Skip to main content
Frétt

Alvarleg atlaga að almannatryggingakerfinu

By 3. október 2007No Comments
Sigursteinn Másson, formaður ÖBÍ, sat í gær sameiginlegan fund réttindanefndar og lífeyrisnefndar BSRB til að fjalla um hugmyndir sem fram hafa komið af hálfu ASÍ og SA um svokallaðan áfallatryggingasjóð og nýtt endurhæfingarkerfi fyrir öryrkja. Varaði hann við að ef hugmyndir ASÍ og SA næðu fram að ganga væri það alvarlegasta atlaga að almannatryggingakerfinu á Íslandi frá því það var sett á laggirnar 1936.
 

Sigursteinn benti á að um væri að ræða nýtt framfærslukerfi til hliðar við almannatryggingakerfið og varaði við því að ef þessar hugmyndir yrðu að veruleika yrði við lýði í landinu kerfi mismununar. Annars vegar væru þeir sem tengdust þeim hluta vinnumarkaðarins sem aðild ættu að þessu fyrirkomulagi og síðan hinir sem þar stæðu fyrir utan. Lagði Sigursteinn áherslu á að stefnt yrði í gagnstæða átt, það er að stórefla almannatryggingakerfið og einfalda það til muna.