Skip to main content
Frétt

Ætla stjórnvöld að standa við áðurgefin loforð?

By 30. nóvember 2011No Comments

er spurning sem formaður ÖBÍ, sendir m.a. í bréfi til allra alþingismanna. Sjá bréfið í heild;

 

Til alþingismanna

Reykjavík, 29. nóvember 2011

Ætla stjórnvöld að standa við áðurgefin loforð?

ÖBÍ krefst þess að ríkisstjórnin hverfi þegar í stað frá áformum sínum um enn frekari skerðingar á lífskjör öryrkja fjórða árið í röð. Áratuga löng réttindabarátta öryrkja hefur verið færð aftur um fjölda ára.

Í frumvarpi til fjárlaga árið 2012 er gert ráð fyrir að hækkun bóta almannatrygginga verði í samræmi við almenna hækkun kjarasamninga eða 3,5%. Sú krónutöluhækkun lægstu launa, sem kjarasamningar gera ráð fyrir, að fjárhæð 11.000 kr. er því ekki tryggð. Áætluð hækkun er einnig mun lægri en ákvæði 69. gr. almannatryggingalaga segir til um hvernig lífeyrisgreiðslur skulu breytast árlega.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar tengdri kjarasamningum frá 5. maí 2011 segir að stjórnvöld muni endurskoða bætur almannatrygginga með hliðsjón af niðurstöðum kjarasamninga milli ASÍ og SA. Hliðstæð hækkun til örorkulífeyrisþega og launþega á lægstu töxtum frá og með 1. febrúar nk. ætti að vera um 6,5%.

Minnt er á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en þar segir orðrétt:

„Mikilvægasta verkefni velferðarþjónustunnar og leiðarljós við forgangsröðun í núverandi aðstæðum er að vernda hag og stöðu barna og fjölskyldna þeirra, sem og þeirra sem lakast standa í samfélaginu.“

Þrátt fyrir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar munu eftirtaldir bótaflokkar ekki hækka ef fjárlögin verða samþykkt í óbreyttri mynd sem tilheyra lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð:

  • Mæðra- og feðralaun
  • Umönnunargreiðslur
  • Meðlagsgreiðslur
  • Barnalífeyrir
  • Barnalífeyrir vegna náms
  • Dagpeningar slysabóta
  • Dánarbætur vegna slysa
  • Uppbætur vegna reksturs bifreiða

Um raunskerðingu er að ræða sem kemur sérlega illa við fjölskyldufólk og fólk með lágar tekjur. ÖBÍ mótmælir þessum skerðingum harðlega og bendir á að umræddar greiðslur eru ætlaðar til að mæta kostnaði sem í mörgum tilvikum tengist börnum og fjölskyldum þeirra. Verði uppbót vegna reksturs bifreiða fryst 2012 mun það bitna sérstaklega hart á hreyfihömluðu fólki en samkvæmt upplýsingum FÍB  hefur rekstur bifreiða hækkað um 53%, frá janúar 2007 til apríl 2011, á meðan uppbótin hefur  einungis hækkað um 9%.

Þá er gert ráð fyrir að öll frítekjumörk verði fryst 2012, líkt og verið hefur frá 1. janúar 2009, sem þýðir enn meiri lækkun á ráðstöfunartekjum fjölda manns.

Þá hafa öryrkjar þurft að taka á sig miklar hækkanir á kostnaði við heilbrigðisþjónustu, lyf, hjálpartæki og þjálfun, vegna sinna veikinda, en ljóst er að þessi kostnaður er að sliga mörg heimili. Í rannsókn sem gerð var um fátækt og félagslegar aðstæður öryrkja árið 2010 kemur fram að meðal öryrkja eru fjölskyldur með börn á framfæri verst staddar fjárhagslega. Þá er almennt talið að öryrkjar þurfi að hafa 15-30% hærri tekjur til að framfleyta sér til að njóta sömu lífskjara og aðrir þar sem heilbrigðiskostnaður er hár og ýmis aðkeypt þjónusta.

Loforð standi. 

Öryrkjar urðu fyrstir fyrir skerðingum þegar bankahrunið varð með loforði um að þeir fengju fyrstir leiðréttingar sinna mála þegar fjárhagsstaða ríkissjóðs batnaði. Þá var talað um 3ja ára tímabil sem nú er liðið og horfur í efnahagsmálum eru sagðar jákvæðar.
Ætla stjórnvöld að standa við áðurgefin loforð?

Með kveðju,
Guðmundur Magnússon,
formaður ÖBÍ.

Frétt RÚV svar velferðarráðherra við gagnrýni ASÍ um loforð 

Frétt mbl.is um svar frosætisráðherra við gagnrýni ASÍ um loforð