Skip to main content
Frétt

Ályktun aðalstjórnar ÖBÍ 22. júní 2010

By 24. júní 2010No Comments
Yfirfærsla á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitafélaga

Samkvæmt viljayfirlýsingu milli ríkisins og Sambands ísl. sveitarfélaga sem undirrituð var þann 13. mars 2009 er áætlað að færa þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga þann 1. janúar 2011. Um er að ræða alla þá þjónustu sem og lagalega ábyrgð sem Svæðisskrifstofur málefna fatlaðra hafa sinnt fram til þessa.
Öryrkjabandalag Íslands telur að til að yfirfærslan geti farið fram svo sómi sé að verði eftirfarandi skilyrðum að vera fullnægt:

1. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hafi verið fullgiltur og gerðar þær breytingar á lögum sem nefnd um fullgildinguna hefur lagt til

2. Lög um málefni fatlaðra nr. 59/1992 verði þar með endurskoðuð og heiti laganna breytt í „lög um réttindi fatlaðs fólks“

3. Sett verði lög er banna mismunun á grundvelli fötlunar, annað hvort sem sérlög eða slík ákvæði felld inn í lög um réttindi fatlaðs fólks

4. Tryggt lagaumhverfi verði sett um Notendastýrða persónulega aðstoð – NPA, eins og kveðið er á um í þingsályktun er samþykkt var 8. júní 2010, Þskj. 641  —  354. mál.

5. Öryrkjabandalag Íslands gerir kröfu um að félags- og tryggingamálaráðuneytið taki ákvörðun sína til endurskoðunar að nota SIS matskerfið á alla hópa fatlaðs fólks óháð fötlun og skerðingu. Það gerir kröfu um að við mat á þörfum þeirra verði hugað að aðferðum sem byggja á hugmyndafræði SSL (Samtök um sjálfstætt líf) og félagslegri sýn þar sem litið er á samfélagsþátttöku einstaklingsins í samhengi við hindranir í umhverfinu en ekki við skerðingu einstaklingsins. Slíkt verður að gera eins og segir í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í fullri samvinnu við hagsmunasamtök fatlaðra.

Einnig verður að kanna betur þarfir fatlaðs fólks sem fær þjónustu samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 og tryggja að sá hópur fái þann stuðning sem uppfyllir þarfir hans.

Öryrkjabandalagið væntir góðrar samvinnu við sveitarfélögin við eflingu þjónustunnar og treystir því að þau nýti sér þá þekkingu á aðstæðum og þörfum fatlaðra sem ÖBÍ býr yfir og hafi náið samráð við samtök fatlaðra um þróun þeirra víðtæku þjónustuverkefna sem sveitarfélögin munu bera ábyrgð á gagnvart fötluðum.

Reykjavík 22.06.2010

Aðalstjórn ÖBÍ