Skip to main content
Frétt

Bæta þarf þekkingu sveitarstjórnarfólks og kjör fatlaðs fólks

By 8. maí 2014No Comments

Meðal áherslna ÖBÍ byggðum á rannsókninni „Fatlað fólk og öryrkjar sem íbúar sveitarfélaga

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) boðaði til fréttamannafundar í morgun þar sem kynntar voru megin áherslur ÖBÍ byggðum á skýrslunni. Lögð hafði verið áhersla á að rannsókninni yrði lokið fyrir sveitarstjórnarkosningar 2014 þannig að nýta mætti niðurstöður hennar í tengslum við þær. Hér er um mjög yfirgripsmikla rannsókn að ræða og niðurstöður áhugaverðar sem fjölmiðlar geta nýtt sér í kosningaumræðunni.

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og Rannsóknasetur í fötlunarfræðum unnu rannsóknina á búsetu fatlaðs fólks og þjónustu sveitarfélaga. Markmið rannsóknarinnar var að kanna aðstæður og reynslu íbúa sveitarfélaganna sem eru fatlaðir eða öryrkjar og leita m.a. svara við því hvaða þættir hafa einkum áhrif á það hvar fatlað fólk kýs að búa og hvort og þá hvaða þjónustu sveitarfélaga það nýtir sér. Rannsóknin kannaði viðhorf fatlaðra, sveitarstjórnarmanna og almennings. 

ÖBÍ hefur þegar nýtt sér niðurstöður rannsóknarinnar og fór af stað með átakið „Burtu með fordóma – betra samfélag“ fyrir skemmstu. Gefin voru 3.000 buff, sem á stóð „Burt með fordóma“, í 1. maígöngunni. Ástæða þessa var að í rannsókninni kom m.a. í ljós að viðhorf gagnvart fötluðu fólki er neikvætt, sérstaklega gagnvart fólki með geðraskanir og fólki með þroskaskerðingu. ÖBÍ telur mikilvægt að leggja áherslu á fordómalaust samfélag, samfélag þar sem allir eru jafnir og njóta sömu tækifæra í lífinu. 

Bæta þarf þekkingu sveitarstjórnarfólksRannveig Traustadóttir

 • Fram kemur í rannsókninni að starfsfólk sveitarfélaganna sem starfar á velferðar- og félagssviði er líklegra til að hafa þekkingu á málefnum fatlaðs fólks en kjörnir fulltrúar. Mestur er munurinn þegar spurt er um þekkingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en ríflega tveir þriðju (67%) starfsfólks á velferðar- og félagssviði sögðust hafa góða þekkingu, en einungis 19% kjörinna fulltrúa.
 • ÖBÍ telur mikilvægt að stuðla að aukinni þekkingu sveitarstjórnarfólks á málaflokkinum og auka umræðu um hugmyndafræðina sem einkennir þjónustuna og hugmyndafræðina um sjálfstætt líf. Það er grundvallaratriði að sveitarstjórnarmenn þekki orðræðuna og séu meðvitaðir um ríkjandi hugmyndafræði varðandi málefni fatlaðs fólks svo þeir geti tekið ákvarðanir í samræmi við það. Því hefur ÖBÍ látið útbúa bækling sem sendur verður öllum frambjóðendum allra framboða til sveitarstjórnarkosninga. Í honum eru kynnt helstu atriði og hugtök í þjónustu sveitarfélaga við fatlaða íbúa, framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Losa þarf um átthagafjötra fatlaðs fólks og öryrkja

 • Sumt fatlað fólk og öryrkjar óttast að flytja milli sveitarfélaga – það óttast að þurfa að byrja frá grunni að sækja um nauðsynlega þjónustu.
 • Fólk óttast mest að missa þá þjónustu sem það hefur – m.a. NPA (Notendastýrða persónulega aðstoð).
 • Eftir yfirfærslu málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga er þjónustan bundnari lögheimili en áður.
 • Einnig er fólk óöruggt með að flytja milli hverfa og þjónustumiðstöðva í Reykjavík.
 • Mismunur á ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk er á milli sveitarfélaga og vildi blint og sjónskert fólk helst búa í Reykjavík vegna leigubílaþjónustu við þennan hóp.

Bæta þarf fjárhagslega stöðu fatlaðs fólks og öryrkja

 • Yfir helmingur fatlaðs fólks og öryrkja á frekar eða mjög erfitt með að ná endum saman. Konur voru líklegri en karlar til að segja að frekar eða mjög erfitt væri að ná endum saman.
 • Fjárhagsleg afkoma var sérlega erfiðar á heimilum sem áttu börn undir 18 ára aldri á heimilinu.
 • Við samanburð á svörum fatlaðs fólks og öryrkja og svörum almennings á Íslandi í ESS könnun árið 2012 við spurningu um mat á fjárhagsstöðu heimilis kemur fram að hún er mun verri hjá fyrri hópnum. Heimilið kemst vel af hjá 17% fatlaðs fólks og öryrkja en 44% hjá almenningi.

Endurskipuleggja þarf þjónustu samkvæmt nýrri hugmyndafræði

 • Ríflega helmingur þeirra sem fá þjónustu ráða frekar litlu um hvenær og hvernig þjónusta er veitt og hver veitti hana. Fatlað fólk og öryrkjar sem meta fjárhagsstöðu sína góða eru líklegri til að ráða frekar miklu um þá þjónustu sem það fær en þeir sem eiga erfitt með ná endum saman.
 • Fatlað fólk og öryrkjar finnst mörgu hverju að það þurfi að berjast fyrir þeirri lögbundnu þjónustu sem það hefur rétt á. Fólk telur kerfið þungt í vöfum og ósveigjanlegt.

Tryggja þarf aðgengi fyrir alla (Algild hönnun)

 • Tæplega 40% fatlaðs fólks og öryrkja fannst mjög eða frekar erfitt að fá upplýsingar um þá þjónustu sem sveitarfélag þeirra veitir fötluðu fólki.
 • Í viðtölum við þátttakendur rannsóknarinnar kom fram að aðgengi að upplýsingum væri ábótavant. Fólk var óöruggt um það hvar það ætti að leita upplýsinga og hvort hægt væri að treysta upplýsingum sem það fékk hjá opinberum stofnunum.
 • Mismunandi er eftir sveitarfélögum hvort aðgengi að opinberum byggingum sé ásættanlegt fyrir fatlað fólk og öryrkja. Sumu fötluðu fólki finnst að of lítið samráð sé haft við notendur við hönnun mannvirkja. Í sumum sveitarfélögum töldu eingöngu 6% svarenda töldu að aðgengi að manngerðu umhverfi væri tryggt í sveitarfélögum.     

Auka þarf atvinnumöguleika fatlaðs fólks og öryrkja

 • Meiri neikvæðni er gagnvart atvinnuþátttöku fólks með geðsjúkdóma eða þroskahömlun heldur en þátttöku blindra og heyrnarlausra. Fólk er almennt jákvæðast gagnvart atvinnuþátttöku hreyfihamlaðra.
 • Meira en helmingur sveitarstjórnarfólks og starfsfólks í málefnum fatlaðs fólks, eða 59%, eru þeirrar skoðunar að stjórnvöld eigi að útvega störf fyrir alla þá sem vilja, einnig öryrkja og fatlað fólk.
 • Í Framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks til ársins 2014 kemur fram að íslensk stjórnvöld hafi sett þér það markmið að 85% fatlaðs fólks á vinnualdri hafi vinnu, virkniúrræði eða stundi nám við hæfi í lok árs 2014.