Skip to main content
Frétt

Eftirlitsheimildir auknar hjá TR og skylt að sækja um í lífeyrissjóði

By 5. febrúar 2014No Comments

Lögin tóku gildi 1. febrúar. ÖBÍ mótmælti fyrirhuguðum eftirlitsheimildum í umsögn til nefndasviðs Alþingis í lok nóvember þegar málið var til umfjöllunar þar.

Alþingi hefur samþykkt breytingar á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra og tóku þau gildi 1. febrúar 2014.

Skylt að sækja um hjá lífeyrissjóðum áður en sótt er um hjá TR

Nýmæli í lögunum er m.a. að þeir sem hafa áunnið sér réttindi hjá lífeyrissjóðum þurfa að sækja um þau áður en sótt er um hjá Tryggingastofnun.

Aukið við upplýsingaskyldu til og eftirlitsheimild hjá TR

Jafnframt er kveðið á um auknar heimildir TR til eftirlits og viðurlaga og hnykkt á ýmsum ákvæðum stjórnsýslulaga. Eftirtaldar stofnanir, stjórnvöld og aðrir aðilar eru skyldugir til að veita TR upplýsingar svo unnt sé að framfylgja almannatryggingalögunum: Skattyfirvöld, Þjóðskrá Íslands, Innheimtustofnun sveitarfélaga, Fangelsismálastofnun, Útlendingastofnun, ríkislögreglustjóri, Samgöngustofa, lífeyrissjóðir, sjúkrastofnanir, dvalar- og hjúkrunarheimili, sveitarfélög, Lánasjóður Íslenskra námsmanna, viðurkenndar menntastofnanir innan hins almenna menntakerfis og skólar á háskólastigi. Þá skulu Tryggingastofnun og Sjúkratryggingar Íslands á sama hátt skiptast á upplýsingum um mat á örorku og öðrum nauðsynlegum upplýsingum.

Jafnframt er umsækjendum eða greiðsluþegum skylt að taka þátt í meðferð málsins meðal annars með því að koma til viðtals, ef óskað er, og veita TR þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð bóta og endurskoðun þeirra.

ÖBÍ mótmælti frumvarpinu með umsögn til Alþingis

Í umsögn ÖBÍ er margt gagnrýnt varðandi upplýsingskyldu og eftirlitsheimildir til handa TR, einnig er lögð áhersla á að TR auki sína leiðbeiningarskyldu. Varðandi þann liði segir meðal annars í umsögn ÖBÍ „Að mati ÖBÍ þarf TR að efla leiðbeiningarhlutverk sitt enn frekar og aðstoða fólk betur við tekjuáætlanir til að koma í veg fyrir kröfur vegna ofgreiðslu bóta, sbr. skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Tryggingastofnunar með bótagreiðslum.“ 

Varðandi upplýsingaskylduna er meðal annars bent á atrið sem snúa að upplýsingum um tekjur, upplýsingskyldu heilbrigðisstarfsfólks, fyrirtækja og stofnana og er þar bent á að nú þegar hafi TR mjög rúmar heimildir. Spurt er:

„Hvers vegna þarf stofnunin upplýsingar um virkni á vinnumarkaði, nám eða námslán eða fjárhagsaðstoð sveitarfélaga? TR fær upplýsingar um atvinnutekjur sem og aðrar skattskyldar tekjur í gegnum staðgreiðsluskrá, skattframtöl og tekjuáætlanir.   … Enn fremur fæst ekki séð hvers vegna nauðsynlegt teljist fyrir TR að afla upplýsinga um eignir. „

Varðandi eftirlit og viðurlög segir meðal annars um tillögu að heimild TR til að fresta greiðslum tímabundið meðan mál er rannsakað frekar.  „Þessi regla færir TR allt of mikið vald til þess að grípa inn í lífsviðurværi fólks. Hér telur ÖBÍ réttast að meðalhófs verði gætt, þannig að refsingu sé ekki beitt þar sem dómur hefur ekki verið felldur. Ekkert minna en rökstudd sönnun fyrir bótasvikum á að gera stjórnvaldi kleift að svipta fólk framfærslugreiðslum. Enda hefur slík aðgerð, sem byggð er á grun, mjög íþyngjandi áhrif á þá sem kunna að verða fyrir frestunarheimildinni.  …eru ekki sett nein tímamörk og þannig engin takmörk á því hversu lengi hún getur staðið yfir.“

Þá segir einnig að, „Í ákvæðinu segir að heimilt sé að afla upplýsinga frá þriðja aðila án þess að viðskiptavini stofnunarinnar, sem um ræðir, sé tilkynnt um slíkt. … Ekki ætti að beita reglunni nema að undangenginni lögreglurannsókn þar sem réttarstaða einstaklings hefur verið tryggð í samræmi við meginreglur sakamálaréttarfars.“

Tillögur ÖBÍ um fyrirkomulag hjá TR varðandi upplýsingaöflunar og greiðslu bóta

Í umsögninni bendir ÖBÍ á að eðlilegra væri að snúa við ábyrgðinni á því að bótaréttur sé virkjaður og skili einstaklingnum besta mögulega rétti. Í núgildandi lögum er kveðið á um ítarlega leiðbeiningarskyldu TR í aðra röndina en á sama tíma er bótaréttur allur bundinn því skilyrði að einstaklingurinn sjálfur sæki um öll möguleg réttindi. Þess í stað ætti einfaldlega að leggja þá skyldu á stofnunina að leysa úr máli einstaklingsins með þeim hætti sem hentar hans aðstæðum best. Margir viðskiptavinir TR eru ekki í stakk búnir að átta sig á flóknum reglum almannatryggingakerfisins og verða því oft af réttindum. Hjá TR starfa sérfræðingar sem þekkja almannatryggingakerfið og eiga að geta fundið út bestu mögulegu réttindi hvers og eins.

Tillaga ÖBÍ að mögulegri framkvæmd er svo hljóðandi:

„Viðskiptavinur sem kemur fyrst til TR fyllir út þar til gert eyðublað þar sem hann tekur fram öll þau atriði sem máli geta skipt (s.s. tekjur, fjölskylduhagir, fjöldi barna, þörf á hjálpartækjum, lyfjum, bifreið o.s.frv.). Í framhaldinu myndu sérfræðingar TR fara yfir öll möguleg réttindi viðkomandi og virkja viðeigandi réttindi.  Þannig væri t.d. óþarfi að sækja um barnalífeyri, uppbót vegna lyfjakostnaðar o.fl. Komi í ljós að ekki hefur verið sótt um allar þær bætur eða þau réttindi sem einstaklingur á rétt á, þá væri sanngjarnast að TR greiddi einstaklingnum, afturvirkt, þær bætur sem hann varð af. Réttast væri að þær afturvirku greiðslur bæru einnig vexti.“