Skip to main content
Frétt

Áskorun – ÖBÍ varar við vanhugsuðum aðgerðum

By 19. ágúst 2013No Comments

Öryrkjabandalag Íslands skorar á stjórnvöld að fara ekki út í vanhugsaðar breytingar á nýrri byggingareglugerð

 Áskorun – ÖBÍ varar við vanhugsuðum aðgerðum

Öryrkjabandalag Íslands skorar á stjórnvöld að fara ekki út í vanhugsaðar breytingar á nýrri byggingareglugerð á grundvelli kostnaðarútreikninga sem standast ekki. Jafnframt lýsir Öryrkjabandalagið vonbrigðum með málflutning Samtaka iðnaðarins sem hafa mótmælt nýju reglugerðinni og vilja að aðrar kröfur verði gerðar til íbúðarhúsnæðis fyrir fatlaða og öryrkja en annarra.  Með því væri stuðlað að aðskilnaðarstefnu (apartheid) þar sem fötluðu fólki og fólki með skerta hreyfigetu væri beint í sér húsnæði (ghettó) án eðlilegs sambýlis við aðra landsmenn.

Nýja byggingareglugerðin sem tók gildi 2012 byggir að hluta á breyttri hugmyndafræði, svokallaðri algildri hönnun, sem krefst þess að við hönnun mannvirkja sé frá upphafi tekið mið af þörfum allra, þar á meðal fatlaðra og þeirra sem búa við skerta hreyfigetu. Í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem undirritaður var 30. maí 2007 er hvatt til algildrar hönnunar.

Útreikningar Samtaka iðnaðarins á miklum kostnaðarauka vegna reglugerðarinnar standast ekki og hefur þegar verið sýnt fram á það.  Áður en reglugerðin tók gildi bar Mannvirkjastofnun saman byggingakostnað samkvæmt eldri reglugerð og þeirri nýju og var niðurstaðan sú að um óverulega breytingu væri að ræða.  Samtök iðnaðarins hafa hins vegar haldið því fram að kostnaðaraukinn sé 9,6-12,4% og byggja það á mati sem samtökin og Búseti létu gera á kostnaði við tiltekið hús sem þessir aðilar völdu að skoða. Mannvirkjastofnun fól óháðum aðila, verkfræðistofunni Mannviti að leggja mat á kostnaðinn og var niðurstaða þess að hækkunin væri á bilinu 2,2% til 3,1%.  Umhverfisráðuneytið hefur þegar ákveðið að gera tilteknar breytingar á byggingareglugerðinni sem draga enn frekar úr þessari hækkun og er metið að hækkun byggingarkostnaðar við húsið sem Samtök iðnaðarins hafa valið að miða við sé 0,3%.  Kostnaðaraukinn er því óverulegur og fráleitt að hverfa frá því framfaraspori sem tekið var við gildistöku reglugerðarinnar.

Sjá frétt RÚV 18. ágúst, Byggingareglugerð endurskoðuð