Skip to main content
Frétt

Auðkennislykillinn og aðgengi allra.

By 24. janúar 2007No Comments
Að undanförnu hafa bankar og sparisjóðir verið að kynna auðkennislykil sem gert er ráð fyrir að skilyrt verði að nota fyrir viðskiptavini Netbanka. Því miður vantar upp á að auðkennislykillinn nýtist öllum. Unnið er að úrbótum.

Á heimasíðu Auðkenni hf, www.audkenni.is kemur fram að auðkennislykillinn er öryggisviðbót sem gerir innskráningu í Netbankann öruggari en fyrr. Hafa bankar og sparisjóðir sameinast í innleiðingu þessa lykils. Auðkennislykillinn er einfalt tæki sem gefur eiganda sínum nýtt númer í hvert sinn sem hann skráir sig inn í Netbankann. Þar sem númerið er síbreytilegt verður því númerið ekki þefað uppi af tölvuþrjótum. Öryggi hvers og eins er tryggt í takt við nýjustu tækni og ströngustu kröfur sem hægt er að gera. Hægt er að nota sama auðkennislykil í innskráningu netbanka hjá hvaða banka eða sparisjóði sem er.

Nýr og aðgengilegri auðkennislykill væntanlegur.

Sá auðkennislykill sem bankar og sparisjóðir koma til með að senda viðskiptavinum sínum er mjög lítill í sniðum og skjárinn sem númerið birtist á fremur smár og erfitt að lesa af. Þá getur sumum reynst erfitt að ýta á hnappinn á lyklinum.

Samkvæmt upplýsingum sem Öryrkjabandalag Íslands hefur fengið frá fyrirtækinu Auðkenni hf þá er í vinnslu búnaður sem er mun aðgengilegri og er gert ráð fyrir að hann verði tilbúinn innan sex mánaða.

Þar til aðgengilegri búnaður verður tilbúinn er viðskiptavinum bent á að hafa samband við sinn viðskiptabanka, geti þeir ekki notað auðkennislykilinn, og óskað eftir hjáleið til að komast inn í Netbankann, þar til nýr og aðgengilegri auðkennislykill berst þeim.