Skip to main content
Frétt

Af hverju verður fólk öryrkjar?

By 3. janúar 2011No Comments
Kynning á niðurstöðum úr rannsókn sem Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum HÍ vann í samstarfi við Öryrkjabandalag Íslands.

Þann 17. desmber sl. var lokaráðstefna Evrópuársins 2010 gegn fátækt og félagslegri einangrun haldin. Þar voru kynnt mörg þeirra verkefna og rannsókna sem hefur verið ýtt úr vör á árinu. en fjöldi styrkja var veittur til baráttunnar. Þar á meðal var eftirfarandi rannsókn kynnt. Hér er stiklað á stóru úr þeirri kynningu. 

Rannveig Traustadóttir er ábyrgðamaður rannsóknarinnar en auk hennar eru eftirtaldir einstaklingar í rannsóknarhópnum: Kristín Björnsdóttir, sem er verkefnisstjóri, Eiríkur Smith, James Rice og Knútur Birgisson, sem öll starfa við Rannsóknasetur í fötlunarfræðum. Með þeim hefur starfað samstarfsnefnd á vegum ÖBÍ.

Rannsóknin

Markmið rannsóknarinnar er að afla þekkingar á efnahagslegum og félagslegum aðstæðum öryrkja og lögð áhersla á að fá fram þeirra eigin reynslu og sjónarmið.

Þátttakendur er fjölbreyttur hópur öryrkja hvað varðar aldur, skerðingu, fjölskylduaðstæður, búsetu, o.fl. Við höfum lagt sérstaka áherslu á að ná til fjölskyldufólks því við töldum ástæðu til að hafa sérstakar áhyggjur af afkomu öryrkja sem væru með börn á framfæri sínu.

Rannsóknaraðferðir voru: eigindlegar aðferðir; rýnihópar og einstaklingsviðtöl þar sem  fólk var beðið um að segja sögu sína. Einnig var gerðar þátttökuathuganir þar sem öryrkjar dvöldu. Gerð var greining á fjölmiðlaefni svo sem prentmiðlum, netheimum og bloggi. Loks öfluðu þau sér fyrirliggjandi tölfræðilegra upplýsinga, en mikið af tölulegum upplýsingum um öryrkja og fátækt liggur fyrir og því lögð áhersla á að nota þær upplýsingar sem þegar eru fyrir hendi.

Nokkrar lykilspurningar:

 • Hve margir eru öryrkjar?
 • Af hverju verður fólk öryrkjar?
 • Hvernig verður fólk öryrkjar?

Þessar lykilspurningar eru mikilvægar í upphafi. Fjölmiðlaumræða undanfarið kallar á að þeim sé svarað.

Af hverju verður fólk öryrkjar?

Rannveig vitnaði í heimasíðu TR varðandi upplýsingar um “Helstu orsök örorku eftir sjúkdómaflokkum” (75% örorka) árið 2009. Hlutfallið var þannig:

 • Geðraskanir 37,48% 
 • Stoðkerfissjúkdómar 27,85%
 • Sjúkdómar Í taugakerfi og skynfærum 9,5%
 • Áverkar 6,49
 • Sjúkdómar Í blóðrásarkerfi 5,30%
 • Meðfædd skerðing 2,36%
 • Aðrar orsakir eru lægra hlutfall

Fjöldi öryrkja eykst eftir miðjan aldur, einkum eftir 50 ára aldur – ekki síst vegna stoðkerfissjúkdóma og þar eru konur í miklum meirihluta. Stór hópur öryrkja er því útslitnar konur eftir tvöfaldan vinnudag; fyrstu vaktina í launavinnu utan heimilisins og seinni vaktina heima. Ef litið er á þessa helstu “sjúkdómaflokka” sem leiða til 75% örorku þá blasir við að það er vinnumarkaðurinn með miklu álagi sem “framleiðir” öryrkja. Afar fáir hafa meðfæddar skerðingar (aðeins um 2%). Þetta er aðalega fólk sem er slitið eða óvinnufært af álagi, sjúkdómum eða slysum. Það er því álag á vinnumarkaði sem meðal annars “skapar” stóran hluta öryrkja.

Hvað segir fólk um sínar aðstæður?

Aðstæður öryrkja eru þannig að fólk á erfitt með að mæta óvæntum útgjöldum, það hefur ekki getað lagt fyrir og ef bíllinn, þvottavélin eða ísskápurinn bilar eða önnur óvænt útgjöld koma upp þá hefur fólk ekkert aukalega til að takast á við eitthvað óvænt.

Í kreppunni hefur félagslegt tengslanet fólks orðið fyrir álagi, það eru ekki bara þeir sem eru á örorkubótum sem eiga erfitt með að lifa af, það eru margir fleiri sem eiga í efnahagserfiðleikum. Það var því áberandi að margir tilheyrðu félagslegu tengslaneti sem var undir miklu álagi og ekki voru sömu möguleikar og áður að fá aðstoð frá vinum og ættingjum. Það er mikilvægt að tilheyra félagslegu tengslaneti sem getur stutt mann ef maður lendir í vandræðum, það er mikill styrkur að vita af netinu, fólk bjargar sér oft frekar við slíkar aðstæður. En það þarf að vera gagnvirkni í tengslanetinu og mikilvægt að geta lagt sitt af mörkum í slíku neti. Ef fólk á t.d. ekki peninga fyrir afmælis- eða jólagjöfum, þá er erfitt að tilheyra slíku neti. Fólkið sem tók þátt í rannsókninni átti sumt ekki fyrir slíku og dró sig því út úr tengslanetinu og það jók á eða átti þátt í félagslega einangrun.

Hluti af þátttakendum í rannsókninni átti ekki fyrir mat síðasta hluta mánaðarins, þetta fólk svalt sumt, sumir fóru til hjálparstofnana til að þiggja matargjafir og aðra aðstoð. Aðrir gátu ekki hugsað sér að leita til hjálparstofnana. Sumir stóðu í biðröðinni eftir matarpoka með höfuðið ofan í bringu til að láta ekki sjá sig og svo þegar kom að þeim fór það að gráta og fór heim án þess að fá sig til að taka við matargjöfinni því það var svo niðurlægjandi að það gat þetta ekki. Við brjótum fólk niður með þessu fyrirkomulagi. Það er í raun ótrúlegt að ekkert hafi verið gert til að breyta þessu.

Á hverjum bitnar kreppan verst?

Í rannsókninni kom í ljós að kreppan bitnar verst á þeim hópi öryrkja sem býr við geðræna erfiðleika, hann stendur upp úr sem sá hópur sem á langerfiðast. Og ég minni á að þetta er stærsti hópur öryrkja eða næstum 40% af öllum öryrkjum. Mikilvægt er að muna að þessi hópur er afar fjölbreyttur en skerðing þeirra veldur því að flestir þola kreppuna verr en aðrir.  Fjárhagsáhyggjur, kvíði og streita auka á geðræna erfiðleika. Neikvæð umræða, reiði og vonleysi sem ríkir víða hefur líka sérstaklega slæm áhrif á þennan hóp. Og þetta er hópur sem oft ræður ekki við að standa upp og vinna í sínum málum, fara og sækja um aðstoð, kvarta eða sækja rétt sinn. Þá hafa ýmsar aðgerðir stjórnvalda komið sérlega illa við þennan hóp, meðal annars að niðurgreiða ekki geðlyf en margir eiga erfitt með að takast á við breytingar á lyfjum eða að sækja um lyfjakort.

Birtingarmyndir öryrkja í prentmiðlum

Loks fjallaði Rannveig  stuttlega um er birtingarmyndir öryrkja í prentmiðlum. Við greiningu komu eftirfarandi þrástef í ljós:
 • Öryrkinn sem byrði á heimabæ og samfélaginu í heild
 • Öryrkinn sem letingi sem nennir ekki að vinna og er þess vegna á bótum
 • Öryrkinn sem þiggjandi ölmusu, t.d. í biðröðum hjálparstofnana
 • Lúxusöryrkinn sem hefur það flott og lifir lúxuslífi á háum bótum
 • Örorkusvindlarinn sem svindlar sér inn á örorkubætur
 • Öryrkinn sem fórnarlamb kreppunnar og þeirra aðstæðna sem nú ríkja á landinu
 • Öryrkinn sem andófsmaður en öryrkinn birtist stundum sem helsti andófsmaður og mótmælandi niðurskurðar

Hér birtast fordómar og staðalmyndir sem eru langt frá daglegum raunveruleika öryrkja. Hinsvegar auka þessar birtingarmyndir og sú umfjöllun sem þeim fylgir mjög á niðurlægingu fólks og höfnunartilfinningu.

Lokaorð Rannveigar

Í stuttu máli er niðurstaða rannsóknarinnar sú að sem hópur búa öryrkjar við félagslegt og fjárhagslegt misrétti, niðurlægjandi aðstæður og höfnun af hálfu samfélagsins. Hið félagslega velferðarkerfi hér á landi virkar þannig að það heldur fólki föstu í erfiðri fjárhagslegri og félagslegri stöðu. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að það er óhagkvæmt og skaðlegt að halda fólk í fátækt, ekki síst fyrir þau börn sem alast upp við slíkt. Því ætti það að vera metnaður íslenska velferðarkerfisins að veita fólki sem fær örorkubætur stuðning og hvatningu til að styrkja stöðu sína og vinna sig út úr fátækt í stað þess að halda fólki föstu í fátæktragildru eins og nú er raunin.