Skip to main content
Frétt

Aðgengi fyrir alla eða bara „venjulega Íslendinga“

By 5. mars 2012No Comments

Algild hönnun er nýtt hugtak í byggingarreglugerð sem gerir okkur kleift að hugsa út fyrir rammann, segir S. Hafdísi Runólfsdóttir, ferlimálafulltrúi ÖBÍ, í grein í Morgunblaðinu 3. mars sl.

Í Morgunblaðinu þann 24. febrúar síðastliðinn birtist grein eftir Gest Ólafsson þar sem hann fjallar um nýja byggingarreglugerð og áhrif hennar á hönnun og byggingu hagkvæmra íbúða fyrir venjulega Íslendinga. Í kjölfar greinarinnar velti ég fyrir mér hvernig hinn venjulegi Íslendingur sé.Sigriður Hafdís Runólfsdóttir

Hinn venjulegi Íslendingur getur birst okkur í hinum ýmsu myndum. Ríkur, fátækur, lítill eða stór, fatlaður eða ófatlaður og allt þar á milli og eru landsmenn yfirhöfuð allir Íslendingar? Eitt er víst að við búum í samfélagi mannlegs margbreytileika þar sem þarfir landsmanna eru afskaplega mismunandi. Sem betur fer erum við jafn misjöfn og við erum mörg.

Í nýrri byggingarreglugerð sem var undirrituð fyrir skemmstu er það markmið að tryggja aðgengi fyrir alla. Í því felst að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun á mannvirkjum á grundvelli fötlunar, skerðingar eða veikinda. Um leið er gert ráð fyrir að fatlað fólk geti komist inn og út úr mannvirkjum á öruggan hátt, líka þegar hætta steðjar að svo sem við eldsvoða.

Reglugerðin hefur verið gagnrýnd fyrir að koma í veg fyrir hönnun minni íbúða. Í nýrri reglugerð er hins vegar ákveðinn sveigjanleiki fyrir hendi sem gerir það að verkum að möguleiki er á því að hanna og byggja heldur smærri íbúðir en áður, þrátt fyrir að einstaka rýmum sé ætlað að vera stærri en áður.

Gott aðgengi kemur sér vel fyrir alla og er ein af lykilforsendum þess að allir geti tekið virkan þátt í samfélaginu.

Algild hönnun er nýtt hugtak í byggingarreglugerð sem gerir okkur kleift að hugsa út fyrir rammann og mæta mismunandi þörfum landsmanna. Með algildri hönnun er meðal annars tekið tillit til eftirtalinna hópa einstaklinga: Einstaklinga með lestrarörðugleika, þroskahamlanir, astma og/eða ofnæmi, heyrnarskertra, blindra og sjónskertra, göngu- og handskertra og hjólastólanotenda.

Fötlun setur vissulega mörgum skorður við að sinna sjálfsögðum þáttum daglegs lífs, svo sem við að sinna atvinnu, námi og félagslífi. Á árum áður var algengara að fatlað fólk byggi við vissa einangrun vegna sinnar fötlunar, sem stafaði oft af hindrunum í samfélaginu og erfiðleikum við að komast á milli staða. Umhverfið gerði hreinlega ekki ráð fyrir fötluðu fólki.

Sé miðað við sömu hlutföll og á Norðurlöndum má gera ráð fyrir að um 60.000 manns hér á landi eigi við einhvers konar fötlun að stríða, væga eða alvarlega. Öll getum við lent í því einhvern tímann yfir ævina að hlutir sem áður þóttu sjálfsagðir reynast okkur meiri hindrun en áður. Við veikjumst, slösumst kannski og öll eldumst við. Því er mikilvægt að tillit sé tekið til mismunandi hópa fötlunar og mannlegs margbreytileika þegar kemur að mannvirkjagerð.

Gott aðgengi kemur sér vel fyrir alla og er ein af lykilforsendum þess að allir geti tekið virkan þátt í samfélaginu, hvort sem um er að ræða fatlað fólk, ófatlað, fólk með barnavagna, þungaðar konur eða eldri borgara. Bætt aðgengi að mannvirkjum gerir það að verkum að líkamlegt ásigkomulag muni síður setja hömlur á daglegt líf og búsetu fólks. Það hlýtur því að vera þjóðhagslega hagkvæmt að manngert umhverfi sé aðgengilegt öllum þar sem það eykur líkur á virkni og sjálfstæði fólks.

Með því að lög um mannvirki og byggingarreglugerð tryggi aðgengi fyrir alla með algilda hönnun að leiðarljósi er tekið tillit til ólíkra hópa og mismunandi þarfa fólks í samfélaginu. Í fyrsta sinn er komið út plagg sem tryggir það að manngert umhverfi í samfélaginu okkar sé aðgengilegt öllum. Nýrri byggingarreglugerð ber að fagna þar sem hún boðar bætt aðgengi fyrir alla og verður það ekki metið til fjár.

S. Hafdís Runólfsdóttir, ferlimálafulltrúi Öryrkjabandalags Íslands.