Skip to main content
Frétt

Ályktun aðalfundar ÖBÍ um kjaramál

By 8. nóvember 2012No Comments

Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands, 20. október og framhaldsaðalfundar 7. nóvember 2012, um kjaramál

Ályktun

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands krefst þess að stjórnvöld dragi til baka þær skerðingar sem gerðar voru á kjörum öryrkja í kjölfar efnahagshrunsins.


Greinargerð

Stjórnvöld hafa skert kjör lífeyrisþega frá því að kreppan hófst, kjör sem voru ekki viðunandi fyrir þann tíma. Bætur almannatrygginga hafa ekki hækkað í samræmi við 69. grein laga um almannatryggingar frá 1. janúar 2009 þar sem lögin hafa verið tekin úr sambandi með fjárlögum fjögur ár í röð, lög sem sett voru til að vernda lífeyrisþega frá aðstæðum eins og skapast hafa í kreppunni. Með því að fylgja ekki þessu lagaákvæði hafa bæturnar rýrnað að verðgildi á sama tíma og greiðsluþátttaka í heilbrigðiskerfinu hefur stóraukist. Minna má á að í 28. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks viðurkenna aðildarríkin rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara og til sífellt batnandi lífsskilyrða.

Lífeyrisþegar urðu fyrir enn meiri skerðingum þegar tekjutengingar jukust umtalsvert um mitt ár 2009 sem skertu kjör lífeyrisþega til muna og hafa þær ekki verið dregnar til baka þrátt fyrir ítrekuð mótmæli Öryrkjabandalagsins og fleiri hagsmunaaðila. Miklar tekjutengingar gera fólki ókleift að bæta fjárhagslega stöðu sína og halda fólki í fátæktargildru.

Öryrkjar urðu fyrstir fyrir skerðingum þegar bankahrunið varð með sérstöku loforði um að þeir fengju fyrstir leiðréttingar sinna mála þegar fjárhagsstaða ríkissjóðs batnaði. Þá var talað um 3ja ára tímabil sem er liðið. Ekkert bólar á leiðréttingum í þeim efnum af hálfu stjórnvalda þrátt fyrir yfirlýsingar um að hagur ríkisins sé að vænkast og leiðréttingar á kjörum annarra hópa hafa þegar komið til framkvæmda eins og hjá þingmönnum, ráðherrum og öðrum þeim sem heyra undir kjararáð.

Við gerð kjarasamninga 2011 var því lofað að lífeyrisþegar fengju sömu hækkun og lægstu laun. Þetta var gert með eingreiðslu og síðan 8,1% hækkun á örorkulífeyris-greiðslum, en um síðustu áramót var aðeins hækkað sem svaraði almennri launa-hækkun, meðan lægstu laun hækkuðu meira í formi ákveðinnar krónutölu. Um næstu áramót er útlit fyrir að bætur hækki minna en lægstu laun á vinnumarkaði.

ÖBÍ krefst þess að stjórnvöld skili öryrkjum sem fyrst því sem þeim ber og að örorkubætur hækki 1. janúar 2013 að lágmarki til samræmis við lög um almanna-tryggingar enda eiga stjórnvöld að forgangsraða í þágu þeirra sem þurfa að treysta á velferðarkerfið.

Ekkert um okkur án okkar!