Skip to main content
Frétt

Áskorun til Alþingis um NPA

By 4. desember 2009No Comments
Ráðstefnugestir á „Notendastýrð persónuleg aðstoð – tálsýn eða veruleiki ?“ samþykktu áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar, að tryggja með lögum rétt fatlaðs fólks til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) í anda hugmyndafræðinnar um sjálfstætt líf.

Adolf D. Ratzka Ph.D., flytur erindi sitt.

Ráðstefnan „Notendastýrð persónuleg aðstoð – tálsýn eða veruleiki ?“ var haldin á Salnum í Kópavogi í gær, 3. desmeber, á alþjóðadegi fatlaðra. Meðal fyrirlesar var Adolf D. Ratzka, Ph.D. stofnandi og forstjóri Stofnunar um sjálfstætt líf í Svíþjóð. Independent Living Institute.

Í lok ráðstefnunnar var eftirfarandi áskorun til Alþingis samþykkt samhljóða af ráðstefnugestum.

 

Áskorun

Ráðstefnan „Notendastýrð persónuleg aðstoð – tálsýn eða veruleiki ?“  skorar á  Alþingi og ríkisstjórn að tryggja með lögum rétt fatlaðs fólks til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) í anda hugmyndafræðinnar um sjálfstætt líf (Independent Living Movement).

Greinargerð

Mikilvægt er að allir sem þess þurfa, án tillits til tegundar fötlunar eða sjúkdóms, fái notið notendastýrðrar persónulegrar þjónustu. Að ráða sjálfur eigin lífi eru sjálfsögð mannréttindi sem hnykkt er á í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Íslendingar hafa undirritað.

Stjórnvöld eru hvött til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að einstaklingar sem þess óska geti notið notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. Liður í slíkum aðgerðum er að tryggja aukið fjármagn til þjónustu við fatlað fólk í daglegu lífi. Minnt er á ákvæði Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem kveða á um rétt þeirra til þjónustu sem miðar að því að fólk geti lifað lífi sínu í samfélagi án aðgreiningar og njóti valkosta um þjónustu og búsetukosti.

Í Svíþjóð voru lög um notendastýrða aðstoð samþykkt 1993 og tóku gildi 1994 (1992/93:159 Lag om assistansersattning (LASS)).  Þessi lög hafa orðið hinum norðurlöndunum að fyrirmynd og er Ísland eina landið sem enn hefur ekki sett sambærileg lög.

Ráðstefnan var haldin af Öryrkjabandalagi Íslands, FFA, fræðsla fyrir fatlaða og aðstandendur og félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Aðilar að FFA eru Ás- styrktarfélag, Landssamtökin Þroskahjálp, Sjálfsbjörg- landssamtök fatlaðra og Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra.  Ráðstefnan er hluti af Prógress áætlun Evrópusambandsins gegn mismunun.