Skip to main content
Frétt

Athygli – já takk!

By 16. september 2011No Comments
Evrópsk ADHD vitundarvika 18.-25. september – málþing 23. september

Í tilefni af evrópskri ADHD vitundarviku 18.-25. september ætla ADHD samtökin á Íslandi að standa fyrir kynningarherferð og vitundarvakningu sem ber yfirheitið Athygli – já takk!

Í samstarfi við Velferðarráðuneytið verður staðið að málþingi föstudaginn 23. september kl.13:00- 16:30 í Iðusölum í Lækjargötu sem kallast Nýjar lausnir – ný sýn!  Á málþinginu verða kynnt verkefni sem sveitarfélög hafa staðið að er varða ADHD og hafa verið styrkt af ráðuneytinu. Verkefnin verða kynnt og farið yfir kosti og galla, þannig að önnur sveitarfélög og fagaðilar geti nýtt sér þá þekkingu. Auk þess verða kynnt myndbönd sem ADHD samtökin í Danmörku fengu ungmenni til að útbúa og voru hluti kynningarherferðar sem hlaut markaðsverðlaun þar í landi. Þá verður vefforritið Fókus kynnt, en það nýtist fólki með ADHD sérstaklega vel.

Vitundarvika til hvers?

Markmið ADHD vitundarvikunnar er að auka þekkingu almennings á ADHD, eyða fordómum, auka skilning og efla stuðning við fólk með ADHD með opinskárri og skammarlausri umfjöllun.
Efnt verður til fjáröflunar til eflingar á starfi ADHD samtakanna með sölu endurskinsmerkja með teikningum Hugleiks Dagssonar. Markmiðið er að samtökin geti staðið að fjölbreyttari fræðslu og sinnt ólíkum hópum barna og fólks með ADHD. Þá er stefnt að auknu starfi á landbyggðinni.

Áherslur herferðarinnar verða að upplýsa almenning um ADHD. Hvað er ADHD, hversu fjölbreytilega og mikla breidd röskunin hefur og hversu margir einstaklingar eru með ADHD á Íslandi. Ennfremur verður lögð áhersla á hversu mikilvægt er að einstaklingar með ADHD mæti skilningi og njóti stuðnings í samfélaginu, því stuðningur skapar sigurvegara.

Í vitundarvikunni verða gefnir út bæklingar um börn og ADHD, konur og ADHD, fullorðna og ADHD. Þar að auki opna samtökin nýja heimasíðu með nýju lógói. Bæklingarnir verða sendir til  Félagsþjónustu sveitarfélaga og heilsugæslustöðva á landinu auk þess sem hægt verður að nálgast bæklingana á heimasíðu samtakanna http://www.adhd.is/