Skip to main content
Frétt

Ellen Calmon formaður ÖBÍ svarar fyrir auglýsingu

By 20. nóvember 2014No Comments

Ellen hafnar því að veist sé persónulega að Pétri Blöndal og Vigdísi Hauksdóttur alþingismönnum í auglýsingu bandalagsins.

Viðtal við Ellen

Ellen segir að spjótunum sé beint að ríkisstjórnarflokkunum, sem þau séu fulltrúar fyrir. Bæði séu þau formenn eða varaformenn áhrifamikilla nefnda þingsins.

Pétur, sem er þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á þingi í gær að sér væri misboðið vegna auglýsingar Öryrkjabandalagsins. Hún væri einungis til að sverta hann og Vigdisí Hauksdóttur, formann fjárlaganefndar. Pétur sagði auglýsinguna ómálefnalega og ekki Öryrkjabandalaginu sæmandi.

Ellen Calmon, formaður ÖBÍ, var gestur Morgunútgáfunnar í morgun. Hún segir að í auglýsingunni sé ekki verið að persónugera eitt eða neitt. „Hér er verið að sýna fram á að þetta eru þessir flokkar sem lofuðu þessu og nú er verið að fjalla um fjárlög og þetta eru atriði sem við erum að benda á í fjárlögum. Að þessu leytinu finnst mér þetta hvimleitt. Það sem mér þykir kannski örlítið vænt um er að þau taka þetta til sín að því leyti að þetta virðist skipta þau máli. Og það er jákvætt. Það er jákvætt að þetta skipti þau máli. Það er jákvætt að þau taki þetta til sín á þessu stigi fjárlagaumræðunnar,“ segir Ellen.

Hún bendir á að í dag eigi að hefjast önnur umræða um fjárlög – tilgangurinn með auglýsingunum hafi verið að vekja þingmenn og ríkisstjórnina til umhugsunar „um hvað þeir lögðu upp með þegar þeir fóru í kosningar og hver raunveruleg staða er í þessum fjárlögum sem við erum að sjá núna.“