætlun hafi Hringsjá fengið 1,1 milljón kr. úthlutað, en svo vegna aukaframlags frá Íslenskri getspá hafi fyrirtækið fengið 5 milljónir til viðbótar í lok árs 2014 og því þurfi að athuga hvort þessar tölur sé ekki að finna undir öðrum lið í ársreikningi Hringsjár.

Framkvæmdastjóri þakkaði Bergi Þorra Benjamínssyn, Sjálfsbjörgu, fyrir þá ábendingu að bandalagið væri rekið með tapi ef ekki væri fyrir fjármagnstekjur því hann taldi að rekstur skapaði ekki nægar tekur til að vega upp á móti kostnaði og sagði lausafjárstöðu hafa verið það góða ekki væri ástæða tl að ráðstafa fjármagni á meðan framkvæmdir stóðu yfir við nýtt húsnæði. Að loknum framkvæmdum í lok árs var nokkur afgangur sem ákveðið var að veita í styrki og því var rekstrarafkoman sem raun bar vitni.

Því næst bar fundarstjóri reikningana upp til atkvæða og voru þeir samþykktir samhljóða.

Skýrslur fastra málefnahópa

Þessi dagskrárliður er í nýjum lögum Bandalagsins frá árinu 2014, og ákvæðið því ekki komið til framkvæmdar því kosið var í málefnahópa á aðalfundi 2015.

Skýrslur fyrirtækja

Skýrslur fyrirtækja lágu frammi. (fskj. 1 – Skýrsla formanns og stjórnar)

BRYNJA, hússjóður Öryrkjabandalagsins

Björn Arnar Magnússon, framkvæmdastjóri, og Garðar Sverrisson, formaður BRYNJU, voru til svara, en engar fyrirspurnir bárust.

Örtækni

Spurt var hvort þrifið hafi verið utan skrifstofutíma er skrifstofur ÖBÍ voru í Hátúni og hvers vegna þrif væru ekki leyfð á skrifstofutíma í nýju húsnæði. Þorsteinn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Örtækni, sagði að allt starf sem unnið sé hjá fyrirtækinu sé unnið á dagvinnutíma. Formaður sagði að notkun á nýju húsnæði væri öðruvísi en í Hátúni svo það væri ekki gerlegt að hafa þrif á skrifstofutíma. Formaður endurtók að fyrirkomulag þrifa væri ekki meitlað í stein og því hægt að endurskoða það.

Þá var spurt hvort ÖBÍ kynnti sér sögu fyrirtækja og framkomu þeirra við stafsfólk í útboðsferli eða hvort eingöngu sé horft til kostnaðar. Framkvæmdastjóri svaraði því játandi, sagði allt skoðað, jafnvel sakaskrár, að það væru góð og sjálfsögð vinnubrögð að kanna slíkt.

Hringsjá

Helga Eysteinsdóttir, forstöðumaður Hringsjár, var til svara en engar fyrirspurnir bárust.

TMF- Tölvumiðstöð

Sigrún Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri TMF – Tölvumiðstöðvar, var til svara en engar fyrirspurnir bárust.

Fjölmennt

Erna Arngrímsdóttir, stjórnarmaður í Fjölmennt, var til svara en engar fyrirspurnir bárust.

Stefnuþing: Stefna og starfsáætlun

Arndís Ósk Jónsdóttir, stjórnunar- og mannauðsráðgjafi, kynnti Stefnuþing sem haldið var 10.-11. apríl 2015. Hún rifjaði upp ástæður þess að þingið var haldið og fór yfir hlutverk þess, undirbúning, verklag, tilhögun og vinnu (fskj. 3 – Glærur AÓJ).

Arndís fór yfir niðurstöður þingsins og lagði til að stjórn taki þær til skoðunar og noti til að móta markmið, áherslur og aðgerðir næstu ára. Afrakstur þingsins má finna í skýrslu (fskj. 3a – Skýrsla Stefnuþings), þremur viðaukum og hrágögnum sem geymd eru skrifstofu ÖBÍ. Stefnuþingið sendi tillögur um fimm málefnahópa fyrir aðalfund, en fleiri tillögur (12) komu fram og má finna þær í viðaukum skýrslunnar. Arndís þakkaði fyrir að taka þátt í verkefninu, sagði vinnuna hafa verið jákvæða, glaðlega og kraftmikla.

Formaður lagði til að samþykkja þá fimm hópa sem stefnuþing lagði til: Kjaramál, Aðgengi, Heilbrigðismál, Atvinnu- og menntamál og Sjálfstætt líf.

Spurt var hvort kosið yrði í tímabundna hópa á þinginu eða hvort skrifstofa myndi skipa þá og hvort einhver skilgreining væri á starfstíma þessara hópa. Sigurjón Sveinsson, lögfræðingur ÖBÍ, svaraði og sagði það vera ákvörðun stjórnar að afgreiða fyrirkomulag hópanna. Einnig var spurt um endurhæfingu og formaður sagði málefni tengd endurhæfingu væru hluti málefnahóps um heilbrigðismál.

Formaður lagði til að samþykkja þá fimm hópa sem stefnuþing lagði til: Kjaramál, Aðgengi, Heilbrigðismál, Atvinnu- og menntamál og Sjálfstætt líf, og var það samþykkt án mótatkvæða.

Aðildargjöld, ákvörðun

Gjaldkeri lagði til að aðildargjöld yrðu óbreytt, 0 kr. og var það samþykkt einróma.

Kosningar í stjórn

Fundur hófst eftir hádegishlé kl. 13:25. Fundarstjóri kynnti framkomna tillögu frá Fríðu Bragadóttur, Laufi – félagi flogaveikra, um breytingar á dagskrá, svohljóðandi (fskj. vantar. Orðrétt eftir upptöku, sjá útprentun fskj. 4):

          „Ef tími vinnst til meðan beðið er talningaúrslita í fyrri hluta kosnina verði sá tími nýttur til að klára
          seinni hluta kosninga, þ.e. laganefnd – kjörnefnd – skoðunarmenn reikninga.“

Fundarstjóri bar tillöguna upp til atkvæða og var hún samþykkt einróma.

Fram fór nafnakall. Fundarstjóri óskaði leyfis fundarins að Sigríður Jóhannsdóttir mætti sitja fundinn sem fulltrúi Félags heyrnarlausra, að Guðrún Þorgeirsdóttir og Ólöf Eysteinsdóttir mættu sitja fundinn sem fulltrúar MG-félags Íslands og Guðrún Sæmundsdóttir og Jóna Hrafnborg Kristmannsdóttir sem fulltrúar ME félagsins. Var það samþykkt samhljóða.

Mættir voru 113 fulltrúar fyrir 37 félög bandalagsins, tveir voru fjarverandi og höfðu ekki kallað inn varamann (fskj. 4a – Fulltrúar aðildarfélaga, mætingarlisti 3. október).

Þess var óskað að kosningar færu fram leynilega og því voru allar kosningar til stjórnar skriflegar. Listi yfir framboði til embætta lá frammi (fskj. 4b – Framboð til embætta og nefnda, listi 3. október).

Fundarstjóri greindi frá því að tillaga hefði borist frá Svavari Kjarrval, Einhverfusamtökunum, (fskj. 4c) um að í persónukjöri verði atkvæðafjöldi á atkvæðaseðli takmarkaður við fjölda frambjóðenda. Eftir samráð við lögfræðinga var tillögunni vísað frá á þeim grundvelli að hún væri ekki tæk því hún gengi gegn lögum og eðli kosninga.

Formaður

Tvö voru í framboði: Ellen Calmon, ADHD samtökunum, og Guðjón Sigurðsson, MND-félaginu á Íslandi. Engin framboð voru úr sal. Fundarstjóri bauð frambjóðendum að kynna sig og veitti hvorum fimm mínútur til þess.

Greidd voru 113 atkvæði. Þar af voru 110 gild og þrír seðlar auðir. (fskj. 4d). A, Ellen Calmon, hlaut 88 atkvæði og B, Guðjón Sigurðsson, fékk 22 atkvæði. Því var Ellen Calmon réttilega kjörinn formaður ÖBÍ 2015-2017. Nýkjörinn formaður tók til máls og þakkaði stuðninginn.

Varaformaður

Tveir voru í framboði: Arnar Helgi Lárusson, SEM samtökunum, og Halldór Sævar Guðbergsson, Blindrafélaginu. Arnar Helgi dró framboð sitt til baka á fundinum. Engin framboð voru úr sal og því var Halldór Sævar Guðbergsson sjálfkjörinn í embætti varaformanns 2015-2016. Halldór kom í ræðustól og þakkaði traustið. Hann sagðist líta svo á að verkefni og ábyrgð varaformanns snérust um innra starf Bandalagsins.

Gjaldkeri

Einn var í framboði: Bergur Þorri Benjamínsson, Sjálfsbjörgu. Engin framboð voru úr sal og Bergur Þorri því sjálfkjörinn í embætti gjaldkera 2015-2016. Bergur kom í ræðustól og þakkaði traustið.

Formenn fastra málefnahópa

Kjaramál – málefnahópur. Einn var í framboði: María Óskarsdóttir, Sjálfsbjörgu. Engin framboð voru úr sal og því var María Óskarsdóttir sjálfkjörin formaður málefnahóps um kjaramál 2015-2017. María þakkaði stuðninginn.

Aðgengi – málefnahópur. Einn var í framboði: Arnar Helgi Lárusson, SEM samtökunum. Arnar Helgi dró framboð sitt til baka á fundinum.

Gísli Helgason, Blindravinafélaginu, bauð sig fram til formennsku í hópnum. Skorað var á Grétar Pétur Geirsson, Sjálfsbjörgu, og Ingibjörgu Jónsdóttur, MS félaginu, að bjóða sig fram. Grétar Pétur tók áskoruninni, en Ingibjörg gaf ekki kost á sér. Gísli dró framboð sitt til baka. Fleiri framboð komu ekki fram og því var Grétar Pétur sjálfkjörinn formaður málefnahóps um aðgengismál 2015-2017. Grétar Pétur þakkaði velvild og sagðist mundi vinna ötullega að málefnum hópsins.

Heilbrigðismál – málefnahópur. Tvö voru í framboði: Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir, Sjálfsbjörgu, og Vilhjálmur Hjálmarsson, ADHD samtökunum. Framboð Vilhjálms barst eftir að framboðsfrestur rann út en fundurinn samþykkti að leyfa framboð hans. Frambjóðendur fengu tvær mínútur til að kynna sig.

Greidd voru 111 atkvæði. Guðbjörg hlaut 61 atkvæði og Vilhjálmur 49 (fskj. 4e). Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir var því réttkjörin formaður málefnahóps um heilbrigðismál 2015-2017. Guðbjörg þakkaði traustið og lýsti von um að Vilhjálmur tæki þátt í starfi hópsins.

Atvinnu- og menntamál – málefnahópur. Einn var í framboði: Hjördís Anna Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra. Engin framboð bárust úr sal og Hjördís Anna því réttkjörin formaður málefnahóps um atvinnu- og menntamál 2015-2017. Hjördís þakkaði traustið og sagðist hlakka til þess að taka þátt í vinnu hópsins, sem er hennar hjartans mál.

Sjálfstætt líf – málefnahópur. Tveir voru í framboði: Hjörtur Jónsson, Heyrnarhjálp, og Rúnar Herrera, SEM samtökunum. Kristín Björnsdóttir, Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra, og Ægir Lúðvíksson, MND-félaginu, höfðu dregið framboð sín til baka. Frambjóðendur kynntu sig.

Greidd voru 109 atkvæði. Hjörtur hlaut 37 og Rúnar 70 (fskj. 4f). Auðir seðlar voru tveir. Rúnar Björn Herrera var réttkjörinn formaður málefnahóps um Sjálfstætt líf 2015-2017. Rúnar þakkaði fyrir.

Stjórnarmenn

Fundarstjóri kynnti kosningu ellefu stjórnarmanna sem lá fyrir fundinum og þá sem voru í framboði (fskj. 4b). Einar Þór Jónsson, HIV-Ísland, hafði dregið framboð sitt til baka og framboð Guðbjargar Kristínar Eiríksdóttur, Sjálfsbjörgu, féll sjálfkrafa niður því hún var nýkjörinn formaður málefnahóps um heilbrigðismál. Ekkert framboð barst á fundinum.

Fundarstjóri kynnti fyrirkomulag kosninganna, að hver fundarmaður hafi 11 atkvæði og geti greitt allt að ellefu atkvæði. Fundarstjóri sagði ákvörðun hafi komið frá fundarstjórum, að fengnu áliti lögfræðinga og einstaklinga vana vinnu við kosningar. Var fyrirkomulagið rætt.

Fundarstjóri kynnti fram komna skriflega tillögu um framkvæmd kosninga frá Snævari Ívarssyni, Einari Hrafni Jóhannessyni og Guðmundi Skúla Johnsen frá Félagi lesblindra og Hrönn Pedersen, CCU samtökunum, svohljóðandi (fskj. 4g):

          „Fer fram á að kjósa verði fulla ellefu á lista annars verði seðill ógildur.“

Fundarstjóri bauð umræður um tillöguna. Þeir sem tóku til máls voru hrifnir af tillögunni og vildu að hún yrði samþykkt, töldu hana í samræmi við fyrra fyrirkomulag. Jafnframt þótti mönnum mikilvægt að farið yrði yfir verkfyrirkomulag og framkvæmd kosninga að aðalfundi loknum.

Fundarstjóri bar upp dagskrártillögu sem borist hafði frá Vilhjálmi Hjálmarssyni, ADHD samtökunum, svohljóðandi (fskj. vantar. Orðrétt eftir upptöku. Sjá útprentun fskj. 4h):

          „gengið verði strax til kosninga á þeim forsendum sem fundarstjórar lögðu upp með. Um nýtt
          fyrirkomulag er að ræða sem eflaust þarfnast endurskoðunar í ljósi reynslunnar.“

Tillöguflytjandi gerði stuttlega grein fyrir tillögunni. Fundarstjóri bar tillöguna upp til atkvæða.

Sveinn Rúnar Hauksson, Geðhjálp, tók orðið og gerði athugasemd við dagskrá og fundarstjórn fundarstjóra. Gísli Helgason, Blindravinafélaginu, gerði athugasemd við afgreiðslu fundarstjóra á framkominni dagskrártillögu. Tillöguflytjandi dró tillöguna til baka.

Formaður gerði dagskrártillögu, að hætta umræðum og greiða atkvæði um fram komna tillögu um framkvæmd kosninga, því málið þarfnist frekari skoðunar, t.d. í laganefnd (fskj. 4i). Fundarstjóri bar tillögu formanns upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri tók þá fyrir tillögu um framkvæmd kosninga (fskj. 4g). Gerð var athugasemd við orðalag tillögunnar. Fundarstjóri fékk leyfi tillöguflytjanda að lagfæra orðalag til að skýra tillöguna. Fundarstjóri bara svohljóðandi tillögu upp til atkvæða (fskj. 4g, orðrétt eftir upptöku):

          „fer fram á að kjósa verði fulla ellefu á lista, annars verði seðill ógildur.“

Var tillagan samþykkt með 77 atkvæðum á móti 22.

Þá var gengið til kosninga til stjórnar. Var fyrirkomulag kosninganna úrskýrt og kjörseðlum dreift.

Greidd voru 106 atkvæði, þar af voru 103 gild, eitt ógild og tvö auð (fskj. 4j).

Þessi hlutu kosningu til tveggja ára 2015-2017: Svava Aradóttir, FAAS, 81 atkvæði. Svavar Kjarrval Lúthersson, Einhverfusamtökunum, 80 atkvæði. Maggý Hrönn Hermannsdóttir, Geðhjálp, 78 atkvæði. Árni Heimir Ingimundarson, Málbjörgu, 77 atkvæði.

Þessi hlutu kosningu til eins árs 2015-2016: Erna Arngrímsdóttir, SPOEX, 76 atkvæði. Kristín Björnsdóttir, Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra, 76 atkvæði. Daníel Ómar Viggósson, CP félaginu, 72 atkvæði. Ægir Lúðvíksson, MND félaginu á Íslandi, 65 atkvæði. Garðar Sverrisson, MS félagi Íslands, 64 atkvæði. Karl Þorsteinsson, Ás styrktarfélagi, 63 atkvæði. Emil Thoroddsen, Gigtarfélagi Íslands, 62 atkvæði.

Aðrar kosningar til tveggja ára

Skoðunarmenn reikninga og varamenn

Fundarstjóri kynnti kosningu skoðunarmanna reikninga og varamanna þeirra. Tvö framboð bárust áður en framboðsfrestur rann út (fskj. 4b). Ekkert framboð barst á fundinum og Fríða Bragadóttir, Laufi – félagi flogaveikra, og Hrönn Petersen, CCU samtökunum, því sjálfkjörnar sem skoðunarmenn reikninga 2015-2017.

Engin framboð bárust til varamanna skoðunarmanna reikninga áður en framboðsfrestur rann út. Framboð Ólafs Dýrmundssonar, Stómasamtökunum, og Valdimars Leó Friðrikssonar, MS félaginu komu fram á fundinum. Fundur samþykkti framboð Ólafs og Valdimars. Engin fleiri framboð bárust og Ólafur Dýrmundsson, Stómasamtökunum, og Valdimar Leó Friðriksson, MS félaginu, því sjálfskjörnir sem varamenn skoðunarmanna reikninga 2015-2017.

Kjörnefnd

Fundarstjóri kynnti kosningu fimm manna í kjörnefnd og þá sem voru í framboði (fskj. 4b). Friðfinnur Hermannsson, FAAS, hafði dregið framboð sitt til baka. Framboð Alberts Ingasonar, SPOEX, var samþykkt á fundinum með þorra atkvæða. Þá voru fimm í framboði og kjörnefnd því sjálfkjörin. Dagný Erna Lárusdóttir, SÍBS, Jón Þorkelsson, Stómasamtökum Íslands, Sigurbjörg Ármannsdóttir, MS-félagi Íslands, Sigurður R. Sigurjónsson, SÍBS, og Albert Ingason, SPOEX, voru kosin til setu í kjörnefnd.

Laganefnd

Fundarstjóri kynnti kosningu í fimm manna laganefnd og þá sem voru í framboði (fskj. 4b). Engin framboð komu fram á fundinum og Halldóra Ingvarsdóttir, Gigtarfélagi Íslands, Ingi Hans Ágústsson, HIV-Ísland, Ingveldur Jónsdóttir, MS-félagi Íslands, Svavar Kjarrval Lúthersson, Einhverfusamtökunum, og Þröstur Emilsson, ADHD samtökunum, því sjálfkjörin í laganefnd 2015-2017.

Klukkan 18:15 frestaði fundarstjóri fundi til kl. 16 þriðjudag 6. október 2015.

Þriðjudagur 6. október 2015 – fundi framhaldið.

Fundarstjóri hóf fund kl. 16.16, kynnti dagskrá (fskj. D2) og gerði nafnakall (fskj.4k).

Varamenn í stjórn

Fundarstjóri kynnti breytingar á framboðslista til varamennsku í stjórn er kynntur hafði verið (fskj. 4l). Í framboði voru Snævar Ívarsson, Félagi lesblindra, og Sunna Brá Stefánsdóttir, Gigtarfélagi Íslands.

Þá kynnti fundarstjóri framboð sem borist höfðu eftir að frestu rann út; frá Friðgeiri Jóhannessyni, Fjólu, Gísla Helgasyni, Blindravinafélaginu, og Inga Hans Ágústssyni, HIV-félaginu. Skorað var á Ingveldi Jónsdóttur, MS félaginu, að gefa kost á sér, sem hún gerði. Arnþrúður Karlsdóttir, Tourette-samtökunum, tilkynnti framboð sitt. Vilhjálmur Hjálmarsson, ADHD samtökunum, tók áskorun um framboð sem og Þórir Steingrímsson, Heilaheill. Voru fulltrúar SÍBS hvattir til framboðs og Nílsína Larsen, SÍBS, gaf kost á sér. Fundarstjóri lagði til að fundurinn leyfði framboð þessara fulltrúa og það var gert samhljóða. Frambjóðendur kynntu sig og þá kynnti fundarstjóri fyrirkomulag kosningarinnar.

Greidd voru 90 atkvæði hvar Arnþrúður Karlsdóttir, Tourette-samtökunum með 40 atkvæði, Ingveldur Jónsdóttir, MS félaginu, með 43 atkvæði og Nílsína Larsen, SÍBS, með 45 atkvæði hlutu kosningu sem varamenn í stjórn 2015-2016 (fskj. 4m).

Lagabreytingar, aðildarumsóknir, ályktanir, önnur mál

Lagabreytingar

Teknar voru til afgreiðslu tvær tillögur til lagabreytinga sem borist höfðu laganefnd fyrir aðalfund. Báðar lutu að 18. grein laga Bandalagsins, lið A) Kosning og hlutverk stjórnar, svo hljóðandi:

          Stjórn samanstendur af nítján stjórnarmönnum: formanni, varaformanni, gjaldkera, fimm
          formönnum fastra málefnahópa og ellefu öðrum stjórnarmönnum. Stjórn er kosin á aðalfundi
          úr hópi aðalfundarfulltrúa sem boðið hafa sig fram til trúnaðarstarfa skv. 13. gr. Jafnframt skal
          aðalfundur kjósa þrjá varame nn sem hafa seturétt á stjórnarfundum.

Tillaga til lagabreytingar frá umræðuhópi sem skipaður var samkvæmt ákvörðun aðalfundar 2014 hljóðaði svo (fskj. 5):

          Við 1. mgr. 18. gr. A bætist setning sem segir:
          „Aðalfundur skal leitast við að tryggja að stjórn verði skipuð að meirihluta fötluðu fólki.“

Sigurjón Sveinsson, lögfræðingur ÖBÍ, gerði stuttlega grein fyrir starfi hópsins og tillögunni.

Tillaga til lagabreytingar frá Gísla Helgasyni, Blindravinafélaginu, hljóðaði svo (fskj. 5a):

          Viðbót: Í stjórn Öryrkjabandalagsins skal meirihluti vera úr röðum fatlaðs eða langveiks fólks, að
          minnsta kosti 51% stjórnar bandalagsins.

Fundarstjóri las greinargerð með tillögunni og flutningsmaður gerði stuttlega grein fyrir henni.

Fundarstjóri bauð umræður. Rætt var um hugtök og skilgreiningar, um fatlaða og ófatlaða, um fjölda í aðildarfélögum og um kvóta, um hvað styrki félagið og hvað geti sundrað. Kom fram sú skoðun að valdefling félaga sé mikilvæg, að allir félagsmenn hafi rödd.

Sigurjón Sveinsson, lögfræðingur ÖBÍ, svaraði fyrirspurn um hvort lög bandalagsins skilgreini hver sé fatlaður neitandi. Hann sagði samning SÞ skilgreina fatlaða sem þá sem vegna skerðinga og samspils við umhverfið geta ekki tekið þátt í samfélaginu. Einnig sagði Sigurjón að í reglum EDF segi að allar stjórnir (e. governing bodies) skuli að meirihluta skipaðar fötluðum eða aðstandendum barna sem geta ekki talað fyrir sig sjálf.

Fundarstjóri kynnti þá fyrirkomulag kosninga. Umræður urðu um hvort þær skyldu vera leynilegar eða ekki. Niðurstaða varð að þær skyldu framkvæmdar með handauppréttingu.

Þá bar fundarstjóri tillögu Gísla Helgasonar upp til atkvæða. Var tillaga Gísla felld með 64 atkvæðum gegn 23.

Því næst bar fundarstjóri upp tillögu umræðuhóps ÖBÍ. Tillaga umræðuhópsins var felld með 44 atkvæðum gegn 33.

Fundarstjóri gerði matarhlé í klukkustund.

Aðildarumsóknir

Ný rödd

Framkvæmdastjórn ÖBÍ taldi umsókn Nýrrar raddar uppfylla öll skilyrði og lagði hana fyrir fundinn. Engar umræður urðu og aðildarumsókn Nýrrar raddar var samþykkt með einu mótatkvæði. (fskj. 6).

Astma- og ofnæmisfélagið

Framkvæmdastjórn ÖBÍ mat umsókn Astma- og ofnæmisfélagsins(sjá fskj. #6a) gilda og lagði hana fyrir fundinn. Fundarstjóri bauð umræður. Veltu fundarmenn fyrir sér hvaða félög geti sótt um aðild að ÖBÍ og hvernig fjöldi fulltrúa hvers aðildarfélags sé ákvarðaður. Fundarstjóri las bréf frá formanni og framkvæmdastjóra SÍBS vegna umsókna aðildarfélaga SÍBS að ÖBÍ að ósk formanns SÍBS (fskj. 6b).

Fundarstjóri bar þá umsókn Astma- og ofnæmisfélagsins upp til atkvæða og var hún samþykkt með fimm mótatkvæðum.

Samtök lungnasjúklinga

Fundarstjóri lagði til að heimila fyrirtöku umsóknar Samtaka lungnasjúklinga (fskj. 6c). Urðu umræður um lagaákvæði bandalagsins um umsóknir, sérstaklega hvað varðar umsóknarfrest og undanþágur frá honum.

Fundarstjóri bar tillögu sína um fyrirtöku umsóknarinnar undir atkvæði. Var hún samþykkt með 35 atkvæðum gegn 27.

Fundarstjóri bauð umræður um aðildarumsókn Samtaka lungnaskjúklinga. Spurt var hvort fulltrúar SÍBS væru hæfir í ljósi tengsla við umsóknarfélagið. Sigurjón Sveinsson, lögmaður ÖBÍ, sagði öll aðildarfélög hafa rétt til þátttöku í öllum atkvæðagreiðslum og því væru fulltrúar SÍBS hæfir. Hjörtur Jónsson, Heyrnarhjálp, gerði grein fyrir atkvæði sínu. Hann sat hjá við atkvæðagreiðsluna vegna laga bandalagsins og hvernig talning félagsmanna er túlkuð og til að gæta jafnræðis milli þeirra félaga sem sóttu um aðild. Bergur Þorri Benjamínsson, Sjálfsbjörgu, lagði til að umræðum yrði hætt (fskj. 6d, vantar. Tekið úr hljóðupptöku).

Fundarstjóri bar aðildarumsókn Samtaka lungnasjúklinga upp til atkvæða og var hún samþykkt með 37 atkvæðum gegn 27.

Hjartaheill

Fundarstjóri lagði til að aðildarumsókn Hjartaheilla að ÖBÍ yrði tekin til umfjöllunar. (fskj. 6e). Var tillagan rædd og spurt um lagaákvæði varðandi aðildarumsóknir, bæði laga ÖBÍ og umsóknarfélaga, og skilyrði fyrir aðild.

Fundarstjóri bar tillgögu sína um fyrirtöku upp til atkvæða og var hún samþykkt með 32 atkvæðum gegn 30. Fundarstjóri bar þá aðildarumsókn Hjartaheilla undir atkvæði, sem var samþykkt með 36 atkvæðum gegn 27.

Ályktanir aðalfundar

Engar ályktanir bárust framkvæmdastjórn innan tilskilins frests, en tvær ályktanir höfðu borist fyrir fundinn (fskj. 7 og 7a).

Ályktun aðalfundar ÖBÍ um samning sameinuðu þjóðanna (fskj. 7).

Fundarstjóri leitaði samþykkis fundarfulltrúa til að taka ályktun frá framkvæmdastjórn ÖBÍ til umræðu. Var það samþykkt með einu mótatkvæði. Fundarstjóri bauð umræður.

Rúnar Björn Þorkelsson, SEM, gerði athugasemd við þýðingu samningsins og lagði til að bæta inn orðinu persónulega þar sem fjallað er um aðstoð við fatlað fólk í kaflanum um Sjálfstætt líf í greinargerð sem fylgir með ályktuninni:

          Sjálfstætt líf: Í 19. gr. segir að fatlað fólk hafi rétt til jafns við aðra til að lifa sjálfstæðu lífi án
          aðgreiningar í samfélaginu. Tryggja þarf fólki tækifæri til að velja sér búsetustað, hvar og með
          hverjum það býr, það á ekki að þurfa að eiga heima þar sem búsetuform ríkir. Einnig á fatlað fólk
          rétt á [persónulegri] aðstoð sem miðast við þarfi og forsendur þess, sem gerir því kleift að taka
          virkan þátt í samfélaginu. Í þessu sambandi er mikilvægt að lögleiða notendastýrða persónulega
          aðstoð (NPA).

Var það samþykkt.

Svavar Kjarrval, Einhverfusamtökunum, lagði til að skipta út orðinu fullgilding fyrir orðið lögfesting í ályktuninni:

          Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) krefst þess að stjórnvöld fullgildi samning Sameinuðu
          þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) á haustþingi 2015, ásamt valfrjálsri bókun hans og gangi
          svo strax í að lögfesta hann. Þannig eiga stjórnvöld að efla og tryggja mannsæmandi framfærslu,
          ásamt aðgengi, algildri hönnun, heilbrigðisþjónustu, menntun og atvinnu við hæfi. Með fullgildingu
          [lögfestingu] SRFF verður réttur fatlaðs fólks til virkrar þátttöku í samfélaginu tryggður til jafns við
          þátttöku annarra. Undir samninginn rúmast öll baráttumál ÖBÍ meðal annars kjaramál, aðgengi,
          heilbrigðismál, atvinnumál, menntamál og sjálfstætt líf.

Voru allir fundarfulltrúar sammála þeirri breytingu.

Urðu umræður um muninn á fullgildingu og lögfestingu. Sigurjón Sveinsson, lögfræðingur ÖBÍ, og Ásta Sóley Sigurðardóttir, ADHD samtökunum, útskýrðu hvað fullgilding og lögfesting feli í sér. Til þess að verða aðili að samningi þarf ríki að fullgilda hann. Þegar búið er að fullgilda samning þarf að skoða hvort breyta þurfi lögum viðkomandi ríkis áður en hægt verði að lögfesta hann. Ef ríki er ekki aðili að samningi, hefur ekki fullgilt hann, hefur lögfesting hans ekkert gildi. Fullgilding veitir einstaklingi óbeinan rétt skv. samningi skv. alþjóðarétti.

Spurt var um lögmæti fundarins. Fundarstjóri lét telja fulltrúa og fundurinn reyndist lögmætur.

Fundarfulltrúar sem tóku til máls hvöttu til samþykktar. Þá var gengið til atkvæða og var ályktunin samþykkt samhljóða með áorðnum breytingum.

Ályktun um starfshóp um gerð siðaregla fyrir ÖBÍ. (fskj. 7a).

Fundurinn samþykkti að taka ályktun um starfshóp um gerð siðaregla fyrir ÖBÍ frá Auði Ólafsdóttur, SíBS, til afgreiðslu með tveimur mótatkvæðum. Fundarstjóri las upp ályktunina og meðfylgjandi greinargerð og bauð umræður.

Vakin var athygli á siðareglur Almannaheilla, sem ÖBÍ er aðili að, og spurt hvort þær séu ekki góður grunnur að siðareglum fyrir ÖBÍ, að viðbættum ákvæðum um hagsmuna- skráningu. Var því velt upp hvort ÖBÍ gæti sett siðareglur fyrir aðildarfélög sín, sérstaklega ef þeim ættu að fylgja viðurlög fyrir félagsmenn aðildarfélaga. Flutningsmaður ályktunar dró hana til baka, en bað stjórn bandalagsins jafnframt að taka efni hennar til athugunar.

Önnur mál

Fundarmenn þökkuðu góðan fund og hvöttu félaga til að sýna samkennd og samstöðu, bæði með félögum hér á landi og erlendis. Einnig voru fundarmenn hvattir til að raða sér í málefnahópa bandalagsins.

Bergur Þorri Benjamínsson, Sjálfsbjörgu, sagði frá niðurstöðum af vinnu starfshóps sem hann og Guðríður Ólafsdóttir, sem lengi starfaði sem félagsmálafulltrúi ÖBÍ, sátu í síðasta ár. Fjallaði hópurinn um styrki til bifreiðakaupa fatlaðra. Sagði Bergur frá því að ráðherra ætli að halda tíma á milli styrkveitinga óbreyttum fyrst um sinn og að hann ætli að beita sér fyrir því að styrkir hækki um 20% strax á þessu ári.

Fram komu ábendingar varðandi framkvæmd aðalfundar að gæta þess að dreifa ekki símanúmerum og netföngum fundarfulltrúa til allra. Sett var fram hugmynd um innra net til dreifingu fundargagna.

Halldór Sævar Guðbergsson, Blindrafélaginu, nýkjörinn varaformaður, sendi hamingjuóskir til nýkjörinna og óskaði góðs samstarfs.

Þá þökkuðu fundarstjórar fyrir sig og afhentu formanni fundinn.

Fundarlok

Formaður þakkaði góðan fund, starfsfólki fyrir störf sín, óskaði nýkjörnum til hamingju með embætti sín og bað fundarmenn að muna eftir málefnahópum um fötluð börn, fatlaðar konur og kynningarmál.

Formaður sleit fundi kl. 21:58.

 

Fylgiskjöl:

1      Skýrsla formanns og stjórnar

1a    Skýrsla um Virkt samfélag

2      Ársreikningur

3      Glærur Arndísar Óskar Jónsdóttur

3a    Skýrsla Stefnuþings

4      Dagskrártillaga Fríðu Bragadóttur. Skráð orðrétt eftir hljóðupptöku

4a    Fulltrúar aðildarfélaga, mætingarlisti 3. október

4b    Framboð til embætta og nefnda, listi 3. október

4c    Tillaga um framkvæmd kosninga frá Svavari Kjarrval Lútherssyni

4d    Niðurstöður formannskosninga

4e    Niðurstöður kosninga formanns málefnahóps um heilbrigðismál

4f     Niðurstöður kosninga formanns málefnahóps um sjálfstætt líf

4g    Tillaga Guðmundar Skúla Johnsen, Snævars Ívarssonar og Einars Hrafns Jóhannessonar frá Félagi lesblindra og Hrannar Pedersen, CCU samtökunum

4h    Dagskrártillaga Vilhjálms Hjálmarssonar. Skráð orðrétt eftir hljóðupptöku

4i     Dagskrártillaga formanns

4j     Niðurstöður kosninga til stjórnar

4k    Fulltrúar aðildarfélaga, mætingarlisti 6. október

4l     Framboð til embætta og nefnda, listi 6. október. Niðurstöður kosninga 3. október

4m   Niðurstaða kosningar varamanna í stjórn

5      Lagabreytingartillaga Gísla Helgasonar, Blindravinafélagi Íslands

5a    Lagabreytingartillaga umræðuhóps ÖBÍ

6      Aðildarumsókn Nýrrar raddar

6a    Aðildarumsókn Astma- og ofnæmisfélagsins

6b    Bréf frá SÍBS vegna aðildarumsókna

6c    Aðildarumsókn Hjartaheilla

6d    Dagskrártillaga Bergs Þorra Benjamínssonar, Sjálfsbjörgu, um að hætta umræðum

6e    Aðildarumsókn Hjartaheilla

7      Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalagsins Íslands

7a    Tillaga til ályktunar frá SÍBS

D1   Dagskrá 3. október 2015

D2   Dagskrá 6. október 2015