Skip to main content
Frétt

Ekki á að gera eignir þess upptækar

By 9. desember 2014No Comments
Grein eftir Eftir Guðmund Inga Kristinsson sem birtist í Morgunblaðinu 5. desember.
Ekki á að gefa fólki peninga, heldur skila peningum sem hafðir voru af fólki. Það á ekki að skilja þetta fólk útundan. Ekki á að gera eignir þess upptækar. Ekki frekar en eignir fjármagnseigenda voru gerðar upptækar. Ekki frekar en eignir fólks með myntkörfulán voru gerðar upptækar. Þetta fólk á rétt á þessari leiðréttingu. Vandamál á einum stað réttlætir ekki að eign fólks sé tekin af því. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í Kastljósi 10. nóvember sl. um leiðréttinguna, þar sem hann var að verja 20 milljarða króna greiðslur til hálaunaðra. Þá er það samkvæmt lögum að ekki má gera eignir fólks upptækar.

Á þetta ekki einnig við um lífeyrissjóðseignir láglaunamanna? Vaxtaskatturinn er 20% og því er fáránlegt að skatta lífeyrinn um nær 39% og síðan skerða bætur TR um sömu prósentutölu sem er ekkert annað en eignaupptaka og brot á lögum. Þetta er það sem lesa má úr orðum forsætisráðherra, því ef það er eignaupptaka að láta ekki alla fá leiðréttingu, þá er það brot á sömu lögum að taka lífeyriseignina af þeim sem hafa borgað hana og eiga hana á sinni kennitölu hjá lífeyrissjóðunum. Þetta er samtals 63% skattur og skerðing og fyrstu 54.000 krónurnar af lífeyrinum eru teknar eignarnámi. Þetta er því ekkert annað en eignaupptaka með samþykki ríkisstjórnar og verkalýðshreyfingarinnar.

Lögin segja að bætur skuli breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Við ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þetta hefur ekki verið staðið við og því brotin gróflega lög á lífeyrisþegum. Með því er einnig gerð eignaupptaka á löglegri bótahækkun okkar, miðað við orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í Kastljósi vegna leiðréttingarinnar fyrir hátekjufólk.

Það vantar 30% hækkun á lífeyri okkar eða um 60.000 kr. eftir skatt. Inni í þessari tölu er ekki eignaupptakan á lífeyri okkar og þá ekki aðrar skerðingar á t.d. fasteignagjöldum, lánum frá LÍN, leigubótum og öðrum keðjuverkandi skerðingum. Þá erum það við sem fáum ekki leiðréttingu á lánum, þar sem við keyptum eignir okkar eftir 2010 og tókum við stökkbreyttum lánum og verðum að borga þau að fullu. Borgum sjálf leiðréttinguna fyrir ríkið og fáum ekki skattaafslátt vegna séreignasparnaðar því við eigum engan þannig sparnað, með lífeyrinn sem einu tekjurnar.

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, segir í viðtali við Eyjuna vegna auglýsingar Öryrkjabandalagsins um að örorkubætur séu allt að 30% lægri en lágmarkslaun að auglýsingarnar fari „langt yfir strikið“ og hún undrist jafnframt þessa gagnrýni í ljósi þess að núverandi ríkisstjórn hafi bætt 9 milljörðum króna í málaflokkinn og hún átti sig ekki á út á hvað þessi barátta gengur. Fyrri ríkisstjórn skerti framlögin um 16 milljarða króna, þá heyrðist ekki hátt í bandalaginu segir hún.

Þarna segir hún að það vanti 7 milljarða króna upp á það sem fyrri ríkisstjórn skerti og með því viðurkennir Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, að þessi ríkisstjórn hefur ekki staðið við loforðin um að leiðrétta skerðinguna.

Hækkun matarskatts úr 7% í 11% er enn einn skattur á okkur og hækkun barnabóta skilar okkur ekki krónu.

Verðtrygging á lífeyri okkar fer í gegnum vasa okkar og í ríkissjóð með skerðingum, sem er ekkert annað en eignaupptaka. Vogunarsjóðir og aðrir hrægammasjóðir segja 35% skatt á þá eignaupptöku. Hvað getum við sem eigum að tóra á um 200.000 krónum á mánuði þá sagt? Er þá eignaupptaka á stórum hluta af lífeyrisssjóðsgreiðslum okkar nokkuð annað en þjófnaður?

Við greiðum tekjuskatt af tekjum yfir 135.000 kr. á mánuði. Eldri borgarar fá um 160.000 kr. á mánuði eftir skatt og verða að borga um 60-70% af þeirri upphæð í leigu eða í afborgun af íbúð og þurfa því að lifa af mánuðinn á 30-50 þúsundum króna. Þá er siðlaus eignaupptaka á lífeyrissjóðssparnaði okkar og bankasparnaði. Verðum að borga leiðréttingu upp á um 4 milljónir króna fyrir ríkið og fáum ekki skattaafslátt á séreignasparnað og enga leiðréttingu samkvæmt lögum á lífeyri okkar.

Hættið strax að skatta, skerða og gera eignaupptöku á lífeyri okkar sem skilar okkur til fátæktar. Fulla leiðréttingu strax og skilið eignaupptökunni á lífeyrissparnaði okkar, því ef ekki þá er ríkisstjórnin með eignaupptöku að fara „langt yfir strikið“.

Höfundur er öryrki og formaður BÓTar.