Skip to main content
Frétt

Áskorun TR vegna skerðingar lífeyrissjóða.

By 5. desember 2007No Comments
Á heimasíðu TR eru allir þeir lífeyrisþegar, sem fengu skerðingu eða niðurfellingu greiðslan frá lífeyrissjóðum nú um mánaðarmótin, hvattir til að skila breytingum á tekjuáætlun 2008 til stofnunarinnar, hafi þeir ekki gert það nú þegar, þannig að þeir fái skerðinguna að hluta til bætta frá og með janúar á næsta ári. Skilafrestur til TR er til 10. desember til að leiðrétt greiðsla geti borist strax í janúar 2008.

Nokkrir lífeyrissjóðir skertu eða felldu niður greiðslur sínar til öryrkja nú um mánaðamótin, eins og mörgum er kunnugt. Í mörgum tilfellum geta þessir lífeyrisþegar fengið skerðinguna bætta að hluta til í formi hærri bóta frá Tryggingastofnun. Stofnunin hvetur þá lífeyrisþega, sem hafa fengið skertar greiðslur af þessum sökum, til að skila breytingum á tekjuáætlun stofnunarinnar fyrir árið 2008, hafi þeir ekki gert það nú þegar, þannig að þeir fái skerðinguna að hluta til bætta frá og með janúar á næsta ári.
Tryggingastofnun sendi öllum lífeyrisþegum tekjuáætlun fyrir árið 2008 um miðjan nóvember sl. Frestur til að skila breytingum á áætlun stofnunarinnar rennur út 10. desember nk.

Reikna má með því að hluti þeirra lífeyrisþega sem fá skertar greiðslur frá lífeyrissjóðunum hafi skilað inn tekjuáætlun til Tryggingastofnunar og því fengið skerðinguna bætta að hluta þegar um þessi mánaðamót, en aðrir fá hana bætta um áramótin.

Tryggingastofnun bendir einnig á að í lok þessa árs sendi hún öllum lífeyrisþegum greiðsluáætlun fyrir árið 2008 þar sem allar forsendur eru birtar, þar með talið þær tekjur sem liggja til grundvallar útreikningi. Viðskiptavinum gefst kostur á því að senda nýja tekjuáætlun hvenær sem er innan ársins 2008 og eru greiðslur þá leiðréttar til samræmis við það.