Skip to main content
Frétt

EAPN á Íslandi

By 13. desember 2012No Comments

EAPN (European Anti Poverty Network) eru evrópsk samtök sem  berjast gegn fátækt og félagslegri einangrun. Sjá grein Þorberu Fjölnisdóttur um EAPN

EAPN (European Anti Poverty Network) eru evrópsk samtök sem stofnuð voru árið 1990 og eru mynduð af frjálsum félagasamtökum. EAPN er ekki hluti af Evrópusambandinu en nýtur stuðnings framkvæmdastjórnar þess.

MarkmiðÞorbera Fjölnisdóttir

Helstu markmið EAPN eru að berjast gegn fátækt og félagslegri einangrun og að verja hagsmuni þeirra sem búa við fátækt. EAPN lítur svo á að fátækt og félagsleg einangrun séu brot á grundvallar mannréttindum því fátækt gerir fólki ekki kleift að lifa með reisn. Orsakavaldar fátæktar er flókið samspil margra ólíkra þátta og því þarf að ráðast gegn þeim á breiðum grunni.

Virk þátttaka fólks sem lifir í fátækt er nauðsynleg svo hægt sé að finna ástæður fátæktar og félagslegrar einangrunar og um leið er stuðlað að valdeflingu þessara einstaklinga. Valdefling felst m.a. í að styrkja sjálfsmynd og félagslega vitund einstaklingsins þannig að viðkomandi finnist hann geta haft áhrif á aðstæður sínar.

Aðildarfélögin

Undirbúningur að stofnun EAPN á Íslandi hófst í ársbyrjun 2011. Vorum við formlega tekin inn í evrópusamtökin þ. 17. júní á aðalfundi þeirra í Lissabon og þ. 4. nóvember sama ár var fyrsti aðalfundur EAPN á Íslandi haldinn. Aðildarfélögin eru hjálparsamtök og hagsmunasamtök sem hafa það sem hluta af markmiðum sínum að vinna að málefnum fátækra. Þau eru Hjálparstarf kirkjunnar, Geðhjálp, Bót, Samhjálp, Félag einstæðra foreldra, Sjálfsbjörg, Kærleiksþjónusta kirkjunnar, Velferðarsjóður Suðurnesja, Hjálpræðisherinn og Öryrkjabandalag Íslands.

Starfið

Starf EAPN í hverju aðildarlandi er tvíþætt. Annars vegar er unnið á heimavelli, m.a. með því að reyna að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda og hins vegar taka meðlimir þátt í samstarfi aðildarlanda EAPN með það markmið að hafa áhrif á stefnu Evrópusambandsins.

Meðlimir EAPN á Íslandi hafa undanfarið unnið með fulltrúum frá Hjálparstarfi kirkjunnr, Rauða krossinum, velferðarvakt velferðarráðuneytisins, velferðarsviði og velferðarráði Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands að því að leita leiða til að bregðast við vanda þeirra sem búa við fátækt hér á landi. Var forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, afhent skýrsla hópsins Farsæld þann 17. október 2012, á alþjóðlegum baráttudegi gegn fátækt.

Á vettvangi Evrópu eigum við þrjá fasta fulltrúa. Einn í framkvæmdastjórn EAPN, annan í starfshópi sem hefur það markmið að ákvarða stefnu og lobbýisma bæði gagnvart ESB og stjórnvöldum aðildarlandanna (EU Inclusion Strategies Group) og þann þriðja í starfi þar sem fólk sem býr við fátækt kemur saman og vekur athygli á stöðu fátækra (People Experiencing Poverty). Auk þess sækja fulltrúar EAPN á Íslandi árlegar ráðstefnur á vegum samtakanna.

Fátækt hefur aukist í Evrópu undanfarin ár. Aðhaldsaðgerðir stjórnvalda í kjölfar kreppunnar hafa bitnað hart á þeim sem minnst höfðu fyrir svo staða þeirra hefur versnað til muna. Það á einnig við hér á landi. Með því að taka höndum saman og mynda EAPN á Íslandi verðum við sterkari og ekki veitir af styrknum því ærin verkefni eru framundan.

Þorbera Fjölnisdóttir, fulltrúi ÖBÍ í stjórn EAPN á Íslandi