Skip to main content
Frétt

Blindir og heyrnarlausir í einangrun

By 18. nóvember 2014No Comments

Flott umræða hjá Kastljósi um túlkaþjónustu – framhald í kvöld

Þó nokkur umræða hefur verið í fjölmiðlum undanfarið um að túlkasjóðurinn á þessu ári sé uppurinn. Átján milljónir króna voru settar í túlkasjóðinn á þessu ári en fjármagn úr honum er notað til að auðvelda heyrnarlausum að taka þátt í samfélaginu. Sjóðurinn á að tryggja að heyrnarlausir geti til dæmis farið í  atvinnuviðtöl, sótt starfsmannafundi, keypt bíl eða fasteign svo fá dæmi séu tekin. Fyrir 18 milljónir getur hver heyrnarlaus maður fengið túlk í um það bil níu klukkustundir á ári. Peningarnir dugðu ekki og tæmdist sjóðurinn fyrir nokkru.

Heiðdís Dögg Eiríksdóttir formaður félags heyrnarlausra hefur skrifað beinskeyttar greinar um málið í fjölmiðlum og í gærkvöldi birtist viðtalið hér að ofan í Kastljósi við þær Snædísi og Áslaugu Hjartardætur þar sem þær segja m.a. frá upplifun sinni af því að fá ekki þá táknmálstúlkun sem þær þurfa í daglegu lífi. Snædís hefur greitt fyrir túlkaþjónustu úr eigin vasa og hefur ákveðið að stefna ríkinu þar sem hún telur á mannréttindum fólks sem samþætta sjón- og heyrnarskerðingu gróflega brotið. 

Yfirlýsing um að ráðstafa 4,5 milljónum í táknmálstúlkun

Rétt fyrir þáttinn barst yfirlýsing frá Vigdísi Hauksdóttur formanni fjárlaganefndar þar sem fram kemur að meirihluti fjárlaganefndar hafi  ákveðið á fundi um morguninn að leggja til við Alþingi að ráðstafa 4,5 milljónum í táknmálstúlkun fyrir aðra umræðu frumvarps til fjáraukalaga. Nánar verður fjallað um þetta í Kastljósinu í kvöld þar sem fram koma m.a. viðbrögð frá Illuga Gunnarssyni menntamálaráðherra.   

Geta ekki beitt sér í helsta hagsmunamáli sínu

Hagsmunafélag fólks sem er bæði blint og heyrnarlaust getur ekki haldið stjórnarfundi vegna þess að peningar eru ekki til fyrir táknmálstúlkun. Félagið getur því ekki beitt sér í helsta hagsmunamáli sínu, sem er að fá aukið fjármagn til túlkaþjónustu.

Fólk með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, sem áður var kallað daufblinda, þarf táknmálstúlka fyrir öll samskipti þar sem þeir hvorki sjá né heyra. Félagssjóður samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra hefur greitt fyrir táknmálstúlkun sem þetta fólk þarf í daglegu lífi, en sjóðurinn hefur verið tómur frá byrjun október. Snædís Rán Hjartardóttir, stjórnarmaður í Fjólu, félagi fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu segir alþingismenn hafa lítinn skilingin á þörfum fatlaðra. 

„Eins og ég upplifi það þá finnst mér þeir næstum því halda að fatlað fólk sé önnur dýrategund. Að það skipti ekki eins miklu máli og heilbrigt fólk. Bara aukaatriði sem hægt er að gera góðgjörðir með því að gefa þeim eitthvað sem þau svo segja takk fyrir kærlega, þetta breytti lífi mínu.“

Árlegu jólakaffi félagsins var aflýst þar sem ekki fengust peningar fyrir túlkaþjónustu. Á fundinum átti einnig að kynna hvaða leiðir séu færar þegar félagsmönnum er neitað um þjónustu. Félagsmenn hafa skrifað velferðarráðherra, félagsmálaráðherra og menntamálaráðherra vegna málsins – en engin svör fengið.