Skip to main content
Frétt

Ályktun aðalfundar ÖBÍ um endurskoðun laga um almannatryggingar

By 8. nóvember 2012No Comments

Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands, 20. október og

framhaldsaðalfundar 7. nóvember 2012, um endurskoðun laga um almannatryggingar

Ályktun

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands skorar á stjórnvöld að taka til gagngerrar endurskoðunar alla hugmyndafræði og vinnuferla við undirbúning að breytingum á lögum um almannatryggingar. Virðum rétt allra til mannsæmandi lífeyris og hverfum frá þeim innbyggðu fátæktargildrum sem eru í núverandi kerfi. Tryggjum fólki mannsæmandi lífeyri.


Greinargerð

Við endurskoðun almannatryggingalaga er nauðsynlegt að hún sé gerð á forsendum öryrkja til betra lífs en ekki á forsendum kerfisins. Eftirtalin atriði eru mikilvæg í þessu sambandi.

  1. Breyta þarf starfsháttum velferðarráðuneytisins við endurskoðun almannatrygg-ingalaga. Til að endurskoðunin geti farið fram þarf að gera sér grein fyrir hverjir séu vankantar kerfisins í dag og helstu kostir þess. Þá þarf að finna leiðir til þess að bæta kerfið til hagsbóta fyrir öryrkja. Þegar það liggur ljóst fyrir er hægt að ræða hversu miklu fjármagni verði varið til að bæta kerfið og mismunandi útfærslur á því.
  2. Mikilvægt er að koma með tillögur að úrbótum sem sátt er um. Sátt næst ekki með atkvæðagreiðslu þar sem hagsmunasamtök eru í minnihluta í nefndinni og geta því ekki með þeim hætti haft afgerandi áhrif á niðurstöðuna.
  3. Brýnast er að draga úr tekjutengingum, hækka frítekjumörk og tekjuviðmið til að koma í veg fyrir að fólk festist í viðjum fátæktar. Miklar tekjutengingar draga úr sjálfsbjargarviðleitni fólks til að lifa sjálfstæðu lífi, stunda vinnu, eiga varasjóð og stofna fjölskyldu.
  4. Afnema þarf strax bótaflokkinn lágmarksframfærslutryggingu og sameina hann grunnlífeyri sem hefur lækkað að raungildi undanfarin ár.
  5.  Áhersla verði lögð á réttindakerfi þar sem fólk getur lifað með reisn en ekki
    ölmusukerfi þar sem fólk þarf að lifa á lágmarksbótum.
  6. Mikilvægt er að við endurskoðun laganna verði stuðningur til lífeyrisþega vegna kostnaðar við heilbrigðisþjónustu, lyf og hjálpartæki (stoðtæki) aðgreindur og aðskilinn frá framfærslu.

Ekkert um okkur án okkar!