Skip to main content
Frétt

Ályktun aðalfundar ÖBÍ um samning SÞ

By 8. nóvember 2012No Comments

Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands, 20. október og framhaldsaðalfundar 7. nóvember 2012, um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

 

Ályktun

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands skorar á Alþingi að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks nú þegar.


Greinargerð

Mikilvægt er að stjórnvöld taki alvarlega skuldbindingar sínar á grundvelli alþjóðlegra samninga. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks ásamt valfrjálsri bókun var undirritaður fyrir hönd íslenska ríkisins 30. mars 2007. Samningurinn er sérstakur að því leyti að hann var saminn í miklu samráði við grasrótina en það hefur ekki verið reyndin með aðra mannréttindasáttmála. Gerir ÖBÍ ráð fyrir að íslensk stjórnvöld viðhaldi þessari sérstöðu við innleiðingu og eftirlit samningsins.

Öryrkjabandalag Íslands leggur áherslu á að endurskoða verði þýðingu samningsins strax, þar sem hann var þýddur inn í samfélag gærdagsins sem ekki tekur tillit til nýrrar hugmyndafræði í samfélagi framtíðarinnar.

Ánægjulegt er að áhrifa samningsins gætir nú þegar og kemur það fram í nýlegri löggjöf sem bætt hefur  réttarstöðu fatlaðs fólks. Má í því sambandi benda á lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk nr. 88/2011, framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014 og að síðustu lög um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis og lögum um kosningar til sveitarstjórnar (aðstoð við kosningu) sem samþykkt voru á Alþingi 11. október síðastliðinn. Hins vegar verður að löggilda samninginn til hann hafi tilætluð áhrif og tryggi rétt fatlaðs fólks á öllum sviðum samfélagsins.

Öryrkjabandalag Íslands skorar á stjórnvöld að hefja nú þegar vinnu við innleiðingu samningsins og að leggja fram frumvarp til laga um lögfestingu hans á vorþingi.

Ekkert um okkur án okkar!