Skip to main content
Frétt

Ávarp framkvæmdastjóra SÞ á alþjóðadegi fatlaðra

By 3. desember 2010No Comments
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir m.a. í ávarpi sínu, að ríkisstjórnir verði að gera meira til að standa við bak fatlaðs fólks:

“Í þessu felst að hrinda í framkvæmd Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Og jafnframt að taka tillit til þarfa fatlaðra í áætlunum einstakra ríkja um framkvæmd Þúsaldarmarkmiðanna um þróun.”

Framkvæmdastjórinn bendir á í ávarpi sínu að tíundi hver einstaklingur í heiminum glími við fötlun og rúmlega tuttugu prósent fátækustu íbúa þróunarríkjanna séu fatlaðir.

“Fötlun helst einnig að verulegu leyti í hendur við fátækt?Fatlaðir búa við mest atvinnuleysi allra í heiminum og skortir oft viðunandi menntun og heilsugæslu. Víða í heiminum er ekki gert ráð fyrir þessum hópi og fatlaðir búa við einangrun án tengsla við þeirra eigið samfélag.”

Þema alþjóðlegs dags fatlaðra að þessu sinni er: “Að standa við loforðið: fötlun verði miðlæg innan Þúsaldarmarkmiðanna um þróun.” Ban Ki-moon minnir á að málefni fatlaðra voru rædd á leiðtogafundi í New York nú í haust: “Á meðal þeirra loforða sem leiðtogar ríkja veraldar gáfu á leiðtogafundinum um Þúsaldarmarkmiðin í september, var fyrirheit um að bæta líf fatlaðs fólks. “

Alþjóða dagur fatlaðra hefur verið haldinn 3. desember ár hvert frá árinu 1981 sem var Alþjóðlegt ár fatlaðs fólks hjá Sameinuðu þjóðunum. Markmiðið með því að halda þennan dag er að auka skilning á fötlun og beina athyglinni að réttindum fólks sem glímir við fötlun.

Ávarp Ban Ki-moon í heild

Nánari upplýsingar um starf Sameinuðu þjóðanna í málefnum fatlaðra