Skip to main content
Frétt

Ágæti ráðherra, gakktu nú vasklega til verks!

By 19. janúar 2015No Comments

Nú virðist svigrúm til hækkunar lífeyris almannatrygginga og leiðréttingar kjaragliðnunar ef marka má orð Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra.

Stjórnvöld hafa lýst því yfir að hagur ríkisins hafi vænkast og auk þess lofað að leiðrétta kjaragliðnun lífeyrisþega. Félags- og húsnæðismálaráðherra segir svigrúm vera til hækkunar launa en ríkið er einnig launagreiðandi og greiðandi lífeyris. 

Kjaragliðnun lífeyristekna

Lögum samkvæmt á lífeyrir almannatrygginga að breytast árlega í takt við launaþróun en þó þannig að hann hækki ekki minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Ef farið hefði verið að lögum hefði lífeyrir hækkað um 19,6% í byrjun árs 2009 í stað 9,6%. Í fjárlögum fyrir árin 2010 og 2011 voru örorkubætur almannatrygginga frystar. Hækkun í júní 2011 í kjölfar kjarasamninga náði enga veginn að vega upp á móti kjaragliðnun fyrri ára. Reyndin er sú að hækkun lífeyris almannatrygginga hefur hvorki náð að halda í við hækkun neyslu- né launavísitölu á tímabillinu.

Í skýrslu Talnakönnunar fyrir ÖBÍ kemur meðal annars fram að meðalheildartekjur öryrkja, það er meðaltekjur þeirra hækkuðu aðeins um 4,7% frá 2009 til janúar 2013 á sama tíma og verðbólga var rúm 20% og launavísitala 23,5%. Kaupmáttarskerðingin er mikil.

Loforð stjórnarflokkanna

Í svari Framsóknarflokksins fyrir síðustu alþingiskosningar segir að brýnasta verkefnið í málefnum aldraðra og öryrkja verði að hækka lífeyriþeirra vegna kjaraskerðinga þeirra og kjaragliðnunar á krepputíma.

Formaður Sjálfstæðisflokksins skrifar í grein í Morgunblaðinu þann 9.4.2013, að hætt verði skerðingum vegna greiðslna ellilífeyri, krónu á móti krónu og hann leiðréttur til samræmis við þær hækkanir sem hafa orðið á lægstu launum síðan í ársbyrjun 2009.

Frá 2008 til 2013 hækkaði hámarkslífeyrir TR til einstaklings, með engar eða lágar aðrar tekjur um 29% á meðan lágmarkslaun hækkuðu um 54,3%. Sömu greiðslur og nær sömu skerðingarákvæði gilda um elli- og örorkulífeyrisþega og því er ljóst að leiðréttingar kjaragliðnunar þessar tveggja hópa verður að fara saman.

Lífeyrisþegar hafa ekki enn fengið kjaragliðnunina leiðrétta.

Alþjóðasamningar og kjör lífeyrisþega.

Ellen J Calmon formaður ÖBÍ

Minna ber á að Ísland er aðili að alþjóða mannréttindasamningum sem viðurkenna rétt sérhvers manns til viðunandi  lífsafkomu fyrir hann sjálfan og fjölskyldu hans og til sífellt batnandi lífsskilyrða. [1]

Rannsóknarniðurstöður staðfesta að fjárhagsaðstæður fjölda öryrkja eru mjög erfiðar. Staðan þeirra hefur síður en svo batnað í síðustu ár. Hámarksgreiðslur TR til öryrkja eru 172.516 kr. á mánuði eftir skatt. Það gefur augaleið að ekki er hægt að framfleyta sér á þessum tekjum og þá sérstaklega ekki til lengri tíma.

Í fyrstu drögum fjárlaga til ársins 2015 var hækkun á örorkulífeyri áætluð 3,5% en við endurskoðun taldi ríkisstjórnin ekki innistæðu fyrir nema 3% hækkun. Nú er allt annað hljóð komið í strokkinn og innistæða fyrir ríflegri launahækkun á markaði.

Það má endurskoða fjárlög og það er tækifæri til að gera betur.

Ágæti ráðherra, gakktu nú vasklega til verks og hækkaðu örorkulífeyrinn þannig hann verði mannsæmandi og í raunverulegum takti við laun í landinu.

Ellen Calmon, formaður ÖBÍ.


[1]  11. gr. Samnings SÞ um efnahagsleg, menningarleg og félagsleg réttindi, 28. gr. Samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, 12 og 13. gr. Félagsmálasáttamáli Evrópu.