Skip to main content
Frétt

Dómsmáli vegna greiðsluskerðinga lífeyrissjóðs vísað frá.

By 13. febrúar 2014No Comments

Öryrkjabandalag Íslands aðstoðaði konu í tvígang sem fór í mál við Gildi, lífeyrissjóð. Síðara málinu hefur nú verið vísað frá.

Í desember 2009, fór konan í mál við Gildi, lífeyrissjóð, sem endaði með dómi Hæstaréttar þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að við útreikning á örorkulífeyrisgreiðslum konunnar væri sjóðnum heimilt að taka tillit til lífeyris- og bótagreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) sem greiddar eru samkvæmt lögum um almannatryggingar. 

Árið 2012 fór konan í annað mál og krafðist þess að sjóðnum væri óheimilt að draga frá lífeyrisgreiðslum til hennar bætur á grundvelli laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sem hún fær vegna mikils kostnaðar sem tengist hennar sjúkdómi og lágum tekjum.

Þrátt fyrir að seinna málið snerist um aðrar tegundir bóta en í fyrra málinu taldi Hæstiréttur engu að síður að með dómi í fyrra málinu hefði verið leyst úr ágreiningi konunnar og sjóðsins. Var málinu því vísað frá.

Dómsniðurstaðan eru mikil vonbrigði en málið snertir fjölmarga öryrkja sem eru í svipaðri stöðu. Hér er verið að réttlæta það að þeir lífeyrissjóðir sem skerða greiðslur til öryrkja vegna sérstakra bóta sem þeir fá frá TR geta haldið áfram á sömu braut en um er að ræða bætur sem greiddar eru til fólks með lágar tekjur og mikinn kostnað vegna sinnar fötlunar. 

ÖBÍ mun halda áfram í baráttunni að réttlátara og sanngjarnara samfélagi. Mikilvægur liður í því er að draga úr tekjutengingum sem halda fólki með fötlun í fátæktargildru. Sú vinna sem lögð var í ofangreint mál munu koma að notum í komandi baráttu og umræðu um að draga úr víxlverkun milli almannatrygginga og lífeyrissjóða.

Dómur Hæstaréttar í heild