Skip to main content
Frétt

Bætur almannatrygginga hækka ekki í samræmi við kjarasaminga og 69. gr. laga almannatrygginga

By 24. nóvember 2011No Comments

kemur meðal annars fram í umsögn ÖBÍ varðandi frumvarp til fjárlaga fyrir ári 2012. Sjá umsögn í heild sinni.

Nefndasvið Alþingis
Efnahags- og viðskiptanefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 16. nóvember 2011

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum (breyting ýmissa laga) 195. mál og um fjárlagafrumvarp 2012.

Breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum:

Hækkun á tekjuviðmiðum milli skattþrepa er allt of lág.

Í 5. tölulið 1. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er kveðið á um að fjárhæðarmörk tekjuskattsstofns skuli hækka í réttu hlutfalli við hækkun á launavísitölu frá upphafi til loka næstliðins tólf mánaða tímabils. Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að tekjuviðmiðin hækki í samræmi við almenna prósentuhækkun í kjarasamningum á árinu 2012 eða um 3,5% þrátt fyrir að gera megi ráð fyrir að hækkun launavísitölu verði allt að 7% fyrir árið 2011. Með því að hækka ekki tekjuviðmið á milli skattþrepa í samræmi við lög, eða aðeins um 3,5%, sparar ríkið um 400 milljónir. kr. á ársgrundvelli.

ÖBÍ telur að viðmiðunarmörk fyrir 2. skattþrep séu allt of lág og þarf að hækka þau til muna. Á þessu ári eru tekjur undir kr. 209.401 á mánuði skattlagðar í 1. skattþrepi og er skatturinn þá 37,31%. Ef tekjur eru hærri hækkar skatturinn í 40,21%. Hækkun viðmiðunartekna skattþrepsins um 3,5% á næsta ári á sama tíma og vísitala neysluverðs hefur hækkað um rúm 5,3% gerir það að verkum að ráðstöfunartekjur lágtekjufólks með heildartekjur yfir 210.000 á mánuði rýrna.

Frumvarp til fjárlaga 2012

Bætur almannatrygginga hækka ekki í samræmi við 69. gr. laga um almannatryggingar.

Samkvæmt 69. gr. laga um almannatryggingar skulu bætur almannatrygginga breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.

Í frumvarpi til fjárlaga árið 2012 er gert ráð fyrir að hækkun bóta almannatrygginga verði í samræmi við almenna hækkun kjarasamninga eða 3,5%. Áætluð hækkun er mun lægri en ákvæði 69. gr. almannatrygginga segir til um. Í lið 2.3. í athugasemdum við frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem hér er til umfjöllunar, segir að gera megi ráð fyrir að hækkun launavísitölu verði um 7% árið 2011. Í október 2011 hafði vísitala neysluverðs hækkað um 5,3% á síðustu 12 mánuðum.

Samkvæmt kjarasamningi á milli ASÍ og SA, sem tók gildi 1. júní 2011 skulu lágmarkstekjur (lágmarkstekjutrygging í dagvinnu) fyrir fullt starf fyrir starfsmann 18 ára og eldri eftir fjögurra mánaða samfellt starfi hjá sama fyrirtæki vera: 

  • 01.06. 2011 kr. 182.000 á mánuði
  • 01.02. 2012 kr. 193.000 á mánuði

Eins og sjá má mun lágmarkstekjutryggingin hækka á milli 2011 og 2012 um kr. 11.000 á mánuði.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnar tengd kjarasamningum frá 5.5.2011 segir að stjórnvöld munu endurskoða bætur almannatrygginga með hliðsjón af niðurstöðum kjarasamninga milli ASÍ og SA, þannig að lífeyrisþegar og atvinnulausir njóti hliðstæðra kjarabóta og um verður samið í kjarasamningum. Ef örorkulífeyrisþegar eiga að fá hliðstæða hækkun og launþegar á lægstu töxtum fá samkvæmt áðurnefndum kjarasamningi þyrfti að hækka bætur þeirra um 6,5%.

Með 3,5% hækkun á árinu 2012 er því ekki tryggð sú krónutöluhækkun lægstu launa, sem kjarasamningar gera ráð fyrir, að fjárhæð 11.000 kr.

Í töflunni hér að neðan má sjá greiðslur til örorkulífeyrisþega sem búa með öðrum. Ljóst er að þær greiðslur eru allt of lágar. Einnig má sjá samanburð á tekjum m.v. hækkun bóta um 3,5% og um 11.000 kr. (6,5%) samanborið við lágmarkstekjutryggingu ASÍ.

  Greiðslur frá 1.6.2011 Greiðslur m.v. 3,5% hækkun 1.1. 2012  Greiðslur m.v. 11.000 kr. hækkun 1.1.2012.  Lágmarkstekjutrygging í dagvinnu 1.2.2012 
Örorkulífeyrisþegi býr ekki einn*   169.030  174.946  180.030  193.000

*Með engar aðrar tekjur en örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins.

ÖBÍ mótmælir því að stjórnvöld ætli sér, fjórða árið í röð, að taka úr sambandi lög sem sett voru til að tryggja lífeyrisþegum sanngjarnan lífeyri og verja fólk gegn óvæntum aðstæðum eins og skapast hafa í kreppunni. Umrædd lög voru tekin úr sambandi með fjárlögum fyrir árið 2009 og ekki sett aftur í samband árin 2010 og 2011. Þá jukust tekjuskerðingar í almannatryggingakerfinu verulega frá 1. júlí 2009 í kjölfar kreppunnar ásamt því að kostnaður í heilbrigðiskerfinu hefur aukist umtalsvert.

Þann 1. janúar 2009 hefðu lífeyrisgreiðslur átt að hækka um 19,6% en einungis lítill hluti lífeyrisþega fékk þá hækkun, aðrir aðeins 9,6%. 1. janúar 2010 voru bætur frystar en hefðu átt að hækka um a.m.k. 10%. Enn hefðu bætur átt að hækka 1. janúar 2011 um a.m.k. 7% til viðbótar, en þrátt fyrir það voru þær frystar annað árið í röð. Í byrjun árs 2011 var því ljóst að til að halda í horfi miðað við það sem var 2008 hefðu bætur þurft að hækka um 27% að lágmarki. Í júní 2011 hækkuðu bætur um 8,1% í samræmi við kjarasamning ASÍ og SA. Sú hækkun náði ekki að bæta upp áðurnefndar skerðingar. Með fjárlögum 2012 er því enn á ný ekki staðið við hækkun bóta samkvæmt 69. gr. laga um almannatryggingar.

Til viðbótar við ofangreint er gert ráð fyrir á næsta ári að frysta upphæðir eftirtalinna bótaflokka, sem tilheyra lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð:

  • Mæðra- og feðralaun
  • Umönnunargreiðslur
  • Barnalífeyri vegna menntunar
  • Uppbætur vegna reksturs bifreiða og bifreiðakaupa
  • Barnalífeyri

Að auki er ætlunin að skerða fjárframlag vegna greiðslu aldurstengdrar örorkuuppbótar um 200 milljón kr. á árinu 2012 með því að breyta forsendum fyrir útreikningi bótaflokksins.

Í fjárlagafrumvarpinu segir að ætla megi að þessir bótaflokkar hafi ekki sömu þýðingu fyrir grunnframfærslu eins og almennur lífeyrir, en enginn rökstuðningur fylgir. ÖBÍ mótmælir þessum skerðingum og leggur mikla áherslu á að fjárlagafrumvarpinu verði breytt til að það komi þeim til góða sem þurfa að treysta á velferðarkerfið. Mikilvægt er að hafa í huga að umræddar greiðslur eru ætlaðar til að mæta þeim kostnaði sem tengist börnum og fjölskyldum þeirra.

Tímabært að hækka bætur í ljósi breyttra aðstæðna í ríkisfjármálum.

Bent er á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingar-innar græns framboðs segir orðrétt: „Mikilvægasta verkefni velferðarþjónustunnar og leiðarljós við forgangsröðun í núverandi aðstæðum er að vernda hag og stöðu barna og fjölskyldna þeirra, sem og þeirra sem lakast standa í samfélaginu.“ Þrátt fyrir fögur fyrirheit hafa útgjöld ríkisins hvað varðar lífeyristryggingar, félagslega aðstoð og greiðslur til foreldra sem hlutfall af gjöldum hins opinbera dregist saman á árunum 2004-2010 úr 8,6% í 7,1%. Þá hafa greiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar sem hlutfall af landsframleiðslu haldist óbreytt frá 2007 til 2010, eða um 2,9%, sem sýnir að bætur hafa lækkað í takt við samdrátt í tekjum ríkissjóðs.

Lífeyrisþegar hafa orðið fyrir miklum skerðingum í kreppunni. Í ljósi þess að tilkynnt hefur verið að sparnaðaraðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi skilað tilætluðum árangri og það stefnir í að ríkissjóður skili afgangi á næsta ári eða um 39,6 milljarða kr. er tímabært að leiðrétta kjör lífeyrisþega hið fyrsta.

Virðingarfyllst
f.h. ÖBÍ

Guðmundur Magnússon                          Lilja Þorgeirsdóttir
formaður                                                framkvæmdastjóri