Skip to main content
Frétt

Algild hönnun í nýrri byggingarreglugerð

By 25. janúar 2012No Comments
Um heildarendurskoðun byggingarreglugerðar, í kjölfar nýrra mannvirkjalaga 2010, er að ræða .

Umhverfisráðherra hefur undirritað byggingarreglugerðina og má þar meðal annars finna kafla um algilda hönnun.  ÖBÍ lagði mikla áherslu á að tekið yrði tillit til algildrar hönnunar við endurskoðun reglugerðarinnar. Í umsögn ÖBÍ um reglugerðardrögin var einnig lögð áhersla á mikilvægi virks eftirlits með aðgengismálum í byggingarferlinu og að gerðar yrðu úttektir á aðgengismálum áður en að mannvirki er tekið til notkunar. Einnig að ekki verði veittar neinar undanþágur þar á.

Algild hönnun

Í frétt umhverfisráðuneytisins af reglugerðinni segir meðal annars um algilda hönnun.

„Hugtakið algild hönnun lýsir nýrri hugmyndafræði við hönnun mannvirkja sem gerir ráð fyrir að þau séu þannig úr garði gerð að þau henti öllum.  Þetta rímar við áherslur í lögum um mannvirki en í þeim er gerð sú krafa að fólk sem eigi við fötlun eða veikindi að stríða geti með öruggum hætti komist inn og út úr húsum, jafnvel við óvenjulegar aðstæður, svo sem í bruna. Þá á við hönnun að hafa í huga mismunandi þarfir og getu fólks með tilliti til sjónar og heyrnar. Þannig sé gætt að efnisvali og útfærslum sem og hljóðvist og birtuskilyrðum innan- og utanhúss.

Áætlað er að minnst tíu prósent íbúa landsins búi við hreyfihamlanir eða annars konar fötlun. Til viðbótar koma þeir sem hafa skerta hreyfigetu vegna aldurs og tímabundinna aðstæðna, t.d. vegna slysa, þungunar og vegna þess að þeir eru með börn í kerrum og barnavögnum. Eldri borgarar glíma margir hverjir við ýmiskonar hamlanir, svo sem slæma sjón, skerta heyrn og gigt en þessi ört stækkandi hópur er engu að síður oft við tiltölulega góða heilsu og vel ferðafær. Sérstök áhersla er á að tekið sé tillit til allra þessara þjóðfélagshópa við hönnun mannvirkja í nýrri byggingarreglugerð. Þetta mun einnig hafa í för með sér að fólk mun geta búið lengur í húsum sínum, hafi það hug á því.“

Frétt ráðuneytisins í heild.