Skip to main content
Frétt

Aðalfundur ÖBÍ 2016

By 5. desember 2016No Comments

Fundargerð aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands sem haldinn var á Hilton Reykjavík Nordica í Reykjavík 14. október 2016, kl. 16.00-20.00, og  15. október 2016, kl. 10.00-17.00.

Ávarp formanns

Formaður ÖBÍ, Ellen Calmon, setti fundinn kl. 16:16 og bauð fundarmenn velkomna. Formaður lagði til að Kolbeinn Óttarsson Proppé og Drífa Snædal yrðu fundarstjórar og var það samþykkt samhljóða. Formaður lagði til að Aðalheiður Rúnarsdóttir og Ragnheiður Ásta Sigurðardóttir rituðu fundinn og var það samþykkt samhljóða. Þá afhenti formaður fundarstjórum fundinn.

Fundarsetning, kjör fundarstjóra og fundarritara

Fundarstjórar þökkuðu traustið og buðu gesti velkomna. Fundarstjóri fór yfir dagskrá fundarins (fskj. nr. 1) sem fundarmenn höfðu fengið senda.

Fundarstjóri bar undir fundinn að Soffía Melsteð frá Kvennahreyfingu ÖBÍ og Andri Valgeirsson Ungliðahreyfingu ÖBÍ sætu fundinn sem áheyrnarfulltrúar og var það samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri leitaði samþykkis fundarins fyrir setu Áslaugar Hreiðarsdóttur, Elínar Sigríðar Ármannsdóttur og Fjólu Heiðdal, sem aðalfulltrúa Máleflis; og setu Guðrúnar Sæmundsdóttur, Herdísar Sigurjónsdóttur og Kjartans Birgissonar sem aðalfulltrúa ME félags Íslands, á fundinum, því upplýsingar höfðu borist eftir tilskilinn tíma. Var seta þeirra samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri óskaði þá samþykkis fundarins fyrir setu áheyrnarfulltrúa málefnahópa: Maríu Hauksdóttur og Hrafnhildar Kristbjörnsdóttur, málefnahópi um atvinnu- og menntamál, og Guðmundar Inga Kristinssonar, málefnahópi um kjaramál. Var seta þeirra samþykkt einróma.

Almenn fundarstörf

Skýrsla stjórnar (1)

Formaður flutti skýrslu sína (fskj. nr. 2 – Skýrsla formanns og stjórnar, síður 9-21) og fór meðal annars yfir eftirtalin atriði. Starfsáætlun sem breyttist mjög. Nýtt skipurit ÖBÍ og skrifstofu. Stofnun málefnahópa. Umsagnir um lagafrumvörp. Mikilvægt er að starfsáætlun sé lífræn.

Þann 8. október 2016 bauð ÖBÍ öllum framboðum til alþingis til fundar. Flestir flokkar voru sammála um mikilvægi þess að lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Mikilvægt er að upplýsingahlutverki ÖBÍ sé sinnt og því er upptaka af fundinum aðgengileg á vef ÖBÍ.

ÖBÍ átti 55 ára afmæli 5. maí síðastliðinn. Í tilefni af því var veittur styrkur til aðildarfélaga til myndbandagerðar en aukafé frá Íslenskri getspá var nýtt í þetta verkefni. Gerður var samningur við fyrirtækið Tjarnargötu og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir ráðin verkefnastjóri.

Mikill áhugi var á að koma upp innri vef ÖBÍ og á fyrri hluta ársins var slíkur vefur tekinn í notkun. Um er að ræða svokallað podio kerfi og fyrir tilstilli þess var hægt að draga úr póstsendingum auk þess sem það auðveldaði samstarf málefnahópa og allt fundaskipulag. Mikilvægt er að kerfið sé nýtt.

20. september síðastliðinn mælti Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra fyrir fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem var samþykkt. Næsta skref verður að fá ríkið til að lögfesta samninginn, en ÖBÍ mun skrifa skuggaskýrslu. Hér var um gríðarlega stóran sigur að ræða.

Í september fékk ÖBÍ Gallup til að kanna viðhorf almennings til öryrkja. ÖBÍ tók þátt í nefnd um breytingar á lögum um almannatryggingar. Eingöngu var hlustað á sjónarmið stjórnarmeirihlutans og samtök atvinnulífsins og hætti ÖBÍ því þátttöku í nefndinni.

Stefnuþing var haldið í apríl 2015. Málefnahóparnir voru algjörlega frábærir, líf og fjör, allir lausnamiðaðir og tillögumiðaðir. Með tilkomu málefnahópanna fer fram einbeittari vinna og meiri forgangsröðun. Reglulegir fundir með formönnum aðildarfélaganna eru skemmtilegustu fundirnir sem formaður ÖBÍ situr. Í tilefni af 1. maí var farið í auglýsingaherferð varðandi börn sem búa við skort. Slagorðið var fæði, klæði, húsnæði og í auglýsingunum voru frægir aðilar í gúmmístígvélum.

Á árinu hefur ÖBÍ farið í nokkur dómsmál. Á þessu ári voru tvö dómsmál sem bar hæst, annars vegar framfærslumálið og hins vegar sérstakar húsaleigubætur. ÖBÍ reyndi samtalsleiðina en því miður var enginn vilji til staðar hjá borginni.

Í mars síðastliðnum urðu veigamiklar skipulagsbreytingar á skrifstofunni sem er nánar fjallað um í ársskýrslunni. Á árinu voru margir sem nýttu sér sumarskólann í Galway en nokkrir félagar í aðildarfélögum ÖBÍ voru styrktir til þátttöku. Hugmyndir eru uppi um að koma á fót sambærilegum sumarskóla á Norðurlöndunum. Varaformaður ÖBÍ, Halldór Sævar Guðbergsson, hefur sinnt samstarfi við EDF mjög vel, þar sem áherslan í ár var meðal annars á fatlað flóttafólk.

Á liðnu ári var ÖBÍ oft í fjölmiðlum. Bandalagið átti gott samstarf við stjórnmálamenn. Mikilvægt er að halda baráttunni áfram, og halda fram á veginn. Markmiðið er samfélag án fordóma og fátæktar. Mikilvægt er að fá almenning til þess að leggjast á árar með okkur. ÖBÍ og félagar þess bíða óþreyjufull eftir að ná árangri. Okkar verkefni eru stór og taka tíma en smám saman mun dropinn hola steininn.

Fundarstjóri þakkaði formanni skýrsluna og opnaði mælendaskrá. Magnús Þorgrímsson, Hjartaheill, þakkaði gott starf og hvatti menn til að halda baráttustarfinu áfram. Taldi hann mikilvægt að koma málefnum öryrkja á framfæri. Ólína Sveinsdóttir, Parkinsonsamtökunum, þakkaði góða og fallega ársskýrslu. Snædís Rán Hjartar- dóttir, Fjólu, minnti á að ekki er búið að fullgilda valfrjálsa bókun við samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks, einungis var samþykkt þingsályktun þess efnis að valfrjálsa bókunin yrði fullgild fyrir árslok 2017. Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður ÖBÍ, ræddi alvarlegar aðfinnslur Eyglóar Harðardóttur, félagsmálaráð­herra, um að ÖBÍ og hagsmunasamtök haldi niðri kjörum. Hann telur það ósanngjarnt gangvart ÖBÍ og öryrkjum. Sagði Halldór starfsgetumat til staðar í dag og það sé mjög harkalegt. Hvatti hann fundarmenn til að halda baráttunni áfram. Bergur Þorri Benjamínsson, gjaldkeri ÖBÍ, þakkaði Hrafnhildi Kristbjörnsdóttur fyrir að stíga fram og segja sannleikann um fordóma gagnvart fötluðum í atvinnuleit.

Fundarstjóri bar skýrsluna upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Ársreikningur ÖBÍ (2)

Guðmundur Snorrason, endurskoðandi frá PwC ehf., kynnti ársreikning ÖBÍ fyrir árið 2015 (fskj. nr. 3 – Ársreikningur). Það var álit endurskoðanda að reikningurinn gæfi glögga mynd af stöðu ÖBÍ í árslok 2015. Þá hefði ársreikningur ÖBÍ að geyma nauðsynlegar upplýsingar í samræmi við lög um ársreikninga og gaf skoðunin ekki tilefni til athugasemda.

Heildarrekstrartekjur ársins voru kr. 492,4 milljónir á móti kr. 464 milljónum árið 2014. Megintekjustofn ÖBÍ var framlag Íslenskrar getspár, 481 milljón. Leigutekjur voru nýr tekjustofn sem kom fram árið 2014 vegna nýs húsnæðis, numu þær 10,9 milljónum 2015. Aðrar tekjur, 128 þúsund, voru tekjur af auglýsingum í blað ÖBÍ.

Rekstrargjöld voru samtals 514,4 milljónir, um 40 milljónum hærri en 2014. Þar munar mest um 29 milljóna kr. hækkun á styrkjum og framlögum á milli ára, var 256 milljónir 2014 en 285,1 milljón 2015. Laun, tengd gjöld og lífeyrisskuldbindingar hækkuðu, fyrst og fremst vegna fleiri starfsmanna og launahækkana. Kostnaður vegna funda, ráðstefna, kynninga, auglýsinga og fleiri þátta hækkaði nokkuð á milli ára en aðkeypt þjónusta og rannsóknir lækkuðu að sama skapi. Kostnaður við tíma- og vefrit stóð í stað á milli ára en rekstrarkostnaður fasteignar lækkaði úr 14,3 milljónum 2014 í 11,7 milljónir 2015. Afskriftir jukust úr 6,9 milljónum 2014 í 9 milljónir 2015 og var það vegna þess að húsnæði var í notkun allt árið 2015 en bara hluta árs 2014. Rekstrarafkoma ársins var neikvæð uppá 22 milljónir 2015 á móti 9,9 milljónum 2014. Vaxtatekjur og verðbætur voru 10 milljónir 2015 en 11,9 árið á undan. Því var hrein rekstrarafkoma ársins neikvæð um 11,9 milljónir 2015, en var jákvæð sem nam rúmlega 1,7 milljónum 2014.

Varanlegir fjármunir hækka á milli ára, úr 512,2 milljónum 2014 í 524,4 milljónir 2015. Veltufjármunir lækkuðu á milli ára, úr 221,4 milljónum í 171,6 milljónir. Það stafar meðal annars af því að í árslok 2014 voru ógreiddir reikningar vegna framkvæmda við Sigtún og skammtímakröfur á Íslenska getspá vegna desemberframlaga. Í árslok árið 2015 voru eigið fé og skuldir ÖBÍ kr. 696 milljónir og handbært fé kr. 117 milljónir.

Gjaldkeri ÖBÍ, Bergur Þorri Benjamínsson, kvaddi sér hljóðs og sagði tekjur aukast ár frá ári, sem gæfi ÖBÍ möguleika á auknum styrkveitingum. 134 milljónum var úthlutað í styrki 2015, sem er 14 milljóna kr. aukning á milli ára. Sem dæmi nefnir Bergur að Brynja, hússjóður Öryrkjabandalagsins, fékk viðbótarframlag og fyrirtæki bandalagsins fengu einnig aukastyrki. Aðaltekjulind ÖBÍ er Íslensk getspá og fjárstreymi er tryggt næstu árin því í desember 2015 var starfsleyfi Íslenskrar getspár framlengt til 2034.

Þá opnaði fundarstjóri mælendaskrá og voru framkvæmdastjóri ÖBÍ, Lilja Þorgeirsdóttir og gjaldkeri ÖBÍ, Bergur Þorri Benjamínsson, til svara. Ólína Sveinsdóttir frá Parkinsonsamtökunum spurði um hækkun lífeyrisskuldbindinga. Sveinn Rúnar Hauksson, frá Geðhjálp, spurði hví eignir rýrni á milli ára. Endurskoðandi leiðrétti sig, sagði að um lækkun hafi verið að ræða, ekki hækkun. Einstaklingur sem átti lífeyrisréttindi féll frá og því lækka þær skuldbindingar. Jafnframt lækkuðu skuldaliðir, því handbært fé var notað til að lækka skuldir. Hann sagði eigið fé lækka sem nemi afkomu ársins, sem ræðst af ráðstöfun tekna til aðildarfélaga. Endurskoðandi sagði þetta koma hvað best fram í sjóðsstreyminu.

Frímann Sigurnýasson, SÍBS, spurði hvort tap og útborganir til aðildarfélaga séu stefna ÖBÍ. Bergur svaraði og sagði svo ekki vera, heldur voru aðstæður þannig 2015 að þessar greiðslur voru mögulegar. Því nýtti stjórn tækifærið þetta árið en ekki er um framtíðarstefnu að ræða.

Þá bar fundarstjóri ársreikning 2015 upp til atkvæða. Var hann samþykktur einróma.

Skýrslur fastra málefnahópa (3)

Skýrslur málefnahópa lágu frammi. (fskj. nr. 2, síður 24-27)

Málefnahópur um aðgengi (a)

Grétar Pétur Geirsson formaður málefnahóps um aðgengi sagði frá starfi hópsins. Auk Grétars sátu í hópnum Andri Valgeirsson, Sjálfsbjörg, Birna Einarsdóttir, Gigtarfélagi Íslands, Ingólfur Már Magnússon, Heyrnarhjálp, Ingveldur Jónsdóttir, MS félagi Íslands, Jón Heiðar Jónsson, Sjálfsbjörg og Lilja Sveinsdóttir, Blindrafélaginu. Þrír úr hópnum sitja í ferlinefnd og Ingveldur Jónsdóttir er í undirbúningsnefnd ferðaþjónustu fatlaðra í Kópavogi. Grétar Pétur sagði lykilatriði að koma málefna­hópum á laggirnar, að starf þeirra sé skilvirkt og árangursríkt.

Helsta verkefni málefnahóps um aðgengi var umsögn um drög að nýrri byggingar­reglugerð þar sem stóð til að minnka stæði og salerni fatlaðra. Bæði Sjálfsbjörg og ÖBÍ sendu, að fengnu lögfræðiáliti, umsagnir og mótmæltu harðlega, sem leiddi til þess að drögunum var hafnað.

Helstu verkefni hópsins framundan eru hönnun útisvæða því götur og torg eru oft hönnuð án tillits til þarfa fatlaðs fólks. Grétar þakkaði nefndinni vel unnin störf og Stefáni Vilbergssyni, starfsmanni hópsins, sérstaklega.

Málefnahópur um atvinnu- og menntamál (b)

Elín H. Hinriksdóttir, starfandi formaður málefnahóps um atvinnu- og menntamál, kynnti skýrslu hópsins. Hópinn skipuðu Guðrún Sæmundsdóttir, ME félagi Íslands, Elín H. Hinriksdóttir, ADHD samtökunum, Hrafnhildur Kristbjörnsdóttir, Sjálfsbjörg, María Hauksdóttir, Blindrafélaginu, Snævar Ívarsson, Félagi lesblindra, og Sylviane Lecoultre, Geðhjálp.

Hópurinn fundaði 15 sinnum á tímabilinu desember 2015 til september 2016. Markmiðið var að kortleggja stöðu menntunar og atvinnu í samfélaginu og gera tillögur að úrbótum.

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, kom á fund hópsins, sem og Sabine Leskopf, formaður mannréttindasviðs borgarinnar. Fjölmörg verkefni bíða úrlausnar og hópurinn hlakkar til að takast á við þau verkefni.

Málefnahópur um heilbrigðismál (c)

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir, formaður málefnahóps um heilbrigðismál, kynnti skýrslu hópsins. Í hópnum störfuðu Emil Thóroddsen, Gigtarfélagi Íslands, Bergþór G. Böðvarsson, Geðhjálp, Fríða Rún Þórðardóttir, Astma- og ofnæmisfélagi Íslands, Guðrún Bergmann Franzdóttir, Hjartaheill, Hannes Þórisson, Félagi nýrnasjúkra, og Sigríður Jóhannsdóttir, Samtökum sykursjúkra.

Hópurinn vann umsagnir við frumvarp um lyfjalög, um málefni aldraðra, gæludýr í strætó og fleiri atriði. Umfjöllunarefni hópsins eru áhersluatriði stefnuþings 2014, heilsugæsla, hjálpartæki og þjálfun og greiðsluþátttaka. Framundan eru mörg krefjandi og spennandi verkefni.

Málefnahópur um kjaramál (d)

María Hauksdóttir, kynnti skýrslu hópsins. Í hópnum starfa Dóra Ingvadóttir, Gigtarfélagi Íslands, Erna Arngrímsdóttir, SPOEX, Frímann Sigurnýasson, SÍBS, Guðmundur Ingi Kristinsson, Sjálfsbjörg, Hilmar Guðmundsson, Sjálfsbjörg og María M.B. Olsen, Gigtarfélagi Íslands.

Hópurinn fjallaði um kjaramál skjólstæðinga ÖBÍ. Á liðnu ári hefur hópurinn haldið opinn fund í Ráðhúsi Reykjavíkur um kjör og ímynd öryrkja og birt greinar í dagblöðum. Helstu baráttumál hópsins, leiðrétting kjaragliðnunar, hækkun persónuafsláttar og að lífeyrir almannatrygginga verði einstaklingsmiðaður og óháður sambúðarformi, eru í samræmi við niðurstöður stefnuþings.

Á árinu sendi hópurinn frá sér áskorun til stjórnvalda um samstarf um útreikning kjara- og skattagliðnunar. Áætlað var að halda málþing á vegum hópsins í október 2016 en því var frestað til næsta árs vegna alþingiskosninga.

Málefnahópur um sjálfstætt líf (e)

Rúnar Björn Herrera, formaður málefnahóps um sjálfstætt líf kynnti skýrslu hópsins. Í hópnum voru Hrefna Haraldsdóttir, ADHD samtökunum, Inga Björk Bjarnadóttir, fulltrúi ÖBÍ í verkefnisstjórn um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA), Snædís Rán Hjartardóttir, Heyrnarhjálp, Védís Drafnardóttir, Geðhjálp, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, Sjálfsbjörg og Ægir Lúðvíksson, MND félaginu.

Notendastýrð, persónuleg aðstoð, NPA, er helsta baráttumál hópsins. Markmiðið er að NPA verði komið í lög fyrir lok árs 2016.

Fundarstjóri opnaði mælendaskrá. Ægir Lúðvíksson, MND félaginu, þakkaði skýrslur og sagði skipun hópanna þarfa. Magnús Þorgrímsson, Heilaheill, þakkaði góðar skýrslur. Hann saknaði umræðu um hóp öryrkja sem hefur búið erlendis og þeirrar tekjuskerðingar sem þeir verða oft fyrir og finnst það þurfi að koma fram í vinnu málefnahópanna. Elín H. Hinriksdóttir, starfandi formaður málefnahóps um atvinnu- og menntamál, svaraði og sagði frá málþingi sem haldið var 8. september 2015 um atvinnumál undir yfirskriftinni „Vannýttur mannauður“ þar sem farið var yfir málefni fatlaðs fólks í atvinnulífinu.

Bergur Þorri Benjamínsson, gjaldkeri ÖBÍ, lagði áherslu á að þetta er fyrsta starfsár nýs skipulags. Honum þykir árangur af starfi málefnahópanna mjög góður, að margt sé jákvætt en enn eigi eftir að fínpússa starfið. Lögð hefur verið áhersla á að hafa málþing og fundi á vegum málefnahópanna aðgengileg landsbyggðinni. Bergur samsinnti Magnúsi og sagði bent á þetta vandamál í skýrslu ÖBÍ til velferðarnefndar alþingis. Vill hvetja fundarmenn og félaga til að vera duglega að taka þátt í málþingum sem haldin eru og vera duglega að auglýsa fundi. Að lokum þakkaði Bergur málefnahópum og starfsmönnum þeirra fyrir gott starf.

Guðrún Sæmundsdóttir, ME félaginu, benti á að málefnahópur um atvinnu- og menntamál hefur beitt sér sérstaklega fyrir atvinnumálum öryrkja og sendi nýlega frá sér skýrslu um nýsköpun. Í skýrslunni er lögð áhersla á að öryrkjar geti unnið heima hjá sér við það sem þeir hafa áhuga og getu til. En til þess að þetta verði að veruleika þarf að vera til staðar bæði pólitískur vilji og stjórnsýsluleg ákvörðun.

Skýrslur fyrirtækja (4)

Skýrslur fyrirtækja lágu frammi. (fskj. nr. 2, síður 29-35)

BRYNJA, hússjóður Öryrkjabandalagsins (a)

Björn Arnar Magnússon framkvæmdastjóri var til svara fyrir BRYNJU hússjóð. Garðar Sverrisson, formaður BRYNJU, kvaddi sér hljóðs og sagði frá því að skýrslan fyrir árið 2015 sýndi fram á alvarlegt ástand í húsnæðismálum. Biðlistar hjá Brynju séu að lengjast eins og glöggt má sjá á því að BRYNJA eigi um 800 íbúðir og á biðlista séu um 400 manns. Garðar benti ennfremur á að húsnæðismál séu mjög stór þáttur í baráttu fyrir bættum kjörum. Sjá má ársreikning Brynju í fylgiskjali nr. 4a.

Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður ÖBÍ, ræddi um vandann á húsnæðismarkaði, sem hann heldur mikið stærri en komið hefur fram. Sagðist Halldór jafnvel telja þörf á að stofna starfshóp til að fjalla um málið. Arnar Helgi Lárusson, SEM samtökunum, spurði hvort allt húsnæði BRYNJU sé fullkomlega aðgengilegt fötluðum. Björn Arnar, framkvæmdastjóri BRYNJU, sagði 60-70% vera aðgengilegt, en fullkomið aðgengi í nær 50% íbúða. Mikil áhersla sé á gott aðgengi í keyptu húsnæði en BRYNJA hússjóður sé hins vegar ekki með sérstakan úttektaraðila á sínum vegum.

Rúnar Björn Herrera, SEM samtökunum, spurði hvort hægt væri að nýta varasjóð ÖBÍ til uppbyggingar eða fjölgunar íbúða. Bergur Þorri Benjamínsson svaraði og sagði að BRYNJA ætti 800 íbúðir en að húsnæðismálin væru risavaxið og ofvaxið verkefni. Ægir Lúðvíksson, MND félaginu, vildi meina að það væri ekki hlutverk ÖBÍ að tryggja öryrkjum húsnæði, heldur ríkisins og sveitarfélaganna. Ennfremur taldi hann að húsnæðismál ættu að fara undir málefnahópana. Frímann Sigurnýasson, SÍBS, sagði að húsnæðismál væru stór og vaxandi málaflokkur sem þyrfti að ræða á opinskáan hátt. Ennfremur stakk hann upp á að framkvæmdastjórar fyrirtækja sem tengdust ÖBÍ kynntu sín fyrirtæki þar sem fulltrúar aðalfundar ÖBÍ hefðu ekki nægjanlega þekkingu á þeim. Fundarstjóri svaraði því strax að ekki væri hægt að setja þetta á dagskrá svo seint.

Halldór Sævar, varaformaður ÖBÍ, svaraði varðandi vandræði á fasteigna- og leigumarkaðnum. Hann taldi ásókn í félagslegt leiguhúsnæði vera alvarlegt vandamál þar sem að þar sé kannski á ferðinni enn stærri hópur en öryrkjar sem þora þó ekki að sækja um vegna hræðslu um að uppfylla ekki skilyrði.

Örtækni (b)

Framkvæmdastjóri Örtækni, Þorsteinn Jóhannsson, var til svara en engar fyrirspurnir bárust. Sjá má ársreikning Örtækni í fylgiskjali nr. 4b.

Hringsjá (c)

Helga Eysteinsdóttir, forstöðumaður Hringsjár, var til svara en engar fyrirspurnir bárust. Sjá má ársreikning Hringsjár í fylgiskjali nr. 4c.

TMF – Tölvumiðstöð (d)

Sigrún Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri TMF – Tölvumiðstöðvar, var til svara en engar fyrirspurnir bárust.

Fjölmennt (e)

Erna Arngrímsdóttir, stjórnarmaður í Fjölmennt, var til svara en engar fyrirspurnir bárust. Sjá má ársreikning Fjölmenntar í fylgiskjali nr. 4d.

Íslensk getspá (f)

Vífill Oddsson, fulltrúi ÖBÍ í stjórn Íslenskrar getspár, kvaddi sér hljóðs og sagði stöðuna og útlitið gott.

Stefnuþing: stefna og starfsáætlun (5)

Ellen Calmon, formaður ÖBÍ, kynnti stefnu og starfsáætlun stefnuþings sem haldið var í mars. Málefnahópar höfðu það verkefni að forgangsraða þremur atriðum sem þeir vildu helst leggja áherslu á. Nánari skýringar á afstöðu, rök og hugmyndir að leiðum má sjá í fylgiskjölum nr. 5a-e.

Tillögur málefnahóps um aðgengi má sjá í fskj. nr. 5a. Hópurinn lagði til að aðgengiseftirlit, textun í sjónvarpi og hönnun útisvæða yrðu sett í forgang.

Tillögur málefnahóps um atvinnu- og menntamál má sjá í fskj. nr. 5b. Hópurinn lagði til að innleiðing hvatningakerfis fyrir fyrirtæki og stofnanir um ábyrga samfélagsþátttöku og stofnun lánasjóðs sem veitir lán til að fjármagna kostnað vegna atvinnuuppbyggingar yrðu sett í forgang, ásamt því að knýja á um að einstaklingar með sérþarfir fái lögbundna þjónustu í menntakerfinu.

Tillögur málefnahóps um heilbrigðismál má sjá í fskj. nr. 5c. Hópurinn lagði til að heilsugæslan, hjálpartæki og þjálfun og greiðsluþátttaka yrðu sett í forgang.

Tillögur málefnahóps um kjaramál má sjá í fskj. nr. 5d. Hópurinn lagði til að leiðrétting kjaragliðnunar og veruleg hækkun persónuafsláttar yrðu sett í forgang ásamt því að draga verulega úr tekjuskerðingum og vinna að einföldun almannatryggingakerfisins.

Tillögur málefnahóps um sjálfstætt líf má sjá í fskj. nr. 5e. Hópurinn lagði til að NPA, SRFF (samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks) og samskiptamál yrðu sett í forgang.

Fundarstjóri opnaði mælendaskrá. Athugasemd var gerð við breytingu á röðun tillagna málefnahóps. Ægir Lúðvíksson, MND félaginu, sagðist ekki líta á röð atriða sem forgangsröðun heldur taldi að um væri að ræða þrjú verkefni sem ættu að vera jafnvíg. Auður Ólafsdóttir, SÍBS, gerði athugasemd varðandi málefnahóp um heilbrigðismál. Taldi hún ályktun frá þeim varðandi greiðsluþátttökukerfið ekki vera í samræmi við tillögur stefnuþings.

Fundarstjóri bar þá tillögurnar upp til atkvæða og voru þær samþykktar samhljóða.

Aðildargjöld (6)

Gjaldkeri lagði til að aðildargjöld yrðu óbreytt, 0 kr. og var það samþykkt einróma.

Klukkan 19:22 frestaði fundarstjóri fundi til kl. 10, laugardag 15. október 2016.

 

 

Laugardagur 15. október 2016 – fundi framhaldið

Fundarstjóri hóf fund að nýju kl. 10:10 og kynnti dagskrá (fskj. nr. 1). Fundarstjóri gerði tillögu um að taka umræður um ályktanir fyrir á meðan talið var í kosningum og var það samþykkt samhljóða. Fundarstjóri lagði til að Páll Hilmarsson, Dóra Guðrún Pálsdóttir og Ólafur Sindri Ólafsson yrðu talningarmenn á fundinum. Var það samþykkt samhljóða.

Albert Ingason, fulltrúi í kjörnefnd kvaddi sér hljóðs og sagði stuttlega frá starfi nefndarinnar. Hlutverk nefndarinnar er að óska eftir framboðum í trúnaðarstöður. Tölvupóstur var sendur út til aðildarfélaga og framboð bárust til allra embætta.

Fundarstjóri kynnti fyrirkomulag kosningar 7 stjórnarmanna. Stjórn lagði til eftirfarandi fyrirkomulag:

Merkja þarf við hvern og einn frambjóðanda sem fólk kýs með tölustöfum frá 1-7. Talan einn gefur flest stig. Ekki má merkja með X eða með öðrum táknum. Kjósa þarf 7 manns, hvorki fleiri né færri, annars er seðillinn ógildur.

Atkvæðin verða talin á eftirfarandi hátt:
Talan 1 gefur 7 stig
2 = 6 stig
          4 = 4 stig          6 = 2 stig
3 = 5 stig
          5 = 3 stig          7 = 1 stig

Fundarstjóri bauð umræður um tillöguna. Sigríður Jóhannsdóttir, Samtökum sykursjúkra, Guðmundur Skúli Johnsen, Félagi lesblindra, Ægir Lúðvíksson, MND félaginu, Arnar Helgi Lárusson, SEM samtökunum og Vilhjálmur Hjálmarsson, ADHD samtökunum, voru á móti fyrirkomulaginu vegna stigagjafarinnar. Bergur Þorri Benjamínsson, gjaldkeri ÖBÍ, Frímann Sigurnýasson, SÍBS, Garðar Sverrisson, MS félagi Íslands og Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður ÖBÍ, voru fylgjandi tillögunni. Ingveldur Jónsdóttir, formaður laganefndar, tók til máls og skýrði afstöðu laganefndar til atkvæðagreiðslu við stjórnarkjör, að aðferð sem notuð var árið 2014 hafi ekki verið nógu góð og því þurfti að finna aðra leið. Fleiri tóku ekki til máls.

Þá bar fundarstjóri tillöguna upp til atkvæða. Voru 43 með tillögunni og 40 á móti. Tillagan var því samþykkt.

Kosningar í stjórn

Fram fór nafnakall. Listi með nöfnum frambjóðenda og kynningar á þeim var sendur með fundargögnum 28. september 2016 (fskj. nr. 6). Voru 114 atkvæðabærir mættir til fundar.

Formaður (7)

Ekki var kosið um formann á aðalfundi 2016, skv. lögum ÖBÍ.

Varaformaður (8)

Í framboði til embættis varaformanns til tveggja ára, 2016-2018, var Halldór Sævar Guðbergsson, Blindrafélaginu (sjá fskj. nr. 8). Engin framboð voru úr sal og því var Halldór Sævar Guðbergsson sjálfkjörinn í embætti varaformanns 2016-2018. Halldór kom í ræðustól og þakkaði traustið. Hann sagðist líta svo á að verkefni og ábyrgð varaformanns snérust um innra starf ÖBÍ.

Gjaldkeri (9)

Í framboði var Bergur Þorri Benjamínsson, Sjálfsbjörg (sjá fskj. nr. 9). Engin framboð voru úr sal og Bergur Þorri því sjálfkjörinn í embætti gjaldkera 2016-2018. Bergur kom í ræðustól og þakkaði traustið.

Formenn fastra málefnahópa (10)

Formenn fastra málefnahópa skulu kosnir á oddatöluári, en vegna afsagna tveggja formanna málefnahópa var kosið um formennsku í þeim málefnahópum til eins árs.

Málefnahópur um atvinnu- og menntamál. Í framboði var Elín H. Hinriksdóttir, ADHD samtökunum (sjá fskj. nr. 10a ). Framboð Guðrúnar Sæmundsdóttur, ME félagi Íslands, barst eftir að framboðsfrestur rann út en fundurinn samþykkti samhljóða að leyfa framboð hennar (sjá fskj. nr. 10b). Því var kosið á milli Elínar og Guðrúnar um formennsku í málefnahópi um atvinnu- og menntamál. Greidd voru 114 atkvæði sem féllu þannig að Guðrún hlaut 68 og Elín 46 (fskj. nr. 17a). Guðrún Sæmundsdóttir var því réttkjörinn formaður málefnahóps um atvinnu- og menntamál 2016-2017.

Fundarstjóri óskaði leyfis fundarins að bæta fulltrúa aðildarfélags, sem mætti seint, á kjörskrá og var það samþykkt samhljóða. Voru þá 115 á kjörskrá.

Málefnahópur um heilbrigðismál. Emil Thóroddsen, Gigtarfélagi Íslands (sjá fskj. nr. 11a), og Vilhjálmur Hjálmarsson, ADHD samtökunum (sjá fskj. nr. 11b), voru í framboði. Greidd voru 115 atkvæði. Auðir seðlar voru tveir og ógildir fjórir. Emil hlaut 72 atkvæði og Vilhjálmur 37. (fskj. nr. 17b). Emil Thóroddsen var því réttkjörinn formaður málefnahóps um heilbrigðismál 2016-2017.

Stjórnarmenn (11)

Fundarstjóri kynnti kosningu sjö stjórnarmanna til tveggja ára sem lá fyrir fundinum og þá sem voru í framboði (sjá fskj. nr. 10a, 11b, nr. 12a-m). Tvö framboð bárust á fundinum, frá Karli Þorsteinssyni (sjá fskj. nr. 12n), Ás styrktarfélagi og Daníel Ómari Viggóssyni, CP félaginu (sjá fskj. nr. 12o). Fundurinn samþykkti framboð þeirra. Frambjóðendur kynntu sig.

Þá var gengið til kosninga sjö stjórnarmanna til tveggja ára setu. Var fyrirkomulag kosninganna útskýrt og kjörseðlum dreift. Greidd voru 115 atkvæði, þar af voru 4 ógild (fskj. nr. 17c).

Þessi hlutu kosningu til tveggja ára 2016-2018:

1.    Garðar Sverrisson, MS félagi Íslands, 389 stig

2.    Arnþrúður Karlsdóttir, Tourette-samtökunum, 288 stig

3.    Dóra Ingvadóttir, Gigtarfélaginu, 278 stig

4.    G. Torfi Áskelsson, Parkinsonsamtökunum, 254 stig

5.    Fríða Rún Þórðardóttir, Astma- og ofnæmisfélagi Íslands, 243 stig

6.    Einar Þór Jónsson, HIV – Íslandi, 239 stig

7.    Ægir Lúðvíksson, MND – félaginu á Íslandi, 204 stig

Fundarstjóri kynnti kosningu eins manns til stjórnarsetu til eins árs. Tvö framboð höfðu borist innan tilskilins frests, frá Aroni Guðmundssyni, MND – félaginu á Íslandi (sjá fskj. nr. 13) og Torfa Áskelssyni, Parkinsonsamtökunum (sjá fskj. nr. 12l). Fundarstjóri leitaði samþykkis fundarins fyrir framboðum eftirtalinna, sem gáfu kost á sér á fundinum: Daníel Ómar Viggósson, CP félaginu á Íslandi (sjá fskj. nr. 12o), Vilhjálmur Hjálmarsson, ADHD samtökunum (sjá fskj. nr. 11b), Þuríður Harpa Sigurðardóttir, Sjálfsbjörg og Sylviane Pétursson-Lecoultre, Geðhjálp (sjá fskj. nr. 12k). Voru þau samþykkt samhljóða. Frambjóðendur kynntu sig.

Þá var gengið til kosninga stjórnarmanns til eins árs. Var fyrirkomulag kosninganna útskýrt og kjörseðlum dreift. Greidd voru 115 atkvæði, þar af var einn seðill ógildur og einn seðill auður (fskj. nr. 17d ).

Þessi hlaut kosningu til eins árs 2016-2017:

1.    Aron Guðmundsson, MND – félaginu á Íslandi, 36 atkvæði

Varamenn í stjórn (12)

Fundarstjóri kynnti kosningu þriggja varamanna í stjórn. Þessi voru í framboði: Elín H. Hinriksdóttir, ADHD samtökunum (sjá fskj. nr. 10a), Ingveldur Jónsdóttir, MS félagi Íslands (sjá fskj. nr. 14a), Ómar Geir Bragason, Samtökum sykursjúkra (sjá fskj. nr. 12i), Sigurjón Einarsson, Fjólu (sjá fskj. nr. 14b), Snævar Ívarsson, Félagi lesblindra (sjá fskj. nr. 12j) og Vilhjálmur Hjálmarsson, ADHD samtökunum (sjá fskj. nr. 11b). Framboð bárust úr sal og samþykkti fundurinn þau samhljóða: Þuríður Harpa Sigurðardóttir, Sjálfsbjörg og Sylviane Lecoultre, Geðhjálp (sjá fskj. nr. 12k). Frambjóðendur kynntu sig.

Fundarstjóri kynnti fyrirkomulag kosninga, sem var það sama og í kjöri stjórnarmanna. Þá var kjörseðlum dreift. Greidd voru 106 atkvæði og voru tvö ógild (fskj. nr. 17e).

Þessi hlutu kosningu sem varamenn í stjórn:

1.    Ingveldur Jónsdóttir, MS félagi Íslands, 170 stig

2.    Sylviane Lecoutre, Geðhjálp, 106 stig

3.    Elín H. Hinriksdóttir ADHD samtökunum, 91 stig

Aðrar kosningar til tveggja ára

Samkvæmt lögum ÖBÍ skal kjósa í kjörnefnd, laganefnd og skoðunarmenn reikninga á oddatöluári. Þær kosningar fóru því ekki fram nú 2016.

Lagabreytingar, aðildarumsóknir, ályktanir, önnur mál

Lagabreytingar (16)

Teknar voru til afgreiðslu 12 tillögur til lagabreytinga sem borist höfðu laganefnd fyrir aðalfund og eitt bráðabirgðaákvæði. Ingveldur Jónsdóttir, formaður laganefndar, kynnti breytingartillögur laganefndar, sem sjá má í fylgiskjali nr. 16. Til þess að breyta lögum ÖBÍ þurfti tvo þriðju hluta atkvæða.

1.      Viðbót við 5. gr. Umsókn um aðild. Tillaga samþykkt samhljóða.

2.      Viðbót við 9. gr. Almennt ákvæði. Tillaga samþykkt samhljóða.

3.      Viðbót við 10. gr. Aðalfundarfulltrúar. Tillaga samþykkt samhljóða.

4.      Viðbót við 11. gr. Dagskrá aðalfundar. Tillaga samþykkt með þorra atkvæða. Einn sat hjá.

5.      Viðbót við 12. gr. Kjörgengi og atkvæðagreiðslur. Tillaga samþykkt með þorra atkvæða. Einn sat hjá.

6.      Viðbót við 13. gr. Framboð í trúnaðarstöður og hlutverk kjörnefndar. Tillaga samþykkt samhljóða.

7.      Innskot í 1. ml. 1. mgr. 14. gr. Lagabreytingar. Tillaga samþykkt með þorra atkvæða. Einn sat hjá.

8.      Innskot í 1. ml. 1. mgr. 15. gr. Ályktanir aðalfundar. Tillaga samþykkt með þorra atkvæða. Einn sat hjá.

9.      Viðbót við 18. gr. A. Kosning og hlutverk stjórnar. Tillaga samþykkt samhljóða.

10.   Viðbætur við 1. og 2. mgr. 23. gr. Málefnahópar. Tillaga samþykkt með þorra atkvæða. Fundarmaður óskaði eftir því að atkvæðagreiðsla yrði endurtekin. Orðið var við því og atkvæði talin. Tillaga samþykkt með 82 atkvæðum, níu voru á móti og þrír sátu hjá.

11.   Viðbót við 24. gr. Laganefnd. Tillaga samþykkt með þorra atkvæða. Einn sat hjá.

12.   Innskot í 3. ml. 26. gr. Reikningsár og ársreikningar. Tillaga samþykkt samhljóða.

13.   Nýtt bráðabirgðaákvæði. Ákvæði samþykkt með þorra atkvæða. Einn var á móti.

Þá bar fundarstjóri lög ÖBÍ upp til atkvæða, svo breytt. Voru þau samþykkt samhljóða.

Fundarmaður gerði athugasemd við fundarstjórn. Hann taldi fundarstjóra hafa farið heldur hratt í yfirferð breytingatillagna svo mönnum gafst ekki tími til að tjá sig. Því hann vildi koma ábendingu til laganefndar um að kosning varamanna í stjórn yrði á hverju ári.

Aðildarumsóknir (17)

Skylduliður á dagskrá skv. lögum ÖBÍ. Engar aðildarumsóknir höfðu borist.

Ályktanir aðalfundar (18)

Ályktanir bárust eftir að frestur rann út. Fundarstjóri bar undir fundinn að taka tillögurnar fyrir og var það samþykkt samhljóða (fskj. nr. 18a-g).

Ályktun aðalfundar ÖBÍ um notendastýrða, persónulega aðstoð (fskj. nr. 18a).

Fundarstjóri las upp ályktunina og bauð umræður um hana. Engar umræður voru. Fundarstjóri bar ályktunina upp til atkvæða.

Ályktunin var samþykkt svohljóðandi:

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 14.-15. október 2016, krefst þess að réttur fatlaðs fólks til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) verði lögfestur strax á haustþingi 2016.

Ályktun aðalfundar ÖBÍ um aðgengismál (fskj. nr. 18b).

Fundarstjóri las upp ályktunina og bauð umræður um hana. Engar umræður voru um. Fundarstjóri bar ályktunina upp til atkvæða. Var hún samþykkt með þorra atkvæða, einn sat hjá.

Ályktunin var samþykkt svohljóðandi:

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 14.-15. október 2016, hvetur stjórnvöld strax á haustþingi til að beita sér fyrir því að fjarlægja tálma sem hindra aðgengi í samfélaginu í víðum skilningi og hafi virkt eftirlit með því að þeir verði ekki settir upp aftur.

Standa þarf vörð um ákvæði byggingarreglugerðar um algilda hönnun og setja þarf á fót sérstakt aðgengiseftirlit með byggingum. Bæta þarf almenningssamgöngur og tryggja þarf að akstursþjónusta sé til staðar fyrir þá sem þurfa á henni að halda. Þá er brýnt að festa í lög kröfu um að allt útsent sjónvarpsefni sé textað. Bætt aðgengi fyrir suma er bætt aðgengi fyrir alla.

Ályktun aðalfundar ÖBÍ um atvinnu- og menntamál (fskj. nr. 18c).

Fundarstjóri las upp ályktunina og bauð umræður um hana. Guðrún Sæmundsdóttir, ME félagi Íslands, lagði fram breytingatillögu sem varðar nýsköpun. Rúnar Björn Herrera, SEM samtökunum, lagði til breytingu á breytingatillögunni. Ellen lagði til að segja fatlaðs fólks og örorkulífeyrisþega.

Ályktunin var samþykkt samhljóða svohljóðandi:

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ), haldinn 14.-15. október 2016, hvetur stjórnvöld til að:

   Auka atvinnutækifæri fatlaðs fólk og fólks með skerta starfsgetu þannig að hlutastörf við hæfi verði í boði.

   Innleiða hvatningakerfi fyrir fyrirtæki og stofnanir til að ráða starfsfólk með skerta starfsgetu.

   Stofna opinberan lánasjóð fyrir fatlað fólk og örorkulífeyrisþega til að fjármagna kostnað til atvinnuuppbyggingar sem gæti stuðlað að aukinni atvinnuþátttöku þeirra.

   Jafna tækifæri fatlaðs fólks til náms og tryggja að nemendur með sérþarfir fái þá lögbundnu þjónustu sem þeir eiga rétt á innan skólakerfisins.

   Auka námsframboð fyrir eldri nemendur með sérþarfir.

   Nýsköpunarumhverfi fatlaðs fólks og örorkulífeyrisþega þarfnast úrbóta til þess að þau eigi jafna möguleika til nýsköpunar og aðrir. Öryrkjabandalagið leggur til að opinberar stofnanir um nýsköpun bæti þjónustu sína og tryggi frumkvöðlum með skerðingar þjónustu fagfólks við áætlanagerð og styrkumsóknir.

Ályktun aðalfundar ÖBÍ um kjaramál (fskj. nr. 18d).

Fundarstjóri las upp ályktunina og bauð umræður um hana. Engar umræður voru. Fundarstjóri bar ályktunina upp til atkvæða. Var hún samþykkt með þorra atkvæða, einn sat hjá.

Ályktunin var samþykkt svohljóðandi:

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 14.-15. október 2016, skorar á alla þingmenn sem munu taka sæti á Alþingi að loknum alþingiskosningum 29. október nk. að bæta kjör örorkulífeyrisþega með því að hafa áhrif á fjárlagagerð ríkisins fyrir árið 2017 með eftirfarandi hætti:

     Hækka óskertan lífeyri almannatrygginga í 390.000 kr. fyrir skatt.

     Afnema krónu-á-móti-krónu skerðingu sérstakrar framfærsluuppbótar með því að fella hana inn í tekjutrygginguna.

     Draga verulega úr tekjuskerðingum í almannatryggingakerfinu, s.s. með lækkun skerðingarprósentu og hækkun frítekjumarka.

     Hækka skattleysismörk í 310.000 kr. á mánuði.

     Setja lög til að koma í veg fyrir að lífeyrissjóðir skerði greiðslur til örorkulífeyris­þega vegna greiðslna úr almannatryggingakerfinu.

Ályktun aðalfundar ÖBÍ um heilbrigðismál (fskj. nr. 18e).

Fundarstjóri las upp ályktunina og bauð umræður um hana. Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir, fráfarandi formaður málefnahópsins, kvaddi sér hljóðs og gerði grein fyrir starfi hópsins við samningu ályktunarinnar.

Bergur Þorri Benjamínsson gerði tillögu um að bæta við: Hjálpartæki eru til að mynda mjög dýr og reglur um kostnaðarþátttöku mjög óskýrar.

Fundarstjóri bar breytingatillöguna upp til atkvæða. Var hún samþykkt með þorra atkvæða. Sjö voru á móti og níu sátu hjá.

Ályktunin var samþykkt svohljóðandi:

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 14. – 15. október 2016, skorar á stjórnvöld að beita sér fyrir því að heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls.

Kostnaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu hefur aukist á undanförnum árum. Þrátt fyrir að í gildi sé greiðsluþátttökukerfi lyfja og að brátt taki gildi nýtt greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu er margvíslegur annar kostnaður sem sjúkratryggðir þurfa að greiða og er ekkert þak á því. Hjálpartæki eru til að mynda mjög dýr og reglur um kostnaðarþátttöku óskýrar. Sameina þarf þessi kerfi og stefna að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu, fyrir fyrir börn, langveika og örorkulífeyrisþega.

Ályktun um samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks. (fskj. nr. 18f).

Fundarstjóri las upp ályktunina og bauð umræður um hana. Hjörtur Heiðar Jónsson, Heyrnarhjálp, benti á að valfrjáls bókun hefur ekki verið fullgilt eða samþykkt. Hvatti hann til þess að hún yrði samþykkt sem allra fyrst. Bergur Þorri Benjamínsson, Sjálfsbjörg, sagði að Alþingi yrði að samþykkja bókunina ekki síðar en á árinu 2017. Ellen Calmon, formaður, sagði að eingöngu væri eftir stjórnsýsluleg framkvæmd þar sem að bókunin myndi taka gildi 1. janúar 2017. Rúnar Björn Herrera, SEM samtökunum, lagði áherslu á að nauðsynlegt væri að taka af vafa um það að bókunin yrði samþykkt. Svavar Kjarrval, Einhverfusamtökunum, samþykkti að fullgilda.

Breyting var gerð á orðalagi: og að valfrjáls bókun við samninginn skuli einnig fullgilt fyrir árslok 2017.

Ályktunin var samþykkt svohljóðandi:

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 14.-15. október 2016, fagnar nýlegri ákvörðun Alþingis um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) og að valfrjáls bókun um samninginn skuli einnig fullgilt fyrir árslok 2017.

Aðalfundurinn hvetur stjórnvöld til þess að tryggja enn betur réttindi fatlaðs fólks á Íslandi með lögfestingu samningsins og innleiðingu réttindanna sem í honum felast í íslensk lög sem allra fyrst. Stofnuð verði sérstök verkefnisstjórn til að fylgja málum eftir.

Ályktun aðalfundar ÖBÍ um almannatryggingakerfið (fskj. nr. 18g).

Fundarstjóri las upp ályktunina og bauð umræður um hana. Nokkrar athugasemdir komu varðandi orðalag.

Ályktunin var samþykkt svohljóðandi:

Í ljósi nýsamþykktra breytinga á almannatryggingakerfinu skorar aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 14.-15. október 2016, á nýja ríkisstjórn sem tekur til starfa eftir kosningar nú í október að draga úr tekjuskerðingum örorkulífeyrisþega, með því að fella sérstöku framfærsluuppbótina inn í tekjutryggingu frá og með 1. janúar 2017. Með lagabreytingunni, sem samþykkt var á Alþingi 13. október, var sú  leið valin að auka krónu á móti krónu skerðingar og jafnframt að auka muninn á milli greiðslna til þeirra sem fá greidda heimilisuppbót og hinna sem fá hana ekki.  Því er skorað á nýja ríkisstjórn að bæta kjör allra örorkulífeyrisþega.

Tillaga til aðalfundar ÖBÍ um aukinn stuðning við börn og fjölskyldur þeirra. (fskj. nr. 19). Tillagan barst eftir að frestur var liðinn. Fundarstjóri bar undir fundinn að taka tillöguna fyrir og var það samþykkt samhljóða. Vilhjálmur Hjálmarsson, ADHD samtökunum, mælti fyrir tillögunni, sem var svohljóðandi:

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 14.-15. október 2016 samþykkir að fela stjórn ÖBÍ að koma á fót leiðbeiningar- og ráðgjafarþjónustu vegna barna og fjölskyldna þeirra.

Í því skyni skal sérstaklega horft til réttinda barna og fjölskyldna og þjónustu og ráðgjafar, m.a. í samskiptum við menntakerfið og velferðarþjónustu á vegum sveitarfélaga.

Tillagan var lesin og umræður voru um hana. Bergur Þorri Benjamínsson, gjaldkeri ÖBÍ, vill skoða og fara varlega í sakirnar. Jón Páll Gestsson, Samtökum sykursjúkra, gerði athugasemd og taldi að með þessu væri farið inn á svið ríkis og sveitarfélaga. Þuríður Harpa Sigurðardóttir, Sjálfsbjörg, setti fyrirvara og vildi skoða betur. Rúnar Björn Herrera, SEM samtökunum, var sammála Þuríði og taldi það geta verið hættulegt fyrir hagsmunasamtök að fara í rekstur.

Bergur Þorri Benjamínsson, Sjálfsbjörg, lagði fram breytingatillögu á tillögunni. Bergur lagði til innskot „skoði möguleikann á því að”. Breytingatillagan var borin upp og samþykkt.

Tillagan var borin upp með áorðnum breytingum og samþykkt með þorra atkvæða,  sjö voru á móti og einn sat hjá.

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 14.-15. október 2016 samþykkir að fela stjórn ÖBÍ að skoða möguleikann á því að koma á fót leiðbeiningar- og ráðgjafarþjónustu vegna barna og fjölskyldna þeirra.

Í því skyni skal sérstaklega horft til réttinda barna og fjölskyldna og þjónustu og ráðgjafar, m.a. í samskiptum við menntakerfið og velferðarþjónustu á vegum sveitarfélaga.

Önnur mál (19)

Fundarstjóri opnaði mælendaskrá. Vilhjálmur Hjálmarsson, ADHD samtökunum, ræddi nýja kosningakerfið og spurði um rök fyrir framkvæmd kosninga.

Ásta Dís Guðjónsdóttir, Sjálfsbjörg, minnti á alþjóðlegan baráttudag gegn fátækt og lagði til að sú vika yrði nýtt til að minna á almannatryggingar og heilbrigði.

Sigþór Hallgrímsson, formaður Blindrafélagsins, minnti á alþjóðadag hvíta stafsins sem er 15. október. Sagði hann frá því að Blindrafélagið nýtti daginn til þess að vekja athygli á aðgengismálum með gulum þumli sem félagið lét útbúa. Hvatti hann fundargesti til að taka myndir af þumlinum og sýna aðgengi, þar sem þumallinn vísar upp eða niður, eftir því hvort aðgengi er gott eða slæmt.

Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður ÖBÍ, þakkaði traustið í embætti varaformanns. Sagðist Halldór finna mikla samstöðu í hópnum og grósku sem ætti eftir að leiða til góðra verka.

Bergur Þorri Benjamínsson, Sjálfsbjörg, þakkaði fyrir traustið í embætti gjaldkera. Vakti Bergur athygli á nýju lagafrumvarpi sem varðar kaup á bílum fyrir fatlað fólk.

Guðný Linda Óladóttir, Samtökum lungnasjúklinga, vakti athygli á alþjóðlega líffæragjafadeginum.

Fulltrúi SPOEX minnti á alþjóðadag psoriasis sem er 29. október en verður í ár haldinn 25. október á Grand hóteli.

Þórir Steingrímsson, formaður Heilaheilla, minnti á nýtt app fyrir snjallsíma, sem er bæði fræðsla um einkenni heilablæðingar og öryggistæki ef fólk fær heilablæðingu.

Emil Thóroddsen, Gigtarfélagi Íslands, þakkaði fyrir stuðninginn í embætti formanns málefnahóps um heilbrigðismál og kynnti opið hús á vegum Gigtarfélagsins.

Þá þökkuðu fundarstjórar fyrir sig og afhentu formanni fundinn.

Fundarlok

Formaður þakkaði góðan fund, þakkaði fundarstjórum og starfsfólki fyrir störf sín, þakkaði öllum sem buðu sig fram til trúnaðarstarfa, þakkaði laganefnd og formönnum málefnahópa.

Formaður sleit fundi kl. 16:53.

Fylgiskjöl:

1.    Dagskrá aðalfundar 14. og 15. október 2016

2.    Ársskýrsla ÖBÍ 2015-2016

3.    Ársreikningur ÖBÍ 2015

4.    Ársreikningar fyrirtækja

a)BRYNJA hússjóður Öryrkjabandalagsins

b)Örtækni

c)  Hringsjá

d)Fjölmennt

5.    Tillögur málefnahópa eftir stefnuþing ÖBÍ

a)Tillögur málefnahóps um aðgengi

b)Tillögur málefnahóps um atvinnu- og menntamál

c)  Tillögur málefnahóps um heilbrigðismál

d)Tillögur málefnahóps um kjaramál

e)Tillögur málefnahóps um sjálfstætt líf

6.    Listi yfir aðalfundarfulltrúa aðildarfélaga ÖBÍ

7.    Yfirlit yfir framboð til stjórnar ÖBÍ 2016

8.    Kynning frambjóðanda til varaformanns (1)

9.    Kynning frambjóðanda til gjaldkera (1)

10.  a) og b) Kynningar frambjóðenda til formanns málefnahóps um atvinnu- og menntamál (2)

11.  a) og b) Kynningar frambjóðenda til formanns málefnahóps um heilbrigðismál (2)

12.  a) til o) Kynningar frambjóðenda til stjórnar í 2 ár (15)

13.  Kynning frambjóðanda til stjórnar í 1 ár (1)

14.  a) og b) Kynningar varamanna (2)

15.  Lög Öryrkjabandalags Íslands samþykkt 13. nóvember 2014

16.  Lagabreytingatillögur laganefndar ÖBÍ

17.  a) til e) Niðurstöður talninga í atkvæðagreiðslu

18.  a) til g) Ályktanir Aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands 2016

19.  Tillaga um aukinn stuðning við börn og fjölskyldur þeirra