Skip to main content
Frétt

Ég er engin Jakobína

By 2. nóvember 2015No Comments
Ellen Calmon hefur vakið athygli í starfi sínu sem formaður Öryrkjabandalags Íslands á síðustu tveimur árum. Hún hefur lagt áherslu á meiri baráttugleði, lausnamiðaða og litríka baráttu fyrir jafnrétti í samfélaginu. Hún hefur sjálf mætt fordómum vegna erlends uppruna síns; hún á franskan föður en er fædd og uppalin á Íslandi. Hefur kveðið við nýjan tón hjá bandalaginu undir forystu hennar, sem virðist hafa fallið í kramið en hún hlaut góða kosningu í endurkjöri fyrr í mánuðinum.

Ellen bjó í Vesturbænum áður en hún flutti í Breiðholtið þar sem hún ólst upp ásamt foreldrum og yngri systur, Katrínu Rós. Móðir hennar heitir Guðbjörg Hulda Árnadóttir og er stuðningsfulltrúi í Fellaskóla en faðir hennar er Eric Paul Calmon, sem lengst af rak fyrirtækið Íslenskt-franskt eldhús en starfar nú sem yfirmaður mötuneytis í Vatnsendaskóla í Kópavogi.

Millinafnið flæktist fyrir henni

Faðir hennar er franskur og sjálf ber hún millinafnið Jacqueline. Hún notar það ekki lengur en nafnið var farið að flækjast fyrir henni og hún varð fyrir fordómum vegna þess. „Ég varð fyrir þeirri reynslu að vera spurð: Getur þú skrifað góða íslensku,“ segir hún hægt og skýrt og hermir eftir því hvernig þetta hefur verið sagt við hana.

„Ég fékk ekki íslenskan ríkisborgararétt fyrr en ég var 21 árs og það var eftir að LÍN neitaði mér um námslán vegna þess að þá voru reglurnar þannig,“ segir Ellen sem er samt fædd og uppalin hérlendis.

„Ég var upprunalega franskur ríkisborgari en á þeim tíma var barnið látið fylgja ríkisborgararétti föðurins. Þegar mér var svo neitað um námslán þá styrkti yndislega amma mín og nafna Daníelsdóttir mig til náms það árið og í framhaldinu sótti ég um íslenskan ríkisborgararétt,“ segir Ellen en henni hafði verið boðið að sækja um íslenskan ríkisborgararétt þegar hún varð 16 ára. „En þá var mér boðið að breyta nafninu mínu. Það var stungið uppá því að ég myndi heita Ellen Jakobína Karlsdóttir. Ég svaraði: „Pabbi minn heitir ekki Karl, hann heitir Eric Paul.“ Hvað segirðu þá með Eiríksdóttir? Ég sagði: „Nei og ég er engin Jakobína.“ Þess vegna afþakkaði ég íslenskan ríkisborgararétt á þeim tíma. En lögin hafa nú breyst síðan þá.“

Ellen hefur upplifað fordóma vegna erlends nafns síns. Eitt sinn þegar hún sótti um starf þurfti hún að skila inn lokaritgerðinni sinni til að sanna íslenskufærni sína, þrátt fyrir að vera menntaður kennari og útskrifuð úr Kennaraháskólanum.

„Mér fannst millinafn mitt því miður vera að flækjast fyrir fólki og þess vegna hef ég ekki notast við það opinberlega,“ segir Ellen, sem heitir í höfuðið á báðum ömmum sínum.

Hún hefur nú búið til nýja alþjóðlega fjölskyldu en maður hennar er sænskur og er flugvirki. Hann heitir Karl Johan Tegelblom og saman eiga þau soninn Felix Hugo, sem er fjögurra ára síðan í sumar. Nafnið völdu þau þannig að það gengi í fleiri en einu landi. Hann ber síðan bæði eftirnöfnin Calmon og Tegelblom. „Hann getur bara valið þegar hann verður stærri hvað hann vill nota af þessu öllu saman. Hann hefur að minnsta kosti úr nógu að velja.“

Ellen gekk í Seljaskóla, fór síðan á tungumálabraut í Kvennaskólanum og þaðan í Háskólann á Akureyri. „Mig langaði til að flytja að heiman og fannst Akureyri spennandi staður til að búa á. Það var æðislega gaman en ég kláraði ekki þar heldur skipti yfir í Kennaraháskóla Íslands til að vera nær þáverandi kærasta,“ segir Ellen.

„Ég skrifaði lokaritgerðina mína um ADHD ásamt Soffíu Frímannsdóttur vinkonu minni sem er í raun og veru ástæðan fyrir því hvar ég er í dag. Ég held ég hafi almennt alltaf verið alveg frá því í grunnskóla samfélagslega þenkjandi. Ég fann fyrir ákveðnum fordómum í æsku bara fyrir það að eiga útlenskan pabba, sem var dökkur yfirlitum og skar sig úr,“ segir hún en samfélagið var einsleitara á þessum tíma.

„Mér var strítt í skóla og ég var uppnefnd bara fyrir það að vera hálf-frönsk. Þá fór ég að velta fyrir mér hugmyndum á borð við að allir hafi sama rétt, alveg sama hver þú ert, hvernig þú lítur út, hvaðan þú kemur eða hvað þér finnst,“ segir hún sem fór eftir menntaskóla að vinna á leikskólanum Grænuborg þar sem hún fékk það hlutverk að vera stuðningsaðili tveggja stráka með ADHD.

„Þá fer ég að velta fyrir mér röskunum og stöðu barna með fötlun, sem er síðan eitthvað sem ég kynnist meira í náminu og þegar ég varð stuðningsfulltrúi fyrir einstaklinga með sérþarfir.“

Ritari þriggja borgarstjóra

Eftir að hafa starfað sem flugfreyja hjá Air Atlanta í þrjú ár, hóf hún störf í Ráðhúsi Reykjavíkur sem ritari borgarstjóra. „Þórólfur Árnason réð mig en svo kom Steinunn Valdís og það var dásamlegt að vinna með þeim og mjög góð reynsla. Þá starfaði ég einnig með Vilhjálmi en skipti fljótlega um starfsvettvang innan borgarinnar. Þá kviknar áhugi minn á stjórnsýslu og ég fór í meistaranám í opinberri stjórnsýslu með vinnu. Ég kynntist stjórnsýslunni vel og borgarkerfinu ekki síst. Síðan verð ég verkefnastjóri hjá Þjónustu- og rekstrarsviði borgarinnar. Þá hafði ég umsjón með starfs- og fjárhagsáætlun allra þjónustumiðstöðva borgarinnar. Það eru þær sem hafa mest með þjónustu við fatlað fólk að gera í dag. Þjónustumiðstöðvarnar voru nýstofnaðar og því var þetta stórt verkefni og upplýsandi. Þaðan fer ég til Seltjarnarnesbæjar og starfa sem fræðslu- og menningarfulltrúi þar,“ segir Ellen sem hefur komið víða við.

Barneignir létu standa á sér. „Við vorum búin að reyna að eignast barn lengi. Ég er með heilkenni sem gerir það að verkum að ég get ekki eignast barn eftir náttúrulegum leiðum. Við fórum í glasafrjóvgun og svo aðra smásjárfrjóvgun 2010 og þá var lukkan með okkur og Felix Hugo var á leiðinni,“ segir Ellen sem hætti störfum um þær mundir og einbeitti sér að barneignum. „Þegar ég var komin fimm mánuði á leið var ég tilbúin að skoða vinnumálin á ný og var ráðin sem framkvæmdastjóri hjá ADHD-samtökunum í 50% starfi,“ segir hún en síðar varð það að fullu starfi.

Vantaði uppá baráttugleðina

Í gegnum starfið kynnist hún ÖBÍ og verður fulltrúi samtakanna inni í aðalstjórn Öryrkjabandalagsins og fer síðan inn í framkvæmdastjórn. „Mér fannst hafa verið deyfð yfir bandalaginu. Mér fannst hafa verið einsleitur tónn sem helgaðist af kröfugerð. Mér fannst ekki horft nógu mikið til þeirra fjölbreyttu félaga sem eiga aðild að bandalaginu,“ segir hún en félögin voru þá um 35 talsins en eru nú 41.

„Mér fannst þurfa að sýna fram á þennan fjölbreytileika og mér fannst vanta uppá baráttugleðina. Mér fannst fundirnir okkar erfiðir og þungir. Ég vildi fá meiri gleði og meiri liti og sýna fram á meiri fjölbreytileika. Ég fór þá fram á móti forvera mínum, honum Guðmundi Magnússyni, sem er afskaplega vandaður maður,“ segir Ellen sem var kosin formaður með litlum mun fyrir tveimur árum.

„Ég er gríðarlega þakklát fyrir það og þessi tvö ár mín hafa ekki síst helgast af því að fá sem flesta til liðs við ÖBÍ, að þjappa fólki saman og þétta raðirnar. Ég hef heimsótt nánast öll félögin og átt gott spjall með þeim. Ég hef lagt áherslu á að þeim sé alltaf velkomið að leita til mín. Ég er alltaf tilbúin að aðstoða þau að koma málefnum þeirra á framfæri. Ég hef lagt mikið uppúr samræðu, innan bandalagsins, félaganna á milli og ekki síst samræðu við stjórnvöld. Mér finnst það gríðarlega mikilvægt. Mér fannst umræðan einsleit og ekki nógu uppbyggileg. Það var nóg um gagnrýni en það vantaði tillögur. Ég hef lagt upp með í öllu því sem við sendum frá okkur að leggja fram tillögur að lausnum. Ef hlutirnir eru einhvern veginn öðruvísi en við viljum hafa, getum við alltaf sagt hvernig við viljum að þeir séu,“ segir hún og útskýrir nánar.

„Ég tel það nánast lögbundið hlutverk Öryrkjabandalagsins að vinna umsagnir um frumvörp og jafnvel tillögur, um allt sem okkur sérstaklega varðar. En um leið og ég segi það þá segi ég: allt sem gerist í samfélaginu varðar okkur. Það er oft þannig að fatlað fólk er boðað til fundar þegar það á að ræða velferðarmál en það er ekki boðað þegar á að ræða gatnagerð. Það er alltaf verið að tala um mikilvægi þess að setja upp kynjagleraugun en það er ekki síður mikilvægt að setja upp fötlunargleraugun. Ef þú skoðar umhverfið, hvort sem um er að ræða þjónustu eða mannvirki, með fötlunargleraugum þá sérðu allt í nýju ljósi.“

Fjórskipt starfsgetumat og ný sameinuð stofnun

Stærsta verkefni ÖBÍ síðustu ár er skýrslan Virkt samfélag. Skýrslan inniheldur tillögur ÖBÍ að heildstæðu kerfi starfsgetumats og framfærslu á grundvelli þess. Upphafið að henni var þegar Ellen ásamt Klöru Geirsdóttur frá CP-félaginu tók sæti í nefnd sem fjallar um endurskoðun laga um almannatryggingar. Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður ÖBÍ, hefur nú tekið sæti Ellenar í nefndinni. „Markmið þeirrar nefndar var meðal annars að koma á starfsgetumati í stað örorkumats, sem er jákvætt að því leyti til að það er verið að horfa til getu en ekki vangetu. Við fundum fljótt að þær tillögur sem lagðar voru fram hentuðu ekki fólkinu best heldur mögulega kerfinu best. Þá ákváðum við að snúa vörn í sókn og skrifa okkar eigið kerfi um starfsgetumat og greiðslur á grundvelli þess. Við setjum líka fram í skýrslunni tillögur sem eru í raun og veru ekki til umfjöllunar í þessari nefnd sem fjalla um sameiningu Tryggingastofnunar Ríkisins, Sjúkratrygginga Íslands og Vinnumálastofnunar í eina stofnun,“ segir hún en þessi nýja stofnun fengi heitið Vinnu- og velferðarstofnum og yrði notendum til hagsbóta þannig að hægt væri að leita á einn stað eftir þjónustu og sameiningin ætti einnig að vera sparnaður fyrir kerfið.

Fyrir utan þessa sameiningu er annar stærsti þátturinn í skýrslunni að starfsgetumat verði þrepað í fjögur þrep. Þrepin yrðu: A flokkur, 0-25%, lítil sem engin starfsgeta og fullar greiðslur, B flokkur 26-50%, verulega skert starfsgeta og 75% hlutfall greiðslna, C flokkur 51-75%, nokkur starfsgeta og 50% greiðslna, D flokkur, 76-100%, viðunandi starfsgeta og engar greiðslur en viðkomandi hefði rétt til afsláttarkorts örorkulífeyrisþega.

Þriðji stóri þátturinn í skýrslunni er krafan um að grunnframfærsla verði 309.000 krónur. Ellen segir þetta uppreiknaða kjaragliðnum og þessi tala hafi komið fram áður en Starfsgreinasambandið hafi komið með 300.000 króna kröfu um lægstu laun.

Fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna mikilvæg

Margir hafa eflaust tekið eftir herferðinni sem nú er í gangi hjá Öryrkjabandalaginu þar sem skemmtileg myndbönd vekja fólk til umhugsunar um stöðu fatlaðs fólks og er fólk hvatt til þess að skrifa undir áskorun til stjórnvalda þess efnis að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Undirskriftasöfnunin fer fram á vefnum obi.is.

Öll baráttumál bandalagsins rúmast undir þessum samningi.

„Mér finnst einna mikilvægast að fá samfélagið með okkur. Samfélagið, það eru kjósendur, það eru þeir sem velja hvernig samfélagi þeir vilja búa í. Lyf, lyfjakostnaður, hjálpartæki, aðgengi, menntun og atvinnutækifæri; þetta rúmast allt undir samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Fullgilding er fyrsta skrefið og lögfesting er síðan næsta skref sem við horfum til. Við byrjum á þessu því maður verður að byrja einhvers staðar. Ég tel það gríðarlega mikilvægt að vekja athygli almennings á samningnum enda hefur hann djúpa þýðingu fyrir fatlað fólk, örorkulífeyrisþega, langveikt fólk og aðstandendur þeirra. Aðstandendur þurfa ekki síður á réttindum að halda.“

Vill taka upp aðstandendadaga

Hún rifjar upp þegar hún fór á ráðstefnu í Svíþjóð, sem kallaðist „Vinnan í gegnum lífið“. „Vinnan fylgir þér í gegnum fæðingu barns, ástvinamissi, tímabundinn heilsubrest og svo framvegis. Þú þarft alltaf að sækja vinnuna þína og það þarf að vera ákveðinn sveigjanleiki á vinnustaðnum. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir fatlað fólk að geta stundað hlutastörf. Það er ekki síður mikilvægt fyrir aðstandendur að það sé sveigjanleiki á vinnustað,“ segir hún og rifjar upp þegar hún bjó þá einhleyp og starfandi kennari með aldraðri ömmu sinni. „Amma varð einu sinni ofsalega lasin og ég hafði engin tækifæri til að vera heima hjá henni heldur hljóp heim í frímínútum að tékka á henni og veita henni ákveðna þjónustu,“ segir hún og bendir á að ástand sem þetta geti verið virkilega bagalegt.

„Ég vil leggja til rétt á aðstandendadögum. Ég er ekki að tala um að það þurfi að rýmka veikindarétt heldur að aðstandendadagar verði hluti af þínum veikindarétti og þú getir þá ráðstafað þeim ef einhver nákominn þarf á þér að halda. Þá er það ekki undir hælinn lagt hvernig yfirmann þú sért með upp á að fá að sinna veikri ömmu,“ segir hún.

„Skilningur á vinnustað skiptir miklu máli. Þegar ég komst að því að ég gæti ekki eignast barn eftir náttúrulegum leiðum hafði það mikil áhrif á mig og ég varð afskaplega döpur og leið verulega illa. Ég sýndi ekki sömu starfsgetu í vinnunni og áður,“ segir Ellen, sem fékk ekki stuðning á vinnustaðnum frá yfirmanni sínum. Hann sagði: „Þú verður bara að hysja upp um þig buxurnar og halda áfram.“ Hún segir að þetta hafi haft áhrif á sig. „Þetta stuðaði mig svakalega og samband mitt við þennan yfirmann varð aldrei eins, því hann stráði salti í sárin. Þetta var vond upplifun, höfnun og enginn stuðningur. Það er mikilvægt fyrir vinnuveitendur að gera sér grein fyrir því þegar fólk er að ganga í gegnum eitthvað í lífinu og veita starfsfólkinu stuðning. Stundum er þetta bara spurning um styðjandi samtal. Ef þessi yfirmaður hefði tekið öðruvísi á móti mér í þessu ástandi eða bent mér á annan hátt á þetta hefði ég eflaust fyrr farið að sýna sömu getu og áður sem ég gerði svo að sjálfsögðu að lokum.“

Vinnan er í gegnum lífið, segir hún og „fólk er allskonar og það lendir í allskonar. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að fólk hafi rétt á því að taka einhverja daga á ári til að sinna sínu aðstandendahlutverki ef það þarf,“ segir hún og bendir til dæmis á að það sé mikið álag á fólki sem sé komið á þann aldur að það þarf að styðja við foreldri sem hefur ef til vill þörf á að komast á hjúkrunarheimili. Í kringum það sé mikil vinna og foreldrið þurfi stuðning. „Í þessum aðstæðum er gott að starfsfólk njóti skilnings,“ segir Ellen sem hefur ekki áhyggjur af því að fólk misnoti þetta frekar en aðra veikindadaga. „Við þurfum að treysta fólki og samband vinnuveitanda og starfsfólks þarf að vera þannig að hann viti hvað sé í gangi í einkalífinu ef það hefur áhrif á starfið,“ segir hún.

„Það hefur auðvitað djúpstæð áhrif á fólk þegar það eru alvarleg veikindi í fjölskyldu. En um leið og ég segi að fólk eigi að eiga einhvern hluta af veikindaleyfi sínu til að sinna aðstandendahlutverkinu segi ég að sama skapi að kerfið eigi að sjálfsögðu að vera fyrsti aðstandandi.“

Hún minnist ennfremur þess þegar hún mætti skilningsleysi í námi. „Ég var með enskukennara, karlmann, þegar ég var í Kennaraháskólanum. Ég varð svo veik í náminu, var með æxli í eggjastokknum og þurfti að fara í bráðaaðgerð. Þá segir hann við mig eftir að ég hafði ekki skilað einhverjum verkefnum. „Þú kemur ekki með þín persónulegu mál inn í skólann. Ég skil mín persónulegu mál eftir heima.““

Hún segir að það hafi verið erfitt að mæta þessu viðhorfi, þessari framkomu og skilningsleysi, hjá kennaranum og yfirmanninum, og því finnist henni erfitt að gleyma.

Fæ ég vinnu?

Hún segir að eitt af því sem þurfi að horfa til á vinnumarkaði sé að hann geti tekið á móti fólki með skerta starfsgetu. „Við erum nýkomin af stað með ungliðahreyfingu Öryrkjabandalagsins og það eru ótrúlega öflugir einstaklingar þar inni. Eitt af stærstu áhyggjuefnunum hjá þeim er: Fæ ég vinnu? Sumstaðar er það líka hvort þau geti stundað það nám sem þau vilja eins og í Listaháskólanum sem er ekki aðgengilegur fyrir alla,“ segir Ellen og bætir við að það vanti hlutastörf.

„Það er mikill skortur á hlutastörfum fyrir fólk með skerta starfsgetu. Þegar við erum að tala um hlutastörf erum við ekki endilega að tala um 50% starfshlutfall eða ákveðna daga í viku. Hlutastörf geta verið líka táknað sveigjanlegan vinnutíma, þau geta líka verið þannig að þú vinnir þrjá mánuði á ári. Fólk með geðraskanir getur kannski unnið alltaf, fyrir utan tvo mánuði á ári. Er hægt að koma til móts við það?“ segir hún en það er eitthvað sem atvinnulífið þarf að svara.

„Mannauðsstjórnunarfræðin segja okkur að þú færð mesta vinnuframlagið frá fólki í hlutastörfum. Sá sem er ráðinn í 40% stöðu vinnur yfirleitt sín 40% og kannski örlítið meira.“

Frá því að þú tókst við – er eitthvað sem hefur verið erfiðara en þú hélst eða komið á óvart?

„Ég viðurkenni alveg að þetta var eins og að hlaupa á loftdýnu. Ég lenti hlaupandi og áttaði mig svo á því að formaður Öryrkjabandalagsins ræður bara engu! Þetta er risastórt bandalag. Nú erum við komin með 41 aðildarfélag. Þegar þau voru 37 voru 29.000 manns félagar eða um 9% þjóðarinnar í bandalaginu,“ segir hún.

„Þetta er félagsstarf þannig að félagarnir eru margir og mjög áhugasamir. Það er mikilvægt fyrir formann að ræða við grasrótina fyrst og leita samþykkis áður en hugmyndir eða ákvarðanir fara í opinbera umfjöllun. Ég viðurkenni að stundum reynir á þolinmæðina.“

Ekki lengur aðeins bandalag öryrkja

Hún segir nafn bandalagsins á margan hátt misvísandi. „Það eru ekki næstum allir í félaginu öryrkjar. Öryrkjar eru skráðir um 17.000 hjá Tryggingastofnun ríkisins en í bandalaginu eru 29.000 manns. Við erum í raun ekki öryrkjabandalag lengur. Við erum bandalag fatlaðs fólks, örorkulífeyrisþega, langveikra og aðstandenda þeirra.“

Hún segir að það hafi tekið lengri tíma að ná fram breytingum heldur en hún bjóst við. „Það var það sem mér þótti erfiðast í upphafi. Það tekur langan tíma að fá samþykki fyrir einhverju sem maður vill leggja áherslu á. Jafnvel fer það líka þannig að maður fær ekki samþykki fyrir því sem maður vill leggja áherslu á. Það er auðvitað lýðræðið sem gildir hér.

Ég segi stundum að ég væri búin að gera helmingi meira ef hlutirnir gengju almennt hraðara fyrir sig,“ segir hún en í þeim tilgangi var skipulagi bandalagsins breytt á síðasta aðalfundi.

„Við verðum með fimm málefnahópa. Það er leið til að koma fleiri málum á dagskrá. Það er líka ákveðin valddreifing sem felst í því.“

Áður var aðalstjórn sem í var einn fulltrúi frá hverju félagi en núna er stjórnin sérstaklega kjörin og telur 19 manns. Þessir aðilar hafa þá sóst sérstaklega eftir því að vinna með okkur, eru tilbúnir og hafa tíma og það er svo frábært.“

Þetta skiptir allt öllu

Hún segir málefnahópana endurspegla breiddina í félaginu en þeir taka fyrir kjaramál, aðgengi, heilbrigðismál, atvinnu- og menntamál og sjálfstætt líf.

„Það er mikilvægt að horfa á breiddina. Sumir segja: Kjaramálin skipta öllu, aðrir segja að aðgengismálin skipti öllu eða lyfin skipti öllu. Ég segi bara, þetta skiptir allt öllu. Öll málefnin sem við erum að taka fyrir fjalla um líf fólks, lífsskilyrði, lífskjör, lífsánægju, réttindi og sjálfstæði. Við erum alltaf með risastórar spurningar. Ef þú hefur ekki næg laun til að framfleyta þér áttu mögulega ekki efni á þeim lyfjum eða þjálfun sem þú þarft á að halda og ef þú færð ekki þau lyf og þá þjálfun sem þú þarft þá kannski bara deyrðu.“

Hún segir kerfið stundum ógegnsætt og órökrétt. „Þú færð ókeypis hjálpartæki til að pissa en þú færð ekki ókeypis hjálpartæki til að kúka. Þú borgar fyrir þau þannig að það kostar að kúka en er ókeypis að pissa. Það eru allskonar svona dæmi til. Það er mismunandi þjónusta eftir fötlunarhópum en við eigum alltaf að horfa á hvar hlutirnir eru best gerðir og færa okkur þangað.“

Höfum við efni á þessu? „Já, við eigum alveg að hafa efni á þessu. Við höfum séð það reiknað út oftar en einu sinni að aukin virkni meðborgara er fjárhagslega og félagslega hagkvæm fyrir samfélagið. Ef fólk fær þá stuðningsþjónustu og hjálpartæki sem það þarf er það mun líklegra til að geta tekið þátt. Þátttaka er ekki alltaf bara að stunda vinnu. Þátttaka er líka að vera virk amma. Þátttaka er líka að vera virkur í saumaklúbbi eða umræðuhópi. Það borgar alltaf til baka. Virk amma er kannski að passa barnabörnin. Virk þátttaka borgar sig. Það að styðja fatlað fólk og veita þá þjónustu sem þarf borgar sig. Og fyrir utan það að það eru allir hamingjusamari og hamingjusamt samfélag hlýtur líka að skila sér í auknum arði.“

Aukin jákvæðni og meira samtal

Hvernig leggjast næstu tvö ár í þig?

„Mjög vel, það eru skemmtilegir og spennandi tímar framundan. Við komum til með að slá taktinn aðeins hraðar. Þrýstingurinn verður meiri á stjórnvöld, núna eru þau að renna á síðari hluta kjörtímabilsins og mér finnst það algjörlega ótrúlegt ef þau ætla ekki að vera búin að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þegar gengið verður til kosninga, eða að þau ætli ekki að hækka örorkulífeyrinn að minnsta kosti uppí 300.000 krónur sem fyrst, eins og lágmarkslaun. Að þau ætli ekki að uppfylla algilda hönnun í byggingareglugerð í öllu húsnæði sem á að byggja. Það eru fjölmörg atriði sem við munum koma til með að auka þrýsting á og hann verður aukinn með þessum málefnahópum. Síðan hlakka ég bara til að starfa með þessu frábæra fólki sem er hérna. Það skiptir mig miklu máli að vera að vinna að samfélagsmálum, betra samfélagi fyrir alla.“

Margar byltingar hafa átt sér stað á netinu að undanförnu, nú síðast #égerekkitabú. Hefur þetta áhrif á viðhorfið í samfélaginu til ykkar?

„Það gerir það, mér finnst við mæta aukinni jákvæðni. Stjórnmálaflokkar leita mikið til okkar og við höfum verið á mörgum landsfundum. Við eigum fleiri samtöl en áður. Mér finnst almennt viðhorfið í samfélaginu vera á leið í rétta átt. Ég held að allir hljóti að vilja búa í samfélagi þar sem mannréttindi fatlaðs fólks séu virt.“