Skip to main content
Frétt

Eitt samfélag fyrir alla?

By 17. nóvember 2010No Comments
Nýlega kom út skýrslan Lífskjör og hagir öryrkja sem Guðrún Hannesdóttir félagsfræðingur hefur tekið saman fyrir Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ).

Skýrslan byggir á niðurstöðum könnunar sem Félagsvísindastofnun framkvæmdi í samvinnu við Þjóðmálastofnun. Um er að ræða 1500 manna tilviljunarúrtak úr skrá örorkulífeyrisþega og af skrá endurhæfingarlífeyrisþega. Fjöldinn jafngildir 10% þeirra sem voru á þessum skrám Tryggingastofnunar á þeim tíma sem könnunin var gerð, eða frá september 2008 til janúar 2009. Svarhlutfallið var tæplega 60%.

Á blaðamannafundi sem haldinn var til að kynna skýrsluna, kom fram að í henni er dregin upp fjölþætt mynd til að lýsa högum öryrkja, enda um fjölbreytilegan hóp fólks að ræða.

Einangrun og fordómar

Áhersla var lögð á að lífskjör öryrkja verði ekki eingöngu metin útfrá efnahagslegum þáttum heldur komi þar ýmislegt annað til. Skýrsluhöfundur sagði skýrsluna leiða í ljós að öryrkjar búi gjarnan við félagslega einangrun og fordóma, sem leiði til verulegrar skerðingar á lífskjörum þeirra. Í skýrslunni kemur fram að tæpur helmingur svarenda finnur fyrir fordómum vegna fötlunar sinnar eða örorku. Konur verða frekar varar við fordóma í sinn garð heldur en karlar. Fólk virðist einnig fremur hafa fordóma í garð barnafólks heldur en þeirra sem barnlausir eru.

Aldur og atvinnuþátttaka

Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar eru 78% öryrkja komnir yfir fertugt. Meðal þess sem fram kemur þegar kynin eru borin saman er að aldur karla við örorkumat er að meðaltali lægri en aldur kvenna.
Meginþorri öryrkja eða 96% þeirra, hafa verið útivinnandi áður en til örorkumats kom. Algengt er að síðasta launaða starf áður en til örorkumatsins kom, hafi verið ósérhæft afgreiðslu-, þjónustu- eða verkamannastarf.

Í kringum 28% svarenda höfðu verið í einhverri launaðri vinnu síðasta hálfa árið en rúmur fimmtungur voru í launaðri vinnu þegar könnunin fór fram. Til samanburðar má geta þess að atvinnuþátttaka hér á landi var 83,3% á þriðja ársfjórðungi ársins 2008.

Í þessu samhengi tók Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ fram að það sé í raun afar mismunandi hvernig örorku fólks sé háttað. Í mörgum tilfellum sé dagamunur á fólki en á vinnumarkaði sé ekki gert ráð fyrir starfsfólki sem getur unnið suma daga en aðra ekki. Fólk veigri sér því við að fara út á vinnumarkaðinn. Guðmundur sagði að fólk héldi frekar í það sem það hefði því það vissi ekki hvað það fengi í staðinn.

Fátækt

Niðurstöður könnunarinnar leiða í ljós að margir öryrkjar búa við kröpp kjör. Tæpur helmingur svarenda var ósáttur við fjárhagslega afkomu sína og kvaðst hafa átt í erfiðleikum með að láta enda ná saman síðastliðna 12 mánuði, enda tekjurnar lágar.

Húsnæðismál

Meirihluti öryrkja býr í fjölbýlishúsi. Tæplega fjórðungur öryrkja býr í leiguhúsnæði en rúmlega helmingur þeirra sem leigja býr í félagslegu húsnæði eða húsnæði á vegum Brynju, hússjóðs ÖBÍ. Um 7% öryrkja býr hjá ættingjum eða við ótilgreinda húsnæðisstöðu.

Menntun

Hlutfallslega fleiri karlar hafa að baki starfsnám eða iðnnám en hlutfallslega fleiri konur hafa aðeins lokið skyldunámi. Fleiri konur hafa stundað bóklegt nám og háskólanám. Þegar skoðaðar eru heildartölur kemur í ljós að 8% svarenda eru með háskólamenntun. Til samanburðar má geta þess að 30% af heildarfjölda þeirra sem búa hér á landi eru háskólamenntaðir.
Rúmlega 70% öryrkja hafa ekki lokið námi á framhaldsskólastigi áður en þeir hlutu örorkumat. Guðrún Hannesdóttir gat þess við kynningu á skýrslunni að menntunarstigið væri lykilþáttur. Hún sagði mögulegt að draga þá ályktun að fólk sem sinni láglaunastörfum sem ekki krefjast sérmenntunar, búi við skerta vinnuvernd.

Fáir hljóta starfsendurhæfingu og þjálfun

Fáir öryrkjar hafa hlotið starfsendurhæfingu eða starfsþjálfun. Karlar eru þó líklegri til að hafa hlotið slíka þjálfun. Meirihluti svarenda kváðust myndu þiggja endurhæfingu ef hún stæði þeim til boða.
Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ vakti sérstaka athygli á Hringsjá í þessu sambandi, sem er náms- og starfsendurhæfing. Hringsjá er ætluð fólki sem vegna sjúkdóma, slysa, fötlunar eða annarra áfalla þurfa á endurhæfingu að halda til að takast á við nám og/eða stunda atvinnu á almennum vinnumarkaði. Námið þykir einnig henta þeim sem hafa litla grunnmenntun
eða eiga við sértæka námserfiðleika að etja. Þrátt fyrir það kom fram að Hringsjá getur eingöngu sinnt brotabroti af þeim nemendum sem sækja um, þar sem þeim er þröngur stakkur búinn fjárhagslega.

Staða kvenna og karla ólík

Algengast er að örorka meðal karla stafi af geðröskun. Örorka meðal kvenna stafar hins vegar oftast af stoðkerfisvanda.

Þegar staða kvenna og karla meðal öryrkja er borin saman, blasir við að kynin búa við ólík kjör. Mánaðartekjur kvennanna fyrir skatt voru að meðaltali 163.000 krónur á mánuði en karlanna 196.000 krónur. Launamunur kynjanna er því töluverður.

Við eigið mat á heilsu segir tæpur helmingur karla að heilsa þeirra sé slæm en 56% kvenna segjast heilsulitlar.

Þegar fólk er spurt hversu ánægt það er með líf sitt á kvarðanum 1-10, kemur í ljós að meðaltalið meðal karla er 6 en kvenna 6,3.

Áhugasömum er bent á að í skýrslunni er einnig að finna úttekt á öðrum þáttum sem varða lífskjör og hagi öryrkja.

EJ

Lífskjör og hagir öryrkja. skýrslan í heild (pdf-skjal)

Hér fyrir neðan eru tenglar á umfjöllun fjölmiðla 15. nóvember.

Frétt Stöðvar 2 um skýrslun

– Viðtal við Guðrúnu Hannesdóttur höfund skýrslunnar og Guðmund Magnússon formann ÖBÍ

Frétt RÚV – útvarps um skýrsluna

Frétt RÚV – sjónvarp um skýrsluna – viðtal við Guðmund Magnússon, fromann ÖBÍ og Guðrún Hannesdóttir, höfund skýrslunnar.

Frétt mbl.is um skýrsluna