Skip to main content
Frétt

Áfallatryggingasjóður og réttarstaða notenda

By 15. nóvember 2007No Comments
Að undanförnu hefur skapast nokkur umræða um hugmyndir Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA) um stofnun svo kallaðs Áfallatryggingasjóðs. Sjóðnum er meðal annars ætlað að taka yfir réttindi sem í dag er kveðið á um í lögum um almannatryggingar og Tryggingastofnun ríkisins sér um að framkvæma.

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) hefur lýst sig mótfallið þessum hugmyndum, samanbrer ályktun aðalfundar 6. október 2007. ÖBÍ hefur meðal annars áhyggjur af því að réttarstaða einstaklinga sem þurfa á aðstoð að halda vegna slyss eða sjúkdóma muni versna. Rétt er að taka fram að andstaða ÖBÍ beinist ekki að því hvaða aðili veitir þjónustuna heldur hvaða aðili tekur ákvörðun um rétt einstaklings til aðstoðar. Hafa fulltrúar ÖBÍ áhyggjur af því að réttarstaða þeirra sem í hlut eiga verði ekki nægilega tryggð meðal annars vegna þess að félagasamtök svo sem ASÍ, lífeyrissjóðir, einkahlutafélög, sjálfseignarstofnanir og fleiri lúta almennt ekki stjórnsýslulögum eða öðrum reglum stjórnsýsluréttar.

Hvers vegna hafa stjórnsýslulögin svo mikla þýðingu fyrir öryrkja og fólk með fötlun?

Mikilvægustu réttindi þeirra einstaklinga sem hér eiga í hlut eru oftar en ekki réttur þeirra til aðstoðar vegna stöðu viðkomandi einstaklings s.s. vegna sjúkleika, örorku og sambærilegra atvika, sem tryggð eru með 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Lög um almannatryggingar eru meðal þeirra laga sem sett hafa verið til að fullnægja þessu ákvæði stjórnarskrárinnar og samkvæmt þeim er það hlutverk stjórnvalda að taka ákvörðun um það í hverju tilviki fyrir sig hvort viðkomandi einstaklingur uppfyllir skilyrði laganna til að hljóta aðstoð. Við undirbúning og meðferð slíkrar ákvörðunar er stjórnvöldum skylt að fara að stjórnsýslulögum og öðrum reglum stjórnsýsluréttarins. Reglurnar eiga að leiða til þess að lögfræðilega rétt niðurstaða fáist í hverju máli jafnvel þó svo að einstaklingurinn hafi óljósar hugmyndir um rétt sinn og eigi jafnvel ekki frumkvæði að öllu því sem nauðsynlegt er að gera til að virkja réttindin. Þær reglur sem fram koma í stjórnsýslulögum eru sérstaklega mikilvægar þegar ákvörðun er matskennd, eins og til dæmis ákvörðun um þarfir einstaklings fyrir aðstoð vegna sjúkleika. Þá er í langflestum tilvikum hægt að kæra ákvarðanir stjórnvalda um réttindin til æðra stjórnvalds sem endurskoðar þá mál einstaklingsins í heild sinni.

Munu stjórnsýslureglur gilda um Áfallatryggingasjóð?

Áfallatryggingasjóður verður undir sameiginlegri stjórn vinnuveitenda og verkalýðshreyfingar með sambærilegum hætti og lífeyrissjóðirnir hafa verið. Þegar réttindi einstaklings til þjónustu eða stuðnings byggir á einkaréttarlegum grundvelli gilda stjórnsýslulögin og aðrar reglur stjórnsýsluréttarins almennt ekki. Í fréttum Ríkisútvarpsins 8. nóvember sl. er haft eftir framkvæmdastjóra ASÍ að lífeyrissjóðir starfi samkvæmt stjórnsýslulögum. Í fréttum var nýlega greint frá málshöfðun einstaklings á hendur lífeyrissjóðnum Gildi sem þingfest var í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir stuttu. Í undirbúningi þess máls var látið á það reyna hvort lífeyrissjóðum, sem ákváðu að skerða eða afnema að fullu lífeyrir örorkulífeyrisþega, væri skylt að fara að stjórnsýslulögum. Í kæru ÖBÍ til fjármálaráðherra, sem hefur eftirlit með framkvæmd laga sem gilda um lífeyrissjóði, var farið fram á ógildingu ákvörðunar vegna annmarka á málsmeðferð sjóðanna sem var ekki í samræmi við stjórnsýslulög. Fjármálaráðherra vísaði kæru ÖBÍ frá m.a. með þeim rökstuðningi að þó svo að fram kæmi í samþykktum lífeyrissjóða, að farið skyldi að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga í ágreiningsmálum sjóðsfélaga við sjóðinn, þá hefði slíkt ákvæði samt sem áður engin lagaleg áhrif á stöðu viðkomandi lífeyrissjóðs gagnvart stjórnsýslulögum heldur hefði sjóðurinn val um það hvort hann færi að reglunum eða ekki. Lífeyrissjóðurinn væri ekki stjórnvald og stjórnsýslulögin tækju ekki til starfsemi sjóðsins. Þeir fjölmörgu einstaklingar sem nú hafa fengið tilkynningu um afnám eða skerðingu örokulífeyris hafa því ekki annan valkost en að fara með málið fyrir dómstóla sem er bæði kostnaðarsamt og tímafrekt. Á meðan beðið er niðurstöðu dómstóla þurfa einstaklingarnir sem í hlut eiga að sætta sig við allt að 70 þúsund króna skerðingu örorkulífeyris á mánuði.

Ef hugmyndir um Áfallatryggingasjóð ná fram að ganga munu tilteknar ákvarðanir um mikilvæg réttindi einstaklinga færast af höndum stjórnvalda yfir til einkaaðila. Með því er hætt við að öll umgjörð réttindanna breytist. Jafnvel þótt rétturinn til aðstoðar, einn og sér, verði sá sami í nýju kerfi er veruleg hætta á því að erfiðara verði fyrir einstaklinga að virkja réttindi sín og réttarstaðan í heild sinni verði þannig lakari fyrir þá sem þurfa á aðstoð að halda.


Grein þessi birtist einnig í Morgunblaðinu í dag, 15. nóvember 2007 og höfundar eru Daniel Isebarn Ágústsson, hdl. og Hafdís Gísladóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ.