Skip to main content
Frétt

Eitt kerfi fyrir alla?

By 14. október 2008No Comments
Öryrkjabandalag Íslands í samstarfi við Heilbrigðisráðuneytið stóðu fyrir málþingi þann 2. október sl. að Hótel Nordica, sem bar yfirskriftina Eitt kerfi fyrir alla? – Greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu.

Um kynningu á störfum nefndar sem heilbrigðisráðherra skipaði í nóvember 2007 var að ræða. Í skipunarbréfi var nefndinni falið að; „gera tillögu að réttlátari, einfaldari og gagnsærri þátttöku einstaklinga í kostnaði vegna lyfja og annarar heilbrigðisþjónustu með það að leiðarljósi að verja einstaklinga gegn of háum kostnaði“. Pétur H. Blöndal og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir voru skipuð til að stýra starfinu. Fulltrúi ÖBÍ í nefndinni er Sigríður Jóhannsdóttir, formaður Samtaka sykursjúkra.

Framsögu höfðu Reynir Jónsson, Sjúkratryggingum Íslands, Ingunn Björnsdóttir, sérfræðingur nefndarinnar, Ásta R. Jóhannesdóttir, alþingismaður og Pétur H. Blöndal, alþingismaður.

Í pallborði voru Sigríður Jóhannsdóttir, formaður Samtaka sykursjúkra, Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi Öryrkjabandalags Íslands, Emil Thoroddsen, framkvæmdastjóri Gigtarfélags Íslands, Sveinn Magnússon, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, Pétur H. Blöndal, alþingismaður, Ásta R. Jóhannesdóttir, alþingismaður og Ögmundur Jónasson, alþingismaður.

Í framsöguerindum kom meðal annars fram að greiðslur almannatrygginga fyrir heilbrigðisþjónustu eru flóknar, ógagnsæjar og torskildar almenningi jafnt sem sérfræðingum í regluverkinu. Dæmi eru um að ógerningur sé að útskýra af hverju sjúklingar þurfa að borga eða ekki borga. Einnig er ekki sama hvar sjúklingar fá meðhöndlun og sjúklingum virðist mismunað hvað niðurgreiðslur varðar eftir sjúkdómum t.d. varðandi lyfjakostnað. Fjölskyldur og einstaklingar greiða umtalsverðar fjárhæðir, jafnvel hundruð þúsunda á ári fyrir sína heilbrigðisþjónustu.

Fram kom að nefndin mun á næstu vikum skilgreina ítarlega hvernig málum verður háttað í framtíðinni. Þar verður í mörgu horft til norðurlandanna við samsetningu nýs kerfis, sem stefnt er á að verði einfaldara og gegnsærra. Stefnt var að því að nýtt kerfi gæti tekið gildi 1. janúar næst komandi.

Með nefndinni hefur Ingunn Björnsdóttir doktor í lyfjafræði unnið tímabundið að einstökum verkefnum jafnframt því að vinna að skipulagningu þessa málþings með Öryrkjabandalaginu.

Glærur fyrirlesara (pdf-skjöl):

Greiðslur almennings á Íslandi í dag. Reynir Jónsson, Sjúkratryggingum Íslands

Greiðsluskipting á Norðurlöndum. Ingunn Björnsdóttir, sérfræðingur nefndarinnar

Markmiðin með kerfisbreytingunum. Ásta R. Jóhannesdóttir, alþingismaður

Hvernig verður kerfinu breytt? Pétur H. Blöndal, alþingismaður

Málþingið má sjá í heild á vef Háskólans á Akureyri (opnast í Windows Media Player)

Ræða Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðisráðherra