Skip to main content
Frétt

Allir lífeyrissjóðirnir 14 falla frá áður boðuðum aðgerðum.

By 17. janúar 2007No Comments
Í gær ákváðu 8 lífeyrissjóðir að hætta við boðaðar aðgerðir gegn öryrkjum þann 1. febrúar næstkomandi.

Í sameiginlegri yfirlýsingu þeirra segir að tekjuathugun nú verði í samræmi við fyrri reglur og að ekki verði að fullu tekið tillit til tekna frá Tryggingastofnun ríkisins. Þetta þýðir að örorkulífeyrir verður ekki skertur 1. febrúar eins og rætt hefur verið um.

Sjóðirnir eru Festa lífeyrissjóður (áður Lífeyrissjóður Vesturlands og Lífeyrissjóður Suðurlands), Lífeyrissjóður Austurlands, Lífeyrissjóður Bænda, Lífeyrissjóður Norðurlands, Lífeyrissjóður Rangæinga, Lífeyrissjóður Vestfirðinga, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og Stafir lífeyrissjóður.

Áður höfðu lífeyrissjóðirnir Gildi, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda og Sameinaði lífeyrissjóðurinn ákveðið að hverfa frá aðgerðum vegna tekna lífeyrisþega árið 2005. Það er því ljóst að um tvennskonar afgreiðslur sjóðanna er að ræða og veldur það ÖBÍ vonbrigðum að ekki sé samræmi í ákvörðunum þeirra.

Þá hafa stjórnir þriggja síðasttöldu sjóðanna samþykkt að leggja fram á ársfundum sínum þá breytingu að viðmiðunartekjur vegna örorkulífeyris taki eftirleiðis breytingum í samræmi við launavísitölu í stað vísitölu neysluverðs og verði þannig bornar saman við tekjur ársins 2006. Væntanlega minnkar það mjög hugsanlegar skerðingar hjá stórum hluta örorkulífeyrisþega.

Eftir stendur vafinn um réttmæti þess að greiðslur almannatrygginga frá TR komi til viðmiðunar við útreikninga lífeyrissjóðanna á tekjum fyrir og eftir orkutap. ÖBÍ hefur haldið því fram að það standist ekki og kann að láta á það reyna fyrir dómstólum náist ekki viðunandi niðurstaða í samningaviðræðum.