Skip to main content
Frétt

Afnám skerðinga vegna leigutekna – aðgerð til að efla leigumarkað

By 20. september 2013No Comments
Eftir Sigríði Hönnu Ingólfsdóttur: „Í því skyni er mikilvægt að minna á sérstöðu lífeyrisþega, sem gætu leigt út húsnæði, en núverandi regluverk heldur lífeyrisþegum frá því að leigja út íbúðarhúsnæði.“

Staða fólks á leigumarkaði hefur verið mikið til umræðu enda er hún oft mjög erfið. Mikill skortur er á leiguhúsnæði og leiguverð er hátt og hefur hækkað umtalsvert á meðan grunnfjárhæð húsaleigubóta stóð í stað frá apríl 2008 til janúar 2013. Ýmsar hugmyndir hafa komið upp til að efla leigumarkaðinn. Í því skyni er mikilvægt að minna á sérstöðu lífeyrisþega, sem gætu leigt út húsnæði, en núverandi regluverk heldur lífeyrisþegum frá því að leigja út íbúðarhúsnæði, sem reynst getur nauðsynlegt af ýmsum ástæðum, s.s. ef fólk hefur keypt íbúð en ekki náð að selja fyrri íbúð.

Sérstaða lífeyrisþega

Leigutekjur teljast til fjármagnstekna og er greiddur 20% fjármagnstekjuskattur af 70% leigutekna. Heildarupphæð leigutekna fyrir skatt telst hins vegar til tekna hjá Tryggingastofnun ríkisins (TR) og skerðir bætur almannatrygginga til lífeyrisþega (elli-, örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega). Frítekjumark vegna fjármagnstekna er 98.640 kr. á ári fyrir skatt. Því er ljóst að meginhluti leigutekna skerðir bætur almannatrygginga. Á sama tíma geta leigusalar ekki dregið frá kostnað vegna íbúðarinnar, s.s. afborganir lána, fasteignagjöld, hússjóð, viðhald og viðgerðir. Af þessum sökum er það mjög óhagstætt fyrir lífeyrisþega að leigja út íbúð. Mikilvægt er að hafa í huga að bætur almannatrygginga eru lágar ráðstöfunartekjur fólks.

Afnám skerðinga aðgerð til fjölgunar leiguíbúða á almennum markaði  

Í grein félags- og húsnæðismálaráðherra, Nýtt júlísamkomulag um öruggt húsnæði fyrir alla, frá 27. ágúst 2013 segir: „Reynslan kennir að markaðurinn tryggir ekki sjálfkrafa hæfilegt framboð leiguíbúða. Meira þarf en orð og vilja stjórnvalda, það þarf aðgerðir.“ Í þingsályktunartillögu þingmanna Samfylkingarinnar um eflingu leigumarkaðarins, sem lögð var fram á Alþingi 10. september 2013, er meðal annars lagt til að leigutekjur af einni leiguíbúð verði undanþegnar fjármagnstekjuskatti og að tryggja þurfi að tekjurnar skerði ekki bætur almannatrygginga.

Öryrkjabandalag Íslands hefur í viðræðum við þingmenn bent á hvernig leigutekjur skerða bætur almannatrygginga og greiðslur félagslegrar aðstoðar. Stjórnvöld hafa nú tækifæri til að slá tvær flugur í einu höggi, taka út eitt af mörgum skerðingarákvæðum almannatrygginga og gera lífeyrisþegum kleift að leigja út húsnæði án þess að bætur skerðist. Mikilvægt er að breytingin nái einnig til laga um félagslega aðstoð og að krónu á móti krónu skerðing leigutekna á sérstaka framfærsluuppbót verði afnumin á sama tíma.

Höfundur er félagsráðgjafi.


Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. september 2013