Skip to main content
Frétt

Ályktun NPA miðstöðvar 

By 18. desember 2014No Comments

varðandi notendastýrða persónulega aðstoð (NPA)

NPA miðstöðin hefur sent frá sér ályktun varðandi þá ákvörðun ráðherra að fresta að leggja fram fumvarp til laga um að lögfesta NPA. Í ákvæði til bráðabirgða IV í lögum nr. 59/1952 um málefni fatlaðs fólks stendur að eigi síðar en í árslok 2014 eigi að leggja fram frumvarp til lögfestingar NPA. NPA er mikil nýbreyttni miðað við það sem áður var í aðstoð við fatlað fólk og eykur samfélagsþátttöku þess. Því er afar mikilvægt að frumvarp til laga verði lagt fram sem allra fyrst og NPA verði lögfest. Öryrkjabandalag Íslands styður ályktun NPA miðstöðvarinnar eindregið.

Ályktun 

NPA miðstöðin svf harmar að ekki verði lagt fram á Alþingi frumvarp til laga fyrir árslok 2014, sem lögfesti að boðið verði upp á notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) fyrir fatlað fólk í öllum sveitarfélögum eða þjónustusvæðum sveitarfélaga, eins og fyrirhugað var skv. 5. mgr., í IV. ákvæði til bráðabirgða, í lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Í þess stað er ætlunin að framlengja núverandi samstarfsverkefni um tvö ár. Notendastýrð persónuleg aðstoð er stærsta nýjungin og byltingin í þjónustu við fatlað fólk, sem unnið er að og er algjört skilyrði fyrir því að á Íslandi sé unnt að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þannig er notendastýrð persónuleg aðstoð nauðsynlegur grundvöllur mannréttinda og borgaralegra réttinda fatlaðs fólks. 

NPA þjónustan er mikil nýbreytni í þjónustu við fatlað fólk hvað varðar allt fyrirkomulag og stjórnsýslu. Er mikil áskorun fyrir ríki og sveitarfélög að takast á við, þar sem þetta þjónustufyrirkomulag flytur völd og störf frá hinu opinbera til fatlaðs fólks, sjálfs borgarans. NPA miðstöðin telur því eðlilegt að leggja þurfi aukna vinnu og fjármagn í undirbúning og gerir kröfur um að Velferðarráðuneytið og sveitarfélög vinni að krafti að innleiðingu á notendastýrðri persónulegri aðstoð í samráði og samstarfi við fatlað fólk, sem hana mun nota. 

Ályktun þessi var samþykkt samhljóða á stjórnarfundi NPA miðstöðvarinnar svf á alþjóðadegi fatlaðs fólks þann 3. desember 2014 og er send Velferðarráðuneytinu, Alþingismönnum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fleiri aðilum. 

f.h. NPA miðstöðvarinnar svf – www.npa.is 

Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, formaður stjórnar 

Hér er frétt á vef Velferðarráðuneytisins frá 22. október 2014 um að samstarfsverkefni um NPA verði framlengt: 

http://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/34895 

Hér er frumvarpið á vef Alþingis um framlengingu samstarfsverkefnis um NPA (II. kafli frumvarps): 

http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=144&mnr=454 NPA miðstöðin svf 

Síða 2 af 2 

Hér er ákvæðið til bráðabirgða í lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks í heild sinni: 

IV. Sérstöku samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðs fólks skal komið á um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. Markmið verkefnisins er að þróa leiðir til að taka upp notendastýrða persónulega aðstoð við fatlað fólk með markvissum og árangursríkum hætti. Miða skal við að þjónustan verði skipulögð á forsendum notandans og undir verkstjórn hans um leið og hún verði sem heildstæðust milli ólíkra þjónustukerfa. 

Ráðherra skal skipa sjö manna verkefnisstjórn til að leiða samstarfsverkefnið um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalagið skulu tilnefna sinn fulltrúann hvor og Samband íslenskra sveitarfélaga þrjá. Ráðherra skipar tvo fulltrúa án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður. Varamenn í verkefnisstjórn skulu vera jafnmargir aðalmönnum og skipaðir með sama hætti. 

Hlutverk verkefnisstjórnar er að móta ramma um fyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar við fatlað fólk. Í því skyni munu sveitarfélög í samráði við verkefnisstjórnina leitast við að bjóða fötluðu fólki notendastýrða persónulega þjónustu til reynslu í tiltekinn tíma. Við mat á því hverjum eða hvaða hópi fatlaðs fólks skuli boðin slík þjónusta skal gæta jafnræðis. 

Sveitarfélögum er heimilt að verðmeta einstaka þjónustuþætti í gjaldskrá. Sveitarfélög skulu síðan gera notendasamninga um notendastýrða persónulega aðstoð við hvern notanda eða aðila sem kemur fram fyrir hönd hans þar sem fram kemur hvaða þjónustu hlutaðeigandi þarf á að halda í daglegu lífi og verðmat þjónustunnar. Sveitarfélögum er heimilt að ráðstafa þeim fjármunum sem svara til kostnaðar vegna þjónustu hvers notanda sem veitt er á grundvelli notendasamnings um notendastýrða persónulega þjónustu til notandans með þeim hætti sem ákveðið er í notendasamningnum. 

Faglegt og fjárhagslegt mat á samstarfsverkefninu skal fara fram fyrir árslok 2014 en þá skal verkefninu formlega vera lokið. Enn fremur skal ráðherra eigi síðar en í árslok 2014 leggja fram frumvarp til laga þar sem lagt verður til að lögfest verði að persónuleg notendastýrð aðstoð verði eitt meginform þjónustu við fatlað fólk og skal efni frumvarpsins m.a. taka mið af reynslu af framkvæmd samstarfsverkefnisins. 

1)L. 152/2010, 42. gr. 2)L. 52/1999, 1. gr.