Skip to main content
Frétt

Átt þú rétt á bótum aftur í tímann?

By 3. júlí 2012No Comments

Úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur úrskurðað örorkulífeyrisþega í hag í máli varðandi barnalífeyri, sem ÖBÍ kærði fyrir hönd viðkomandi.

Það er meginregla almannatryggingalaga að einstaklingar sækja um bætur til þess að fá þær greiddar. Bætur virkjast almennt ekki sjálfkrafa, jafnvel þótt öll skilyrði séu til staðar. Einstaklingar hafa oft átt rétt á bótum í einhvern tíma, jafnvel mörg ár, án þess að hafa sótt um að fá bætur almannatryggingar greiddar. Í slíkum tilvikum mæla lög um almannatryggingar fyrir um að einstaklingar fái bætur greiddar afturvirkt, en þó ekki lengur en tvö ár aftur í tímann.

Fyrir nokkrum misserum fóru að berast mál til ÖBÍ í kjölfar þess að Tryggingastofnun ríkisins hafnaði því að greiða bætur aftur í tímann. ÖBÍ barst meðal annars mál sem kært var til Úrskurðarnefndar almannatrygginga enda leit bandalagið á það sem prófmál. Niðurstaða þess myndi hafa þýðingu fyrir önnur sambærileg mál þar sem Tryggingastofnun hefur neitað greiðslu bóta aftur í tímann.

Tapaður barnalífeyrir

Kærandi sótti um greiðslu barnalífeyris með umsókn dagsettri 20. maí 2011, móttekinni sama dag af Tryggingastofnun, vegna tveggja barna sinna fæddum á árunum 2004 og 2006. Umsókn kæranda var samþykkt af Tryggingastofnun og fallist á greiðslu barnalífeyris frá 1. júní 2011, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Kærandi fór fram á greiðslu barnalífeyris tvö ár aftur í tímann, en stofnunin synjaði þeirri beiðni kæranda. Rökstuðningur Tryggingastofnunar var sá að barnalífeyrir yrði einungis greiddur aftur í tímann þegar „sérstakar aðstæður“ ættu við.

Að óbreyttu hefði kærandinn verið búinn að glata rétti til barnalífeyris aftur í tímann þrátt fyrir að hafa uppfyllt skilyrði til að fá slíkar greiðslur í mörg ár. Kærandinn hefði þannig misst rétt til greiðslna í 7 ár fyrir annað barn sitt og 5 ár fyrir hitt barnið. Hann sætti sig ekki við þessa niðurstöðu og leitaði ráðgjafar til Öryrkjabandalags Íslands, sem aðstoðaði aðilann við að kæra til Úrskurðarnefndar almannatrygginga. Starfsmenn ÖBÍ gátu ekki séð að neitt hefði breyst í lögum sem kæmi í veg fyrir að reiknaður yrði barnalífeyrir 2 ár aftur í tímann. Þá gátu starfsmenn ÖBÍ hvergi fundið því stoð í lögum að „sérstakar aðstæður“ þyrfti til þess að barnalífeyrir yrði greiddur afturvirkt. Þvert á móti taldi ÖBÍ að rétturinn til greiðslna í a.m.k. tvö ár aftur í tímann væri skilyrðislaus ef viðkomandi öryrki fullnægði öllum skilyrðum bótanna í þann tíma sem hann óskaði eftir að fá bættan afturvirkt.

Niðurstaða úrskurðar – túlkun TR hafnað en fallist á sjónarmið ÖBÍ

Úrskurðarnefnd almannatrygginga leit einfaldlega til þess að kærandinn hefði verið örorkulífeyrisþegi frá árinu 1997 en börn hans eru fædd 2004 og 2006. Kærandi hafði þannig uppfyllt skilyrði til að fá greiddan barnalífeyri alveg frá þeim tíma sem börn hans fæddust og óslitið síðan.

Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að þar sem kærandi hefði uppfyllt skilyrðin í mörg ár áður en hann sótti um barnalífeyri (í 5 og 7 ár) þá bæri Tryggingastofnun að greiða kæranda barnalífeyri í tvö ár afturvirkt, þ.e. frá 1. júní 2009.

Niðurstað úrskurðarnefndar staðfestir þann skilning ÖBÍ að örorkulífeyrisþegi eigi ekki einungis rétt til bóta frá og með þeim degi sem umsókn um bætur berast. Einstaklingar eiga rétt til bóta fyrir allan þann tíma sem skilyrði bótanna hafa verið til staðar. Þó er að hámarki greitt fyrir tvö ár aftur í tímann.

Úrskurðarnefndin fjallar ekkert um þær málsástæður Tryggingastofnunar að afturvirkar greiðslur komi aðeins til álita þegar „sérstakar aðstæður“ eru til staðar. Verður því ekki betur séð en að nefndin hafni þessum sjónarmiðum enda er engin stoð fyrir þeim í lögum.

Tengill á úrskurðinn í heild.