Skip to main content
Frétt

Ályktun ÖBÍ, 10. mars 2006

By 17. mars 2006No Comments
Framkvæmdastjórn Öryrkjabandalags Íslands mótmælir þeim töfum sem fyrirsjáanlegar eru á svörum Tryggingastofnunar ríkisins við andmælum bótaþega vegna endurreikninga bóta ársins 2004. Í bréfi stofnunarinnar, dagsettu 3. mars 2006 segir:

„Því miður er fyrirsjáanlegt að frekari dráttur verði á afgreiðslunni, einkum vegna manneklu og nauðsynlegrar forgangsröðunar verkefna. Ekki er ljóst hvenær mál þitt verður tekið fyrir en vonandi verður hægt að ljúka afgreiðslu þess innan 6-8 mánaða og mun þér verða tilkynnt um niðurstöðu þessa um leið og hún liggur fyrir.“

ÖBÍ telur þetta allsendis óviðunandi og ganga í berhögg við anda stjórnsýslulaga. Vandræðagangurinn vegna endurreikninga bótanna leiðir í ljós að óframkvæmanlegt er fyrir TR að vinna samkvæmt núgildandi lögum og reglum um almannatryggingar. Framkvæmdastjórn ÖBÍ skorar á stjórnvöld að hefja nú þegar samstarf við heildarhagsmunasamtök um endurskoðun laganna með það að markmiði að einfalda lögin og gera þau réttlátari.

Reykjavík 10. mars 2006
Framkvæmdastjórn ÖBÍ